Vörn Kári Árnason (t.h.) og Ádám Szalai (t.v.) eigast við í Búdapest.
Vörn Kári Árnason (t.h.) og Ádám Szalai (t.v.) eigast við í Búdapest. — Ljósmynd/Szilvia Micheller
„Það er erfitt að hugsa til þess að þetta sé hugsanlega mitt síðasta verkefni,“ sagði niðurlútur Kári Árnason, varnarmaður íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, í samtali við Stöð 2 Sport eftir 2:1-tap Íslands gegn Ungverjalandi í...

„Það er erfitt að hugsa til þess að þetta sé hugsanlega mitt síðasta verkefni,“ sagði niðurlútur Kári Árnason, varnarmaður íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, í samtali við Stöð 2 Sport eftir 2:1-tap Íslands gegn Ungverjalandi í umspili um laust sæti á EM á Puskás Aréna í Búdapest í gærkvöldi.

Kári er orðinn 38 ára gamall en hann á að baki 86 A-landsleiki þar sem hann hefur skorað sex mörk.

„Ég er ekki hættur í fótbolta en mér finnst ólíklegt að ég sé að fara að spila fleiri landsleiki, ekki nema þá að séu til einhverjar undratöflur til þess að framlengja knattspyrnuferla.

Þetta er bæði erfitt og tilfinningaþrungið fyrir mig persónulega. Það er erfitt að sætta sig við þessa niðurstöðu og mér finnst í raun erfitt að tala um þetta,“ bætti Kári við en hann er samningsbundinn úrvalsdeildarliði Víkings í Reykjavík.

Landsliðsfyrirliðinn Aron Einar Gunnarsson var að leika sinn 90. landsleik í gær en hann var ómyrkur í máli í leikslok.

„Það fyrsta sem kemur upp í hugann er svekkelsi en þessi úrslit marka samt sem áður engin endalok,“ sagði landsliðsfyrirliðinn.

„Ef maður hugsar út í það þá er stutt í næstu undankeppni. Að vera búnir að vinna jafn hart að einhverju markmiði eins og þessu og komast svo nálægt því en ná ekki að klára það er virkilega svekkjandi.

Við vorum yfir í leiknum á 88. mínútu en náum samt ekki að klára þetta. Við getum bara sjálfum okkur um kennt,“ bætti landsliðsfyrirliðinn við í samtali við Stöð 2 Sport.