Tendra Marína Ósk og Mikael Máni eru samstilltur dúett.
Tendra Marína Ósk og Mikael Máni eru samstilltur dúett.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Helgi Snær Sigurðsson helgisnaer@mbl.is Breiðskífan Tendra með samnefndri hljómsveit kom út í byrjun nóvember á netinu, á geisladiski og vínylplötu.

Helgi Snær Sigurðsson

helgisnaer@mbl.is

Breiðskífan Tendra með samnefndri hljómsveit kom út í byrjun nóvember á netinu, á geisladiski og vínylplötu. Tendru skipa Mikael Máni og Marína Ósk en þau hafa komið víða fram á undanförnum misserum sem dúett og einkum flutt djass og þjóðlagatónlist eftir aðra. Bæði eru djassmenntuð, Mikael gítarleikari og Marína söngkona, en á Tendru kveður við annan tón því hún er ekki djassplata. Mikael segir þau Marínu hafa stofnað Tendru til að skilja sig frá dúettinum Marínu og Mikael og þjóðlaga- og djasstónlistinni. „Þetta er meira svona „alternative pop“ og „singer/songwriter“ tónlist,“ segir hann um Tendru og mögulega muni Tendra taka algjörlega við af Marínu og Mikael.

Mikael og Marína hafa unnið saman í sex ár og fyrir þremur árum gáfu þau út plötu saman, Beint heim , undir nafninu Marína & Mikael og var það dægurlaga- og djassplata. Platan var tilnefnd sem djassplata ársins á Íslensku tónlistarverðlaununum árið 2018 og hafa Marína og Mikael einnig verið tilnefnd hvort í sínu lagi, Marína í tvígang nú í ár í opnum flokki fyrir plötu sína Athvarf , fyrir plötu og lag ársins og Mikael sem lagahöfundur ársins í djassflokki fyrir plötuna Bobby .

Mystísk blæja

Mikael er beðinn um að lýsa tónlistinni frekar. „Þar sem þetta er fyrsta platan okkar leyfðum við okkur að vera mjög leitandi þannig að þetta er ekki endilega í einum stíl sem er svolítið gaman og maður fær kannski bara svona „leyfi“ til að gera þetta á fyrstu plötu,“ segir Mikael. „Við Marína ákváðum að gera þessa plötu að mestu sjálf og gera tilraunir þannig að ég spila eiginlega inn öll hljóðfærin en tveir snillingar voru með okkur. Við erum með selló í nokkrum lögum sem Heiður Lára Bjarnadóttir leikur á og Kristofer Rodriguez Svönuson leikur á slagverk,“ bætir Mikael við.

„Á fyrri hlið plötunnar sérstaklega myndi ég lýsa tónlistinni eða sándinu þannig að mystísk blæja væri yfir því. Það er bæði rafsánd og svona hljómborðssánd eins og úr Rhodes sem virkar eins og hljóðmynd, dálítið eins og þú sért í kvikmynd og þau lög eru mjög „visual“,“ útskýrir Mikael. Fyrir honum sé útkoman ævintýraleg.

Hönnunin mikilvæg

Blaðamaður nefnir að langt sé síðan hann heyrði ungan tónlistarmann tala um „aðra hlið“ plötu þar sem allt sé meira og minna stafrænt í dag. Í „gamla daga“ hafi þetta verið heilmikið mál, A- og B-hlið vínylplatna, hvað væri á hvorri, í hvaða röð og hvert væri upphafs- og lokalag hvorrar hliðar. Mikael hlær að þessu og segist allt frá unga aldri hafa spáð í hvaða hlið höfðaði mest til sín á vínylplötum. Hann nefnir Electric Ladyland með Jimi Hendrix, hina tvöföldu vínylplötu. „Fjórða hliðin, D, er uppáhalds,“ segir Mikael sposkur en á henni má m.a. finna „Voodoo Child“ og „All Along the Watchtower“.

Mikael er spurður að því hvort miklu hafi skipt þau Marínu að gefa út á vínyl og geisladiski. Já, hann segir svo vera, miklu skipti þau hvernig platan sé hönnuð, hvernig hún líti út. „Það kemur ekki fram á digital formi og tími fólks sem er að hlusta er líka svo mikilvægur og ef það hlustar á plötuna af vínyl er upplifunin miklu dýpri en ef hlustað er í tölvunni,“ útskýrir Mikael. Þau Marína hafi í heildina fullunnið 14 lög en ákveðið að stytta plötuna niður í níu svo fólk gæti kynnst þeim hægt og rólega. Í tilkynningu er talað um „early-bítlaplötulengd“.

Vildu gera sem mest sjálf

Textana semja bæði Mikael og Marína og segir Mikael að platan sé sú fyrsta með textum eftir hann. Hann hafi til þessa verið mest í því að leika tónlist án söngs en á plötunni Tendra skiptast þau Marína á sem textahöfundar. „Þetta er mjög gaman fyrir mig því uppáhaldstónlistarmaðurinn minn er Bob Dylan, ég hef hlustað mest á hann af öllu tónlistarfólki,“ segir Mikael um Nóbelsskáldið góða og að þar séu textarnir afar mikilvægir.

Textarnir á Tendra fjalla um „mjög hversdagslega hluti; idolíseringu, lata morgna, söknuð og sjálfsleit – frá allskonar skrítnum sjónarhornum,“ eins og segir í tilkynningu og Mikael segir ákveðið flæði að finna í textunum sem minni á hugarflæðisskrif í bland við ljóð. „Það rímar líka við það sem er fjallað um á plötunni,“ útskýrir Mikael.

Tónleikahald liggur nú að mestu niðri vegna fjöldatakmarkana og ætlar Tendra því að gefa út seríu stuttmyndbanda í stað þess að halda útgáfutónleika. Mun tvíeykið gefa út fjögur myndbönd sem verða eins konar örtónleikar og það fyrsta mun líta dagsins ljós í febrúar 2021. Í myndböndunum mun Tendra flytja eigin lög í bland við önnur íslensk og þjóðþekkt.