Höfundurinn „Fléttan er úthugsuð og Eva Björg treystir sig í sessi á meðal glæpasagnahöfunda með Næturskuggum,“ segir gagnrýnandi.
Höfundurinn „Fléttan er úthugsuð og Eva Björg treystir sig í sessi á meðal glæpasagnahöfunda með Næturskuggum,“ segir gagnrýnandi. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Evu Björgu Ægisdóttur. Veröld, 2020. Innbundin, 368 bls.

Spennusagan Næturskuggar er um margt merkileg bók. Eva Björg Ægisdóttir stingur á ýmsum kýlum, sem almennt þola ekki dagsbirtuna, en bendir um leið á að í skugga ofbeldis og ódæða er gott og réttsýnt fólk, sem horfir björtum augum fram eftir veg.

Sögusviðið er Akranes í fyrra. Skyggnst er inn í líf fólks um tvítugt, foreldra þeirra og jafnvel afa og ömmu, vinahópa og félaga. Á yfirborðinu virðist flest vera slétt og fellt, en undir niðri kraumar neisti og þegar hann verður að miklu báli verður þessi annars friðsami bær í sviðsljósinu og það ekki að góðu einu saman.

Sagan skiptist í tvo hluta. Í þeim fyrri eru persónur kynntar til leiks og í þeim seinni er farið nánar í gang mála sem áður hefur verið lítillega minnst á. Erfitt er að halda utan um alla sem koma við sögu og með það í huga mættu þeir vera færri. Helstu persónur skera sig samt úr og ekki síst þær sem ekki eru vandar að virðingu sinni.

Knattspyrna, konur og kartöflur hafa oft verið nefnd í tengslum við Akranes og Eva Björg leikur sér aðeins með k-in þrjú. Fátt kemst að hjá Andra annað en knattspyrna og hann virkar sem segull á suma vegna framgöngu sinnar, hvort sem honum líkar betur eða verr, en leikur er ekki sama og vinna og stundum getur verið erfitt að kyngja því. Kræsingar og drykkir hafa víða áhrif, en með misjöfnum hætti þó. Konur eru áberandi og gegna mikilvægum hlutverkum, jafnvel kjaftakerlingar, þótt slökkt sé á þeim að hluta.

Eins og í fyrri glæpasögum Evu Bjargar er Elma Jónsdóttir lögreglukona í aðalhlutverki, ekki aðeins í starfi heldur einnig í tilhugalífinu. Hún á ýmislegt sameiginlegt með Lise Ragnarsdóttur Visser, annarri mikilvægri persónu. Lífsreynsla þeirra er að sumu leyti víti til varnaðar en á sama tíma er gleði þeirra og framtíðarsýn, þegar hún skín, uppörvandi og til eftirbreytni.

Fléttan er úthugsuð og Eva Björg treystir sig í sessi á meðal glæpasagnahöfunda með Næturskuggum .

Steinþór Guðbjartsson