Ragnhildur Þrastardóttir Karítas Ríkharðsdóttir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hyggst leggja fram minnisblað Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis á ríkisstjórnarfundi í dag, en þar verður farið yfir tillögur hans að áframhaldandi aðgerðum vegna...

Ragnhildur Þrastardóttir

Karítas Ríkharðsdóttir

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hyggst leggja fram minnisblað Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis á ríkisstjórnarfundi í dag, en þar verður farið yfir tillögur hans að áframhaldandi aðgerðum vegna kórónuveirufaraldursins. Núverandi aðgerðir gilda til 17. nóvember og hefur Þórólfur sagt að áfram megi búast við töluverðum takmörkunum þó að einhverjum þeirra verði aflétt.

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, segist í samtali við Morgunblaðið vona að hörðum aðgerðum sé ekki að fara að ljúka á næstunni. „Það væri ansi heimskulegt á þessu augnabliki að létta á þessum aðgerðum. Eitt af því sem við erum búin að læra á síðustu mánuðum er hversu hratt þetta getur blossað upp. Ég held því fram að við eigum að setja okkur markmið og það markmið sem ég vil setja efst á forgangslista er að sjá til þess að börn geti farið í skóla og verið í skóla á eðlilegan máta,“ segir Kári.

Hann leggur áherslu á mikilvægi þess að börn og unglingar geti sótt nám, því þau séu framtíð íslensks samfélags. „Ég myndi vilja sjá innan við eitt smit á dag í tvær vikur áður en ég færi að velta því fyrir mér að slaka á einhverju öðru. Stóra markmiðið er að sjá til þess að þetta unga fólk sem erfir landið komi út úr þessu ósnert.“

Útlitið gott en smit enn of mörg

Háskóli Íslands birti á vef sínum í gær nýtt spálíkan um þróun faraldursins, en þar er gert ráð fyrir að smitum muni fækka jafnt og þétt, þó breytingin sé ekki mikil frá fyrri spám. Thor Aspelund, prófessor í líftölfræði, segir í samtali við Morgunblaðið í dag að útlitið sé gott hér á landi, en faraldurinn er í örum vexti annars staðar, til dæmis á meginlandi Evrópu.

18 ný smit greindust í gær og segir Thor að slíkar tölur, þar sem smit eru um tuttugu talsins á dag, séu enn of háar. „Það er ekkert öruggt og smitin þurfa að fara eitthvað almennilega niður svo að maður geti verið rólegur með þetta.“