Sýning Fritz Hendriks IV, Kjarnhiti, verður opnuð í dag í Harbinger en um læsta opnun verður að ræða þar sem Harbinger-galleríinu verður lokað vegna Covid-19.
Sýning Fritz Hendriks IV, Kjarnhiti, verður opnuð í dag í Harbinger en um læsta opnun verður að ræða þar sem Harbinger-galleríinu verður lokað vegna Covid-19. Hægt verður að skoða sýninguna utan frá, í gegnum glugga gallerísins og verða hitalampar við gluggann þennan fyrsta dag sýningarinnar svo gestir geti ornað sér við innlitið. Kjarnhiti tekst á við væntingar, örlög og vonbrigði á tímum hnattrænnar hlýnunar og faraldurssjúkdóma, segir í tilkynningu og verður hægt að skoða sýninguna utan frá allan sólarhringinn fram að jólum. Fritz Hendrik er íslenskur myndlistarmaður og býr og starfar í Reykjavík. Í myndlist sinni hefur hann fjallað um þá meðvituðu og ómeðvituðu sviðsetningu sem einkennir lífið, listir og menningu. Hann fæst einnig við samband hefðar, skynjunar og þekkingar í verkum sínum.