Inspector Við þráum öll að lífið komist í samt lag að nýju,“ segir Una Margrét Lyngdal Reynisdóttir.
Inspector Við þráum öll að lífið komist í samt lag að nýju,“ segir Una Margrét Lyngdal Reynisdóttir. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is „Það er útilokað að bera saman nám í eðlilegu skólastarfi og fjarnám. Það tekur á að sitja við tölvuna heima allan daginn og þurfa að halda einbeitni og athygli þegar þreytan tekur yfir.

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

„Það er útilokað að bera saman nám í eðlilegu skólastarfi og fjarnám. Það tekur á að sitja við tölvuna heima allan daginn og þurfa að halda einbeitni og athygli þegar þreytan tekur yfir. Þá er heilsuspillandi að sitja fyrir framan tölvuskjá allan daginn,“ segir Una Margrét Lyngdal Reynisdóttir, inspector scholae við Menntaskólann í Reykjavík.

Fela sig á bak við tölvuskjáinn

Sem formaður skólafélagsins er Una Margrét í stöðugum samskiptum við nemendur skólans, sem eru nú um 670. Margvíslegar ráðstafanir í sóttvarnaskyni eru í gildi í MR. Öll kennsla hefur verið á netinu síðan í lok september. Aðeins einn nemandi hefur horfið frá skólanum nú á haustönn og almennt telja stjórnendur skólans starfið á ágætu skriði þótt þungt sé fyrir fæti. Hugsanlegt sé að einhverjir nemendur dragist aftur úr í námi sínu þó heildarmyndin sé enn ekki skýr.

„Að stunda nám byggist alltaf að hluta til á félagslegum tengslum og þegar svo mikilvægan þátt vantar býður slíkt heim hættu á félagslegri einangrun. Að fela sig á bak við tölvuskjáinn er auðvelt,“ segir Una Margrét sem finnst róðurinn nú á haustönn þyngri en í vor. Þá var kennslan við MR, eins og aðra framhaldsskóla landsins, færð yfir á netið um miðjan mars. Þá var ekki reiknað með öðru en að mál kæmust aftur í lag innan skamms.

Ekkert mætt frá 29. september

„Í haust voru sóttvarnir í MR þannig útfærðar að helmingur bekkja í senn mætti í skólann, en aðrir sátu heima. Svona var þessu skipt frá degi til dags. Svo voru reglur hertar frekar og nú höfum við ekkert mætt í skólann frá 29. september. Því vantar að geta borið saman bækur sínar við aðra nemendur eða rökrætt við kennarana í tímum,“ segir Una Margrét sem telur sömuleiðis mikið vanta þegar ekkert sé félagslífið í skólanum; leiksýningar, dansleikir og fleira slíkt.

„Sjálf er ég vel sett, því ég á fjölda vina sem ég hitti reglulega. Svo eru aðrir krakkar sem eiga fáa vini en fá við eðlilegar aðstæður félagsskap í skólanum, sem nú vantar. Þá er staða nýnema mjög erfið, þeirra sem byrjuðu í haust. Þau mæta ekki í skólann; eru í litlum tengslum við kennara og samnemendur. Eru í raun í lausu lofti.“

Í samt lag að nýju

Una Margrét er í 6. bekk MR og stefnir á stúdentspróf í vor. „Auðvitað er eðlilegt að sumu í náminu sé sleppt í þessum fordæmalausu aðstæðum, sem getur síðan haft áhrif í frekara námi. Andleg líðan og að félagsleg tengsl vanti er þó meira áhyggjuefni. Samt vil ég trúa því að þetta sleppi til, því ef maður nær takti í námi á netinu er slíkt lærdómsrík þjálfun í aga og sjálfstæðum vinnubrögðum. Ég kýs því að horfa á jákvæðu hliðarnar, þó að við þráum öll að lífið komist í samt lag að nýju,“ segir Una Margrét Lyngdal Reynisdóttir, inspector scholae, að síðustu.