Flugsýn Goðafoss er um 30 metra breiður og formfagur. Fremst á myndinni sést nýr útsýnispallur á austurbakkanum sem er vinsæll myndatökustaður.
Flugsýn Goðafoss er um 30 metra breiður og formfagur. Fremst á myndinni sést nýr útsýnispallur á austurbakkanum sem er vinsæll myndatökustaður. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is Árleg Umhverfisverðlaun Ferðamálastofu sem veitt voru nú í vikunni komu í hlut Þingeyjarsveitar fyrir uppbyggingu innviða við Goðafoss.

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Árleg Umhverfisverðlaun Ferðamálastofu sem veitt voru nú í vikunni komu í hlut Þingeyjarsveitar fyrir uppbyggingu innviða við Goðafoss. Þar hefur margvísleg aðstaða verið byggð upp á síðustu árum; stígar lagðir, settir upp útsýnispallar og bílastæði flutt fjær fossinum til að draga úr skarki á fallegum stað.

„Leiðarljós við umhverfisbætur er jafnan að vernda náttúruna og ganga frá mannanna verkum þannig að þau falli vel inn í umhverfið, auki öryggi ferðafólks og séu þannig útbúin að upplifun verði sterk,“ segir Þráinn Hauksson landslagsarkitekt. Hann er í forsvari fyrir Landslag ehf., en þar og hjá Glámu-Kím arkitektum var aðstaðan við Goðafoss hönnuð og þróuð.

Skipulag auðveldaði

Goðafoss í Skjálfandafljóti, sem er nærri Ljósavatnsskarði og í mynni Bárðardals, er 9-17 metra hár eftir því hvar mælt er og 30 metra breiður. Fossinn er formsterkur og myndrænn. Klettar á skeifulaga brún greina fossinn í tvo meginála sem steypast fram af hraunhellu, skáhallt andspænis hvor öðrum. Ætlað er að um 500 þúsund manns komi að fossinum á ári hverju, sem er við Hringveginn því sem næst mitt á milli Akureyrar og Mývatns.

Endurbæturnar við Goðafoss byggðust frá upphafi á góðri samvinnu heimamanna og fagfólks. Verkefnið hófst árið 2013, þegar Þingeyjarsveit hlaut fyrst styrk úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða árið 2013 vegna vinnu við deiliskipulag og landslagshönnun. Stuðningur fékkst síðan í næstu sex árin þar á eftir til stíga- og pallagerðar, merkinga, bílaplans og uppgræðslu. „Að í upphafi væri til staðar gott og heildstætt deiliskipulag skipti sköpum í þessu verkefni. Það auðveldaði alla vinnuna og gaf tóninn fyrir megindrættina, þótt framkvæmdir þróist alltaf eitthvað út frá áætlunum eftir því sem fram vindur,“ segir Þráinn.

Vinsæll myndatökustaður

Lengi var aðkoma flestra að Goðafossi úr vestri, það er beint frá Hringveginum inn á bílastæði skammt frá gljúfri og fossi. Nú hafa þau stæði sem fyrr segir verið flutt og fleiri ný útbúin sunnan við verslunina að Fosshóli, sem er á austurbakka Skjálfandafljóts. Þaðan var síðan lagður gangstígur með gljúfurbarminum austanverðum nánast alveg að fossinum þar sem útbúinn var pallur. Þar er gott sjónarhorn að fossinum fagra, að sögn Þráins, og vinsæll myndatökustaður.

Umhverfisverðlaun Ferðamálastofu hafa verið veitt frá 1995 og eru hvatning til ferðaþjóna um að huga vel að umhverfismálum í skipulagi og framkvæmd. Verðlaunin voru nú veitt í fimmta sinn fyrir verkefni sem hlutu styrk úr Framkvæmdasjóði ferðmannastaða – en í öllum þeim tilvikum þykir hafa tekist sérstaklega vel til.