Jón Halldór Jónsson, fyrrverandi forstjóri Keflavíkurverktaka, fæddist 5. júní 1929 í Reykjavík og ólst upp með foreldrum og systkinum á Öldugötu 26. Hann andaðist á Landspítalanum 3. nóvember 2020.

Foreldrar hans voru hjónin Jón Þorvarðarson, f. 7. mars 1890, d. 23. júlí 1969, kaupmaður í Verðanda í Reykjavík, og kona hans Halldóra Guðmundsdóttir, f. 26. sept. 1894 á Akranesi, d. 10. okt. 1964. Systkini Jóns voru Guðmundur, Þorvarður, Steinunn Ágústa, Ragnheiður og Gunnar. Þau eru öll látin.

Eiginkona Jóns var Soffía Kristín Karlsdóttir, leikkona og revíusöngkona, f. 26. sept. 1928. Hún lést 6. september 2020.

Börn þeirra eru:

1) Björg Karítas Bergmann, maki Óðinn Sigþórsson. Börn: a) Þórunn María, maki Þórarinn I. Ólafsson, eiga 3 börn. b) Kristín Birna, maki Davíð Blöndal, eiga 3 börn. c) Sigríður Þóra á tvö börn. d) Jón Karl, látinn, e) Soffía Björg, f) Guðmundur Bergmann, g) Þórarinn Halldór, maki Sólveig H. Úlfsdóttir, eiga 2 börn. h) Karítas.

2) Birgitta Klasen, látin.

3) Kristín Guðmunda Bergmann, maki Þórólfur Halldórsson. Börn: Þórólfur Jarl, maki Lára Jónasdóttir.

4) Jón Halldór. Sonur hans er a) Jón Halldór, á eitt barn. Sambýliskona Inga L. Helgadóttir. Börn: Elvar Örn. Lovísa. Högni Þór.

5) Helga Sif, látin. Maki Guðmundur Örn Ólafsson. Börn: a) Halldór Kristófer á tvö börn. Sambýliskona Kirsi Keronen. b) Magni Freyr. Maki Kristjana V. Þorvaldsdóttir, eiga tvö börn. c) Linda á eitt barn. d) Ólafur Örn, sambýliskona Sóley Ö. Sverrisdóttir. e) Guðmundur Jökull.

6) Sólveig, látin. Maki Kristinn Sigurður Gunnarsson, látinn. Börn: a) Ingibjörg Jóna, sambýlismaður Þórarinn Æ. Guðmundsson, eiga fjögur börn. b) Jón Gunnar á tvö börn. Kristín Ásta, maki Colby S. Fitzgerald, eiga tvö börn. c) Soffía Ósk, maki Gunnar I. Þorsteinsson, eiga tvö börn.

7) Karen Heba. Maki Vilhjálmur Steinar Einarsson. Börn: a) Anna Soffía á tvö börn. Sambýlismaður Helgi Þórisson. b) Eva Rut, sambýlismaður Guðmundur B. Jónsson, eiga tvö börn. c) Björn Bergmann á 3 börn. Sambýliskona Erla Jóhannesdóttir. d) Brynja Lind, maki Baldvin Þ. Bergþórsson, eiga 3 börn. e) Einar Karl, sambýliskona Sylvía Sigurgeirsdóttir, eiga tvö börn. 8) Dagný Þórunn. Barn: Isaac Þór Derrick Jameson. 9) Halldóra Vala. Börn: a) Alexander Fenrir Viðarsson, b) Ísleifur Elí Bjarnason, c) Hafþór Logi Bjarnason, sambýliskona Arna S. Elíasdóttir. 10) Ragnheiður Elfa. Maki Marco Georgiev Mintchev. Börn: a) Liliana Marsibil Mintchev, b) Georgi Aron Marcosson Mintchev, c) Constantine Hrafn M. Mintchev.

Jón nam við Verzlunarskóla Íslands (1943-1945) og einnig lærði hann skipasmíði í Iðnskólanum í Reykjavík og útskrifaðist þaðan 1951. Sama ár hóf hann störf hjá varnarliðinu á Keflavíkurflugvelli við uppbyggingu og eftirlitsstörf með byggingum. Jón tók við stöðu framkvæmdastjóra Byggingaverktaka Keflavíkur hf. 1. ágúst 1958 og varð síðar samhliða því starfi forstjóri Keflavíkurverktaka frá 1963 til starfsloka árið 2000. Keflavíkurverktakar var öflugt alhliða verktakafyrirtæki sem átti stóran þátt í að reisa mannvirki innan og utan vallar, auk þess að skapa fjölda starfa fyrir iðnaðarmenn á Suðurnesjum og víðar. Jón starfaði alla tíð mikið að félagsmálum. Átti hann sæti í stjórn Sparisjóðs Keflavíkur og var formaður stjórnar Sparisjóðsins um 14 ára skeið. Hann var fulltrúi ríkisstjórnar Íslands í atvinnumálanefnd Reykjaneskjördæmis um árabil. Auk þess sat Jón í stjórn Iðnaðarmannafélags Keflavíkur, í stjórn Hitaveitu Suðurnesja hf. sem þá var í eigu sex sveitarfélaga á Suðurnesjum. Hann kom að fræðslumálum og sat í fræðsluráði Keflavíkur og var varabæjarfulltrúi í Keflavík. Jón var virkur í starfi Sjálfstæðisflokksins. Var formaður fulltrúaráðs Sjálfstæðisfélaganna í Keflavík og fulltrúi á landsfundum Sjálfstæðisflokksins í áratugi. Jón var mikill áhugamaður um stangveiði og var m.a. leigutaki Laxár í Kjós ásamt Páli G. Jónssyni um 20 ára skeið og einnig Norðurár í Borgarfirði um tíma. Hann var félagi í Lionsklúbbi Keflavíkur til fjölda ára.

Útförin fer fram í dag, 13. nóvember, í Ytri-Njarðvíkurkirkju að viðstaddri nánustu fjölskyldu. Athöfninni verður streymt

https://tinyurl.com/y26lwtm8

Virkan hlekk á slóð má nálgast á:

https://www.mbl.is/andlat

Mér er enn í fersku minni þegar ég var kynntur fyrir væntanlegum tengdaforeldrum fyrir rúmum 50 árum síðan. Það var á vordögum þegar þau komu í heimsókn að Bifröst þar sem Björg dóttir þeirra og ég vorum við nám. Þarna hitti ég fyrst þessi glæsilegu hjón Jón H. og Soffíu Karls. Síðan er mikið vatn runnið til sjávar og þau hafa átt langa og viðburðaríka ævi saman. Þau voru samrýnd og samtaka í lífinu og kveðja nú þennan heim á haustdögum, bæði á háum aldri og nánast hönd í hönd. Soffía lést hinn 6. september sl. og tæpum tveimur mánuðum síðar kveður Jón okkur.

Ævistarf þeirra var í Keflavík og þau lögðu mikið til samfélagsins. Jón stýrði þar stóru og mikilvægu fyrirtæki, Keflavíkurverktökum hf., en Soffía vann ötullega að félagsmálum á sviði leiklistar og mannúðarmála. Jón H. var mjög vel gerður maður. Hann var ákveðinn, viljasterkur og réttsýnn. Þessir eiginleikar fleyttu honum áfram í starfi og einkalífi. Keflavíkurverktakar höfðu uppbyggingu á varnarsvæðinu með höndum og það fylgdi forstjórastarfinu að semja um verkefnin við bandaríska herinn. Þar naut fyrirtækið þess trausts sem hinir erlendu aðilar báru til forstjórans. Jón átti mjög auðvelt með erlend samskipti enda var hann heimsborgari í eðli sínu. Fáguð framkoma og samræðusnilld var honum í blóð borin og saman eignuðust þau hjónin góða vini á erlendri grund. Jón var kvaddur til forystu í öðrum ábyrgðarstörfum í Keflavík. Þannig var hann meðal annars formaður stjórnar Sparisjóðs Keflavíkur í 14 ár. Þrátt fyrir annasamt starf gaf Jón sér tíma til að sinna áhugamáli sínu stangveiðinni. Og hann lét ekki þar við sitja heldur gerðist einnig leigutaki og seldi veiðileyfi í Laxá í Kjós um árabil. Ræddi hann oft um á þessum tíma hvað það skipti miklu máli að þjónusta og viðurgerningur í veiðihúsinu væri í hæsta gæðaflokki og segja má að í þeim efnum væri hann á undan sinni samtíð.

Það var gaman að ræða þjóðfélagsmál við Jón. Hann fylgdist mjög vel með fréttum hvort sem var á Íslandi eða erlendis allt fram á síðasta dag. Pöpulismi nútímans var honum lítt að skapi enda hafði hann lifað tímana tvenna. Sem ungur drengur var hann í sveit í nokkur sumur að Höfn í Melasveit hjá Pétri Torfasyni bónda þar. Hann minntist oft á þennan tíma og Pétur sérstaklega með mikilli hlýju og barmaði sér hvergi þótt verkin í sveitinni væru oft erfið og stór fyrir ungan dreng. Þarna sagðist hann hafa lært að vinna og traustur grunnur var lagður að því sem síðar varð. Jón og Soffía bjuggu sér ávallt fallegt heimili. Einbýlishúsið sem Jón byggði í Heiðargilinu bar þess ríkan vott. Fjölskyldan var stór og það var vel fyrir henni séð. Síðustu árin minnkuðu Jón og Soffía við sig húsnæði og fluttu í hentugra húsnæði í Innri-Njarðvík. Þar bjuggu þau síðustu árin, sjálfbjarga og sjálfstæð, líkt og verið hafði allt þeirra líf. Öðruvísi vildu þau ekki hafa það.

Að leiðarlokum þakka ég samfylgdina og bið Guð að blessa minningu elskulegra tengdaforeldra minna.

Óðinn Sigþórsson.

Jón Halldór Jónsson, tengdafaðir minn, oftast nefndur Jón Há, var stórbrotinn maður sem eftir var tekið hvar sem hann fór og lá hátt rómur. Hann var yfirvegaður í fasi og kurteis og það einkenndi hann hversu hreinn og beinn hann var í allri framgöngu og samskiptum. Heiðarleiki var honum í blóð borinn. Hann var líka húmoristi, en þó ekki á kostnað annarra.

Jón var líka ákaflyndur og mjög fylginn sér, og það leyndi sér ekki hvaða skoðanir hann hafði á hlutunum; ekki þurfti að fara í neinar grafgötur um það að hann var sjálfstæðismaður og var hreykinn af því.

Hann var líka lánsamur um margt – heppinn myndu einhverjir segja; ekki bara í spilum, heldur í lífinu, þó þar hafi skipst á skin og skúrir.

Barnalán þeirra Jóns og Soffíu var mikið. Þau eignuðust tíu börn og eru afkomendur þeirra í tugum taldir. Kom sér vel hversu mikill fjölskyldumaður Jón var.

Jón var bæði andlega og líkamlega sterkur maður. Sem strákur var Jón sendur í sveit að Höfn undir Hafnarfjalli í Melasveit. Þá var mjólkin á brúsum sem ekki voru af léttara taginu fullir af mjólk. Það herti strákinn mjög að bera ábyrgð á því að flytja mjólkurbrúsana á hestvagni frá fjósi og upp á brúsapall við þjóðveginn. Í dag þætti slíkt ekki boðlegt. Sumarið 1945, þá 16 ára, vann hann við vegagerð á Þorskafjarðarheiði og sagði að það hefði rignt allt sumarið og heldur hráslagalegt að gista þar í vegavinnutjaldi.

Sá styrkur sem Jón bjó yfir kom sér án efa vel þegar ósæðin sprakk árið 2004. Eftir aðgerð var honum haldið sofandi í fjórar vikur.

Hann náði sér þó vel, en þurfti að ganga við hækju síðan, en kveinkaði sér aldrei.

Jón var mjög reglufastur með marga hluti og fylgdist mjög vel með þjóðmálum hér á landi og erlendis. Alla tíð var hann áskrifandi að Morgunblaðinu. Á laugardögum las hann laugardagsmoggann og sunnudagsmoggann las hann á sunnudegi og byrjaði þá alltaf á að lesa Reykjavíkurbréfið og skemmti sér yfirleitt konunglega við þann lestur; allavega í tíð núverandi ritstjóra.

Jón var afar minnugur og margfróður og hafði skemmtilega frásagnargáfu sem við fengum að njóta í ríkum mæli nánast til hans síðasta dags.

Ég kveð minn góða máta með söknuði.

Þórólfur Halldórsson.

Elsku afi minn hefur kvatt okkur eftir stutt veikindi og eru þau amma nú sameinuð í sumarlandinu. Afi minn var einstakur maður. Afskaplega hjartahlýr og góður. Hann var líka afskaplega fyndinn og skemmtilegur og með svo smitandi hlátur að það var ekki hægt annað en að hlæja með honum. Hann elskaði ömmu og öll börnin sín og samkvæmt mömmu var hann frábær pabbi sem hjálpaði til með uppeldið og skutlaði meðal annars öllum í bíó eða ísrúnt svo amma gæti fengið stundarfrið. Alltaf þegar hann kom heim úr vinnu, hvort sem það var í hádeginu eða þegar vinnudegi lauk, kallaði hann til ömmu að hann væri kominn heim, og bætti svo við „ástin mín“.

Ég get sagt að hann var alveg einstaklega góður afi. Hann var duglegur að skoða heiminn með yngstu barnabörnunum sínum og ég man ekki eftir því að nokkuð þeirra hafi grátið. Ég held að við höfum öll verið hugfangin af því að skoða allt svona hátt uppi í örugga fanginu hans afa, á meðan hann labbaði um hús þeirra ömmu. Ég veit ekki hversu oft hann tók mínar hendur í sínar til að blása í þær hita eftir útileik. Eða hversu oft hann taldi tær og putta. Alltaf með sama góðlega brosið sitt og áhuga í röddinni þótt hann hafi örugglega talið nokkur hundruð tær og fingur. Ég á líka minningar af afa á veturna, úti að gefa fuglunum að borða og við barnabörnin fengum stundum að koma með honum í það verk. Fuglarnir voru svo vanir því að afi gæfi þeim að borða að þeir komu alltaf fljúgandi í stórum hópi yfir hæðina rétt áður en afi birtist á heimleið frá vinnu. Fyrirboði um að afi væri að koma heim.

Afi hafði mjög mikinn, eiginlega brennandi, áhuga á fótbolta og pólitík og ég held að það sé rétt hjá mér að mörg okkar hafi erft þennan áhuga á alla vega öðru hvoru. Ég man hvernig lifnaði yfir afa þegar hann heyrði að ég væri með áhuga á pólitík enda þreyttist hann ekki á að tala um það sem var í gangi hverju sinni.

Hann var alltaf með puttann á púlsinum hvað varðaði heimsins mál. En það var ekki bara spjallað um pólitík heima hjá ömmu og afa, heldur voru oft líflegar umræður um allt milli himins og jarðar þegar systurnar komu saman og svo við barnabörnin og seinna barnabarnabörn. Hlátur og gleði einkenndi þessar stundir þó að inn á milli hafi slæðst alvarleiki þegar eitthvað bjátaði á. Ef mann vantaði hughreystingu eða ráð, þá var gott að fara í heimsókn til ömmu og afa.

Það er eiginlega óhugsandi fyrir mig að fá aldrei aftur að fara heim til ömmu og afa í heimsókn. Svo stór hluti af mínu lífi.

Ég er þakklát fyrir allar þær fallegu minningar sem ég á um afa og ömmu. Ég verð alltaf þakklát fyrir að hafa haft þetta góða fólk í mínu lífi. Elsku afi minn, ég mun sakna þín.

Kristín Ásta Kristinsdóttir.