Litríkur Vincent Tan vakti mikla athygli í kjölfar kaupanna á Cardiff City og er gjarnan áhorfandi á leikjum liðsins.
Litríkur Vincent Tan vakti mikla athygli í kjölfar kaupanna á Cardiff City og er gjarnan áhorfandi á leikjum liðsins. — AFP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Stefán E. Stefánsson ses@mbl.is Það hristi hressilega upp í borgarkerfinu þegar dr. Tryggvi Þór Herbertsson lýsti því yfir í ViðskiptaMogganum á miðvikudag að Tan Sri Vincent Tan hefði enn fullan hug á að reisa 40 milljarða króna Four Seasons-hótel á Miðbakka í Reykjavík. Kristín Soffía Jónsdóttir, formaður stjórnar Faxaflóahafna, brást við á Twitter og sagði málið einkennast af „draumórum“ og að útilokað væri að hann fengi heimild til að taka Miðbakkann undir þessa starfsemi.

Stefán E. Stefánsson

ses@mbl.is

Það hristi hressilega upp í borgarkerfinu þegar dr. Tryggvi Þór Herbertsson lýsti því yfir í ViðskiptaMogganum á miðvikudag að Tan Sri Vincent Tan hefði enn fullan hug á að reisa 40 milljarða króna Four Seasons-hótel á Miðbakka í Reykjavík. Kristín Soffía Jónsdóttir, formaður stjórnar Faxaflóahafna, brást við á Twitter og sagði málið einkennast af „draumórum“ og að útilokað væri að hann fengi heimild til að taka Miðbakkann undir þessa starfsemi.

Forstjóri Faxaflóahafna hefur ekki látið ná í sig og enn er beðið viðbragða Dags B. Eggertssonar borgarstjóra. Benti Tryggvi Þór á að hótel af þessari stærðargráðu, sem hægt væri að reisa og koma í starfsemi á fyrri hluta árs 2023, myndi skila borginni u.þ.b. 600 milljónum króna í fasteignagjöld á ári.

Sá tækifæri í hamborgurum

En hvaða maður er þetta sem Tryggvi talar fyrir? Hver hefur svo djúpa vasa að geta ráðist í 40 milljarða hótelframkvæmdir mitt í því ástandi þar sem ferðaþjónusta heimsins er nær öll á hausnum?

Það er malasískur kaupsýslumaður sem nú þegar hefur fjárfest í einni stærstu hótelkeðju Íslands (félag sem hann stýrir á 75% hlut í Icelandair Hotels) og hefur því orðið verulegra hagsmuna að gæta hér á landi. Það er hins vegar ekki Vincent Tan sjálfur sem stendur í þessum fjárfestingum, heldur félag sem hann stofnaði og hefur stýrt nær óslitið frá árinu 1984. Berjaya Corporation Berhad er skráð í kauphöllina í Kuala Lumpur og er markaðsvirði þess 230 milljarðar dala, jafnvirði 32 þúsund milljarða króna.

Auður hans er hins vegar ekki jafn mikill, og samkvæmt nýjasta lista Forbes yfir auðugustu menn Malasíu vermir hann 23. sætið á listanum með áætlaðar persónulegar eignir upp á 750 milljónir dollara, jafnvirði 103 milljarða króna. Hann kemst því ekki á lista yfir milljarðamæringa tímaritsins, mælt í dollurum, þótt hann hafi um miðjan síðasta áratug átt þar sæti. Á þessum lista sitja nú hvorki meira né minna en 2.250 einstaklingar og því varhugavert að halda því fram að Vincent Tan sé í hópi auðugustu manna veraldar.

En það er fyrrnefnt Berjaya sem gerir hann óvenju áhrifamikinn og slagkrafturinn sem fylgir ákvörðunum hans er slíkur að ekki er ósennilegt að 150 herbergja Four Seasons-hótel verði risið í miðborg Reykjavíkur innan fárra ára ef honum og samverkamönnum hans tekst að telja meirihlutanum í borgarstjórn hughvarf.

Afar breið fjárfestingarlína

Berjaya á fjölda dótturfélaga og hefur fjárfest á breiðu sviði, allt frá fjarskiptafélögum til fjárhættuspila, fasteignaþróunarverkefna til hótelreksturs, í menntastofnunum og fjármálafyrirtækjum og þá hefur hann einnig haslað sér völl á markaði skutlþjónustu og bílasölu. Til marks um fjölbreytileika fjáfestinga félagsins þá keypti það árið 2016 HR Owen, sem er stærsti söluaðili lúxusbíla á borð við Ferrari, Lamborghini og Bentley í heiminum. Yfir félagið setti Vincent Tan Ken Choo, sem fram að þeim tíma hafði stýrt hótelum og spilavítum á Seychelles-eyjum og var einnig um tíma framkvæmdastjóri Cardiff City, velska fótboltaliðsins sem hann keypti hlut í árið 2010. Það er þó ekki eina íþróttaliðið sem orðið hefur á fjárfestingarleið Tan því Berjaya hefur einnig í safni sínu fótboltaliðin FK Sarajevo í Bosníu-Hersegóvínu, K.V. Kortrijk í Belgíu og Los Angeles Football Club.

Vincent Tan er fæddur árið 1952 og hlaut ekki silfurskeið í munni í heimanmund. Líkt og Tryggvi Þór nefndi í fyrrnefndu viðtali í ViðskiptaMogganum hefur hann verið drifinn áfram af miklum metnaði frá unga aldri og sá snemma tækifæri í því að laða alþjóðleg fyrirtæki til Malasíu. 17 ára gamall hóf hann feril sinn sem óbreyttur bankastarfsmaður en það var árið 1980 sem stóra tækifærið kom. Þá fékk hann rekstrarleyfið fyrir McDonalds í heimalandi sínu.

Mikið barnalán

Vincent hefur ekki aðeins verið atorkusamur í alþjóðlegum viðskiptum. Hann er kvæntur og á 11 börn. Meðal þeirra er samfélagsmiðlastjarnan Chryseis Tan, sem árið 2018 gekk í það heilaga með viðskiptajöfrinum Faliq Nasimuddin. Náði athöfnin, sem var hin glæsilegasta í alla staði, augum pressunnar, bæði í heimalandinu og einnig í Bretlandi.

Yngri bróðir Vincents Tan er Danny Tan Chee Sing. Hann er einnig í hópi ríkustu manna Malasíu og eru eignir hans metnar á 665 milljónir dollara, jafnvirði 91 milljarðs króna. Auður þeirra bræðra á sér hins vegar ekki sömu uppsprettur. Danny hefur í áratugi byggt upp byggingarfélagið Tropicana Corporation sem verið hefur á almennum hlutabréfamarkaði í heimalandinu frá árinu 1992.

800 ára garður í Kyoto

Í Kyoto í Japan á Berjaya Four Seasons hótel sem tekið var í notkun fyrir fjórum árum. Það er reist í jaðri 800 ára gamals tjarnargarðs sem setur mikinn svip á umhverfi byggingarinnar.

Kostnaður við framkvæmdina nam 53 milljörðum króna. Í því eru 123 herbergi ásamt 57 lúxusíbúðum sem seldar voru í lok framkvæmda en Four Seasons leigir út þegar eigendur eru ekki á svæðinu. Íbúðaverðið var ekki á sömu slóðum og íslenskur fasteignamarkaður hefur kynnst og hljóp fermetraverð íbúðanna á 7,4-8,9 milljónum króna. Berjaya vinnur nú að framkvæmdum við Four Seasons-hótel í Okinawa í Japan og á teikniborðinu er annað í Yokohama. Allt í allt stefnir fyrirtækið á að byggja 10 hótel undir sömu merkjum í Japan.