[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sviðsljós Ómar Friðriksson omfr@mbl.is Stöðugildi starfa á vegum ríkisins voru tæplega 25 þúsund talsins um seinustu áramót og hafði þá fjölgað um 0,8% á seinasta ári. Frá 2013 hefur stöðugildum hjá ríkinu fjölgað ár hvert, mest milli áranna 2016 og 2017. Samtals fjölgaði stöðugildum hjá ríkinu um 2.324 frá árinu 2013 til seinustu áramóta eða um 10,3%.

Sviðsljós

Ómar Friðriksson

omfr@mbl.is

Stöðugildi starfa á vegum ríkisins voru tæplega 25 þúsund talsins um seinustu áramót og hafði þá fjölgað um 0,8% á seinasta ári. Frá 2013 hefur stöðugildum hjá ríkinu fjölgað ár hvert, mest milli áranna 2016 og 2017. Samtals fjölgaði stöðugildum hjá ríkinu um 2.324 frá árinu 2013 til seinustu áramóta eða um 10,3%.

Þessar upplýsingar koma fram í nýbirtum niðurstöðum Byggðastofnunar úr árlegri könnun á hvar störf á vegum ríkisins eru unnin á landinu.

Til samanburðar við fjölgun ríkisstarfa á seinustu sex árum má benda á að landsmönnum fjölgaði hlutfallslega nokkru meira á sama tímabili eða um 11,8% skv. mannfjöldatölum Hagstofunnar. Þá er rétt að hafa í huga að fjöldi stöðugilda segir ekki nákvæmlega til um fjölda ríkisstarfsmanna, sem eru fleiri því margir þeirra eru í hlutastörfum.

Í fyrra fjölgaði stöðugildum hjá ríkinu um 199 á landsvísu. Kemur fram í umfjöllun Hagstofunnar að þá varð mest fækkun stöðugilda hjá ISAVIA og Íslandspósti, en mest fjölgun átti sér stað hjá Háskóla Íslands og Landspítala.

Mest fjölgunin á landinu átti sér stað á höfuðborgarsvæðinu í fyrra en þar fjölgaði stöðugildum ríkisins um 222 eða 1,3%. Hlutfallsleg fjölgun ríkisstarfanna í einstökum landshlutum varð þó örlítið meiri á Vesturlandi eða 1,4% en þar fjölgaði stöðugildum um 11 á árinu. Mest fækkunin varð hins vegar á Suðurnesjum en þar fækkaði stöðugildum í fyrra um 60 eða 4,2%.

71% allra ríkisstarfa eru unnin á höfuðborgarsvæðinu

Í skýrslu um niðurstöðurnar er bent á að á höfuðborgarsvæðinu búa 64% landsmanna en þar eru um 71% allra ríkisstarfa unnin. Á landsvísu er fjöldi stöðugilda ríkisins um 7% af íbúum landsins, eða rúmlega 10% mannfjölda á vinnualdri (15-64 ára).

Fram kemur að hlutfall stöðugilda af mannfjölda á vinnualdri er hæst á höfuðborgarsvæðinu eða 11,3% og næsthæst á Norðurlandi vestra eða 10,5%. Lægst er hlutfallið hins vegar á Suðurnesjum eða 7,1% og þar fækkaði stöðugildum hlutfallslega mest milli ára eins og áður segir.

„Í Hafnarfirði fækkaði stöðugildum um 67 eða 11,3% og kemur það helst til vegna fækkunar hjá Íslandspósti og breytinga á rekstri hjúkrunarheimilisins Sólvangs. Í Kópavogi fjölgaði stöðugildum um 30 eða 3,6%, helst vegna fjölgunar hjá sýslumanni höfuðborgarsvæðisins, Menntaskólanum í Kópavogi og heilsugæslunni. Í Reykjavík fjölgaði stöðugildum um 252 sem eru 1,6%. Þar varð fjölgun m.a. hjá Háskóla Íslands, Háskólanum í Reykjavík, Landspítala, lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu, Þjóðleikhúsinu og Alþingi, en mest fækkaði hjá Íslandspósti og á Grund, dvalar- og hjúkrunarheimili. Í Seltjarnarnesbæ fjölgaði stöðugildum um sjö eða um 14,6% en þar fjölgaði bæði hjá heilsugæslunni og Fangelsismálastofnun,“ segir í úttektinni.

Ef litið er á störf á vegum ríkisins á einstökum þéttbýlisstöðum kemur m.a. fram að stöðugildum fækkaði í Reykjanesbæ í fyrra frá árinu á undan en frá 2013 hefur þeim fjölgað þar um 523. Í Akureyrarbæ fjölgaði stöðugildum um 20 í fyrra og hefur þeim fjölgað um 167 frá 2013. Í Árborg fjölgaði stöðugildum um 24 eða 4,1% á síðasta ári.

Breytingar á ríkisstörfum
» Á Vestfjörðum fækkaði stöðugildum um fimm í fyrra m.a. vegna fækkunar hjá Orkubúi Vestfjarða og Íslandspósti.
» Akranes, Borgarbyggð og Snæfellsbær voru einu sveitarfélögin á Vesturlandi þar sem stöðugildum fjölgaði á milli ára í fyrra.
» Á öllu Norðurlandi vestra fjölgaði um tvö stöðugildi á síðasta ári.
» Í Fjarðabyggð fækkaði stöðugildum um fimm í fyrra, einkum vegna fækkunar hjá Heilbrigðisstofnun Austurlands.
» Stöðugildum fækkaði um 14 í Vestmannaeyjum eða 7,8%. Munar þar mestu um fækkun hjá Heilbrigðisstofnun Suðurlands.