Már fæddist 21. febrúar 1945. Hann lést 12. október 2020.

Útförin fór fram 12. nóvember 2020.

Bæði hér heima og erlendis var Már sérstaklega mikils metinn í störfum sínum á sviði flutninga en hann hafði í áratugi yfirumsjón með stórflutningum hjá Nesskipum. Vegna þess víðtæka trausts sem hann naut, má með sanni segja að hann hafi verið goðsögn í flutningageiranum. Fjölmörg innlend og erlend fyrirtæki nutu þannig um langt árabil góðs af þekkingu hans, reynslu og útsjónarsemi á sviði stórflutninga og vegna hins víðtæka trausts sem hann naut varð hann vinamargur jafnt innan sviðs starfa sinna sem utan. Már var miðpunktur gleðinnar í góðra vina hópi og hann var í senn hógvær maður og litríkur. Hann fylgdist vel með íþróttum og stundaði sjálfur langhlaup vel fram yfir miðjan aldur. Hann var alltaf gegnumheill Valsmaður, en hann hafði líka sterkar taugar til Gróttu, sem var heimaliðið síðustu áratugina. Það var alltaf gaman að skella sér á kappleik með Mása, en ef hann einhverra hluta vegna komst ekki á mikilvægan leik, þá var viðkvæðið jafnan: „Þú sérð bara um þetta!“

Már var traustur veiðifélagi og afburðagóður laxveiðimaður sem gat lesið rétt í óvenjulegar aðstæður á veiðistað á þann hátt sem aðeins fáum veiðimönnum er gefið. Minningarnar úr veiðiferðunum eru margar og þær eru sterkastar frá veiðitúrunum í Kjarrá og Þverá í Borgarfirði, en þær perlur þekkti Már vel. Mikilvægur hluti veiðiferðanna var að njóta skemmtilegrar frásagnarlistar hans, en hann var einstaklega minnisgóður og óþrjótandi sagnabrunnur.

Það var mér og fjölskyldu minni mikið lán að fá að þekkja Má. Vinskapur okkar var mikill og góður alveg frá því við kynntumst gegnum störf okkar um miðjan 9. áratug síðustu aldar. Auk allra góðu minninganna frá daglegum samskiptum okkar, minnist ég sérstaklega ótal tónleika sem við sóttum saman.

Ég kveð minn góða vin með söknuði. Dætrum, tengdasonum og fjölskyldunni allri sendum við Brynja okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Árni Benedikt Árnason.