Svekkjandi Willum Þór Willumsson í skallaeinvígi við Alessandro Vogliacco í Fossvoginum í landsleiknum í gær. Willum skoraði mark Íslands.
Svekkjandi Willum Þór Willumsson í skallaeinvígi við Alessandro Vogliacco í Fossvoginum í landsleiknum í gær. Willum skoraði mark Íslands. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fossvogi Kristófer Kristjánsson kristoferk@mbl.is Íslenska U21-árs karlalandsliðið í knattspyrnu varð að sætta sig við afar svekkjandi 2:1-tap gegn Ítalíu á Víkingsvellinum í gær í undankeppni EM. Íslenska liðið hefur verið í baráttu um efstu tvö sæti...

Fossvogi

Kristófer Kristjánsson

kristoferk@mbl.is

Íslenska U21-árs karlalandsliðið í knattspyrnu varð að sætta sig við afar svekkjandi 2:1-tap gegn Ítalíu á Víkingsvellinum í gær í undankeppni EM.

Íslenska liðið hefur verið í baráttu um efstu tvö sæti 1. riðilsins og hefði með sigri tekið stórt skref í átt að lokakeppninni á næsta ári. Willum Þór Willumsson skoraði mark Íslands eftir rúman klukkutímaleik til að jafna metin eftir að Tommaso Pobega hafði komið gestunum yfir. Sá hinn sami skoraði svo sigurmarkið tveimur mínútum fyrir leikslok þegar íslenska liðið reyndi sjálft að kreista fram mark.

Ísland er áfram í 4. sæti riðilins með 15 stig og verður nú að vinna Írland úti á sunnudaginn með öllum tiltækum ráðum til að eiga möguleika á að komast á EM. Ítalir eru áfram efstir, nú með 19 stig, en Írland og Svíþjóð koma þar á eftir. Ísland átti að mæta Armeníu á kýpur 18. nóvember en þeim leik hefur verið frestað vegna stríðsástandsins í Armeníu og ólíklegt að hann geti yfirhöfuð farið fram. Lokakeppni EM2021 fer fram í Slóveníu og Ungverjalandi á næsta ári.

Erfið en rétt leið

Við lifum skringilega tíma og undirbúningur þeirra Arnars Þórs Viðarssonar og Eiðs Smára Guðjohnsen þjálfara hefur vissulega verið eftir því. Leikurinn átti að fara fram í október en var frestað eftir að þrír leikmenn ítalska liðsins greindust með kórónuveiruna við komuna til landsins. Þá þurftu nokkrir í íslenska liðinu að fara í sóttkví við komuna til landsins í byrjun vikunnar og hefur þetta auðvitað haft áhrif.

Það eru allar líkur á því að nokkrir úr þessu liði muni spreyta sig með A-landsliðinu á næstu árum enda ákveðin kynslóðaskipti yfirvofandi þar. Það er ágætt, enda margt í þetta lið spunið. Vel skipað lið Ítalíu sýndi engin ógurleg tilþrif í Fossvoginum í gær og að lokum þurfti heppnismark til að útkljá leikinn. Skot Pobega fór af varnarmanni og þaðan í hornið án þess að Patrik Sigurður Gunnarsson kæmi einhverjum vörnum við í markinu. Alfons Sampsted var drjúgur í hægri bakverðinum og erfitt að ímynda sér annað en að hann geti tekið næsta skref á næstu misserum. Þá mynda þeir Willum Þór, Alex Þór Hauksson og Andri Fannar Baldursson öflugt teymi á miðjunni og flestir áhugamenn um knattspyrnu á Íslandi bíða spenntir eftir framtíð Ísaks Bergmanns Jóhannessonar sem er ekki nema 17 ára.

Nú þurfum við að snúa spjótum okkar til Írlands en íslenska liðinu dugar einfaldlega ekkert annað en sigur, ætli það sér að eiga möguleika á að keppa á Evrópumeistaramótinu í fyrsta sinn síðan 2011.

ÍSLAND – ÍTALÍA 1:2

0:1 Tommaso Pobega 35.

1:1 Willum Þór Willumsson 63.

1:2 Tommaso Pobega 88.

M

Alex Þór Hauksson

Alfons Sampsted

Jón Dagur Þorsteinsson

Willum Þór Willumsson

Dómari : Ioannis Papadopoulos, Grikklandi.

Áhorfendur : Engir.

* Liðsuppstillingar, gul spjöld, viðtöl og greinar um leikina – sjá mbl.is/sport/fotbolti