Friðrik Sigurðsson fæddist 22. maí 1957 á Akureyri. Hann lést í Noregi 25. október 2020. Foreldrar hans voru hjónin Sigurður Kristófer Árnason skipstjóri, f. 7. febrúar 1925, d. 18. nóvember 2007, og Þorbjörg J. Friðriksdóttir hjúkrunarkennari, f. 25. október 1933, d. 12. apríl 1983. Bræður Friðriks eru Steinar, f. 13. sept. 1958, d. 13. nóv. 2019, Árni Þór, f. 30. júlí 1960, Þórhallur, f. 7. ágúst 1964, og Sigurður Páll, f. 10. september 1968.

Friðrik kvæntist 1982 Margréti H. Eydal, félagsráðgjafa, f. 8. júlí 1958. Þau skildu árið 2015. Börn þeirra eru Hrefna, f. 14. apríl 1983, Sindri Már, f. 28. nóv. 1988 og Brynjar Þór, f. 22. júlí 1992. Sambýliskona Brynjars er Karoline Skjevik. Sambýliskona Friðriks undanfarin ár er Celia Regina Simas.

Foreldrar Friðriks hófu búskap á Akureyri þar sem hann fæddist en þau fluttu búferlum til Reykjavíkur þegar Friðrik var ársgamall. Friðrik og bræður hans ólust upp í Smáíbúðahverfinu og í Hlíðunum. Hann lauk stúdentsprófi frá MH 1978 og stundaði síðan nám í sjávarlíffræði við háskólana í Bergen og Þrándheimi, þaðan sem hann lauk cand.real.-prófi með áherslu á fiskeldi. Að námi loknu fluttust Friðrik og Margrét til Íslands þar sem Friðrik tók við starfi framkvæmdastjóra Landssambands fiskeldisstöðva og starfaði að fiskeldismálum þar til hann söðlaði um og tók við starfi framkvæmdastjóra Kísilverksmiðjunnar við Mývatn og síðar stýrði hann sambærilegum rekstri í Kína um tíma. Hann snéri aftur til starfa í sjávarútvegi árið 1995 og stýrði þróunarsviði Íslenskra sjávarafurða hf., m.a. með verkefnum í Namibíu og á Kamtsjatka. Fjölskyldan flutti til Þrándheims í Noregi árið 2000 og þar hefur Friðrik búið og starfað síðan, fyrst og fremst á sviði fiskeldismála, nú síðast sem ráðgjafi hjá INAQ as.

Friðrik bjó að víðtæku neti samstarfsfólks í rekstri, rannsóknum og þróun innan fiskeldis og framleiðslu sjávarafurða í Noregi, á Íslandi og mörgum öðrum löndum. Atorka hans og fagmennska gerði hann að eftirsóttum ráðgjafa á þessu sviði víða um heim. Friðrik var mikill áhugamaður um og hafði yfirburðaþekkingu á tónlist, ekki síst jazz-tónlist, og eignaðist marga góða vini meðal þekktra jazz-tónlistarmanna á Norðurlöndum og víðar.

Útför Friðriks fer fram frá Havstein kirkju í Þrándheimi í dag, 13. nóvember 2020, kl. 13.

Það er höggvið mikið skarð í hóp okkar fimm bræðra nú þegar Friðrik er fallinn frá, tæpu ári eftir að Steinar bróðir okkar varð bráðkvaddur. Þeir voru elstir, Frikki og Steini, fæddir hvor á sínu árinu og voru jafnan nefndir í sömu andrá, svo samrýndir voru þeir í æsku.

Það er stundum erfitt að átta sig á þeim aðstæðum sem lífið færir manni, ekki síst á svona stundum þegar menn á besta aldri hverfa yfir móðuna miklu á snöggu augabragði.

Hugur minn hefur reikað mikið til æskuáranna að undanförnu. Ég var þriðji í röðinni á fjórum árum og þeir Frikki og Steini ætluðu sér aldeilis að sjá um uppeldi þriðja bróðurins og þá gat gengið á ýmsu. Annars voru þeir ólíkir bræður, Frikki var yfirvegaðri og tók hlutverk sitt sem frumburðar alvarlega, Steini var uppátækjasamari og stjórnaði gjarnan ferðinni í bernskubrekum þeirra. Ég leit þó alltaf upp til þeirra beggja, þeir tóku líka málstað minn og kenndu mér margt. Svo liðu æskuárin og við héldum allir utan til náms. Við Frikki vorum báðir í Noregi og áttum auðvelt með að vera í sambandi á þeim tíma sem hvorki farsímar né tölvur greiddu samskipti fólks. Mér er sérlega minnisstætt eitt skipti að ég heimsótti hann í Bergen og við fórum saman á jazz-tónleika.

Hann var forfallinn jazzisti og vissi allt sem vert var að vita um jazz, þekkti mann og annan á því sviði og gat miðlað af yfirburðaþekkingu sinni út í hið óendanlega. Innlifun hans í jazzinn var við brugðið og það var gaman að fylgjast með honum njóta tónlistarinnar. Hann flæktist líka víða um lönd til að sækja tónleika og notaði tækifærið þegar hann var í vinnuferðum að rækta tónlistaráhugann.

Friðrik var almennt glaðsinna, jafnan skoðanafastur og lá ekki á sjónarmiðum sínum til manna og málefna. Í gegnum menntun sína og störf í fiskeldi og sjávarútvegi hafði hann áunnið sér virðingu og traust meðal samstarfsfólks í þeim greinum og hann var eftirsóttur ráðgjafi. Margir úr þeim hópi hafa minnst Friðriks fyrir eljusemi, fagmennsku og hversu ósínkur hann var á ráð til þeirra sem til hans leituðu, að deila með öðrum úr reynslusjóði sínum.

Eftir að Friðrik fluttist aftur til Noregs urðu samverustundir strjálli og stundum fannst okkur hinum að hann væri eins og þeytispjald milli landa, svo mikið hafði hann að gera þegar hann heimsótti Ísland, svo marga þurfti hann að hitta. Kannski var það bara til marks um það hve hratt hann lifði. En alltaf var hann fullur af eldmóði að vinna að framförum á sviði fiskeldis og leita að tækifærum til framtíðar. Við sem tengdust honum nánum böndum vissum vel að undir yfirborði ákveðni og stefnufestu var Friðrik að mörgu leyti viðkvæmur og tilfinningaríkur. Hann glímdi á köflum við veikindi, bæði á sál og líkama, en hafði að undanförnu verið á ágætum stað í lífinu og naut sín í starfi.

En maður fær seint skilið allt í þessu lífi eða lesið inn í hugarheim jafnvel manns nánustu.

Dýpstu samúð votta ég Hrefnu, Sindra Má, Brynjari Þór, Margréti og Celiu. Kærum bróður fylgja friðarkveðjur inn í birtu sumarlandsins.

Þinn bróðir

Árni.