Klipping Ekki hefur verið hægt að fá klippingu á höfuðborgarsvæðinu í 5 vikur.
Klipping Ekki hefur verið hægt að fá klippingu á höfuðborgarsvæðinu í 5 vikur.
Karítas Ríkharðsdóttir karitas@mbl.is Hársnyrtar eru orðnir óþreyjufullir eftir að fá að byrja að klippa aftur eftir. Hárgreiðslustofur á höfuðborgarsvæðinu hafa verið lokaðar frá 7. október af sóttvarnaástæðum og á öllu landinu frá 20.

Karítas Ríkharðsdóttir

karitas@mbl.is

Hársnyrtar eru orðnir óþreyjufullir eftir að fá að byrja að klippa aftur eftir. Hárgreiðslustofur á höfuðborgarsvæðinu hafa verið lokaðar frá 7. október af sóttvarnaástæðum og á öllu landinu frá 20. október og ekkert liggur fyrir hvenær heimilt verður að opna þær aftur.

Lilja Kristbjörg Sæmundsdóttir, formaður Félags hársnyrtisveina, segir hársnyrta algjörlega í lausu lofti. Tekjufallið í stéttinni sé algjört og enn er ekki hægt að sækja um lokunarstyrki. Hún segir hlutina hreyfast hægt í þeim málum og hársnyrta þurfa vissu í sínum málum, ekkert sé í hendi ennþá og það skapi óþarfa kvíða.

Hún segir óvissuna erfiðasta og skort á samtali gera sínum félagsmönnum erfiðara fyrir. Mikilvægt sé fyrir hársnyrta að vita helst fyrir helgina hvort möguleiki sé á opnunum í næstu viku og hvort það verði þá innan einhvers ramma sem hægt væri að byrja að undirbúa um helgina. „Það væri t.d. gott að geta skipulagt vaktir, ef staðan verður sú að það þarf að takmarka fjölda inni á hverri stofu gætu hársnyrtar skipt með sér tímum.“

Lilja segir sína félagsmenn þó svartsýna á að stofur verði opnaðar í næstu viku. „Miðað við hvernig Þórólfur (Guðnason sóttvarnalæknir) talar, þá er engin sérstök ástæða til bjartsýni.“ Þórólfur sagði á upplýsingafundi almannavarna í gær, að hann hefði sent heilbrigðisráðherra tillögur um hvað taki við næsta miðvikudag þegar núverandi reglur falla úr gildi. Í þeim tillögum fælist einhver tilslökun en hann teldi að fara yrði hægt í sakirnar.

Gagnrýnir breytingar á hlutabótaleiðinni

Lilja gagnrýnir harðlega að miðað sé við að starfsfólk sé í 50% vinnu til þess að falla undir hlutabótaleiðina, en viðmiðið var 25% í vor. Þetta hafi komið illa við hárgreiðslustofur sem hafa margar hverjar enga innkomu eins og staðan er í dag.

Sara Aníta, hársnyrtisveinn í meistaranámi, segir ástandið mjög erfitt. Það sé erfitt að hætta að gera það sem hún elskar að gera og hafa engar tekjur á meðan.

Stofan sem Sara leigir stól hjá gat komið til móts við sína hársnyrta í leigu í vor þegar fyrsta bylgjan skall á. Sara segir fyrirtækið nú ekki í sömu stöðu í þetta skipti og hársnyrtar þurfi því að greiða stólaleigu þótt innkoman sé engin.

Hún segir óvissuna um afkomuna mikla þar sem framundan séu jól. Desember er alla jafna stærsti útgjaldamánuður einstaklinga en þá eru einnig mestu uppgripin fyrir hársnyrta. Sara er sammála því að óvissan sé meiri í þessari bylgju faraldursins en í vor og segir hana valda meiri kvíða.