Vonbrigði Viðbrögð Guðlaugs Victors Pálssonar og Sverris Inga Ingasonar á þessari mynd segja allt sem segja þarf um andrúmsloftið í leikslok.
Vonbrigði Viðbrögð Guðlaugs Victors Pálssonar og Sverris Inga Ingasonar á þessari mynd segja allt sem segja þarf um andrúmsloftið í leikslok. — Ljósmynd/Szilvia Micheller
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
EM 2021 Kristján Jónsson kris@mbl.is Íslensku landsliðsmennirnir í knattspyrnu þurftu að ganga af leikvelli á Puskás Aréna með óbragð í munni í Búdapest í Ungverjalandi í gærkvöldi.

EM 2021

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Íslensku landsliðsmennirnir í knattspyrnu þurftu að ganga af leikvelli á Puskás Aréna með óbragð í munni í Búdapest í Ungverjalandi í gærkvöldi. Ísland var 1:0 yfir í 77 mínútur í hreinum úrslitaleik um að komast í lokakeppni EM sem fram fer næsta sumar en mátti samt sætta sig við tap. Ungverjaland skoraði tvívegis undir lok venjulegs leiktíma og sneri taflinu við. Ungverjaland sigraði 2:1 og fer í lokakeppni EM en Ísland er úr leik. Nær verður vart komist sæti í lokakeppni, ef það næst ekki, en að fá á sig mark í uppbótartíma í hreinum úrslitaleik í umspilinu.

Ísland komst yfir strax á 11. mínútu þegar Gylfi Þór Sigurðsson skoraði beint úr aukaspyrnu. Sakleysislegt skot Gylfa var beint á markvörðinn, Péter Gulácsi, sem gerðist kærulaus og hugðist grípa boltann. Hann fór hins vegar á milli handa Gulácsi og þaðan inn fyrir marklínuna.

Eftir að hafa horft á Gylfa skora markið þá gat maður ekki varist þeirri hugsun að lukkudísirnar yrðu með okkar mönnum þetta kvöldið. Eins og þær hafa oft verið á undanförnum árum. Nokkuð langt er síðan íslenska liðið hefur þurft að sætta sig við tap í EM eða HM eftir að hafa fengið á sig sigurmark á lokamínútum leiks. Er því reyndar haldið fram hér eftir minni en sætu sigrarnir hafa verið allnokkrir. Til dæmis gegn Austurríki á EM í Frakklandi eða gegn Finnlandi í undankeppni HM. Í þeim tilfellum var það Ísland sem skoraði seint og tryggði sér sigur en nú þurfa landsliðsmennirnir að kyngja því að verða fyrir slíku.

Ísland var yfir í 77 mínútur

Ekki þarf að deila um að Ungverjar voru miklu meira með boltann en Íslendingar að þessu sinni. Ef Ísland hefði ekki tekið forystuna jafn snemma og raun bar vitni má vera að leikurinn hefði þróast á annan hátt. Ungverjarnir voru með boltann á löngum köflum en sú staða hefur ekki verið óþægileg fyrir íslenska liðið á undanförnum árum. Sennilega eru fá landslið í heiminum sem eru jafn vön því að pakka í vörn og verja forskot eða jafntefli með ágætum árangri.

Einmitt þess vegna átti maður alveg eins von á því að liðið gæti varið forskotið þótt íslenska liðið hefði ekki spilað sérstaklega vel að þessu sinni. Sú varð ekki raunin og Ungverjar jöfnuðu 1:1 á 88. mínútu. Þótt ótrúlegt megi virðast þá gerðist slíkt hið sama síðast þegar liðin mættust. Var það í Marseille á EM í Frakklandi árið 2016. Þá komst Ísland í 1:0 á 39. mínútu en Ungverjaland jafnaði á 88. mínútu. Sá leikur kom upp í hugann þegar Ungverjar jöfnuðu í gær og þá átti maður von á því að framlenging væri framundan. Það reyndist bjartsýni því vonarstjarna Ungverja, Dominik Szoboszlai, skoraði sigurmarkið með frábæru skoti í stöngina og inn í uppbótartíma. Hannes Þór Halldórsson, sem lék vel í marki Íslands, átti ekki möguleika að koma í veg fyrir mörkin.

Fyrirliðinn fór út af

Leikurinn var erfiður fyrir íslensku leikmennina og þá sérstaklega í síðari hálfleik. Þreytumerki sáust og Erik Hamrén nýtti nokkrar skiptingar til að freista þess að hressa upp á liðið. Fáir þeirra leikmanna sem voru í byrjunarliðinu geta talist vera í góðri leikæfingu. Nokkrir þeirra spiluðu síðast þegar Ísland lék landsleiki snemma í október. Jóhann Berg og Alfreð eru auk þess nýorðnir leikfærir á ný. En veðjað var á að reyndir menn myndu ráða við verkefnið og gerðu það lengi vel enda var Ísland 1:0 yfir.

Fyrirliðinn Aron Einar Gunnarsson þurfti að fara af leikvelli á 83. mínútu, en hann virtist meiðast í nára. Hversu miklu máli skipti það þegar nokkrar mínútur voru eftir? Hér á síðum Morgunblaðsins höfum við oft bent á hversu mikilvægur Aron Einar er fyrir liðið. Er það vel þekkt enda sýna úrslitin það sem og tölurnar yfir fjölda marka sem Ísland fær á sig án hans. Hvort það hafi úrslitaáhrif á nokkurra mínútna lokakafla er hins vegar erfiðara að dæma um.

Stutt er á milli sigurs og taps í leikjum sem þessum. Þótt Ísland hafi ekki fengið mörg marktækifæri í leiknum þá fékk íslenska liðið engu að síður góða sókn nokkrum sekúndum áður en Ungverjarnir skoruðu sigurmarkið. Þá voru Íslendingar komnir inn í teiginn hjá Ungverjalandi en náðu ekki að nýta sér þá stöðu og fengu á sig skyndisókn sem skilaði Ungverjum sigurmarkinu. Mínútu áður en Ungverjar jöfnuðu renndi Albert Guðmundsson sér á boltann fyrir opnu marki eftir fyrirgjöf Jóns Daða Böðvarssonar en var örlítið of seinn.

UNGVERJAL. – ÍSLAND 2:1

0:1 Gylfi Þór Sigurðsson 11.

1:1 Loic Nego 88.

2:1 Dominik Szoboszlai 90.

M

Hannes Þór Halldórsson

Kári Árnason

Aron Einar Gunnarsson

Gylfi Þór Sigurðsson

Ísland : (4-4-2) Mark : Hannes Þór Halldórsson. Vörn : Guðlaugur Victor Pálsson, Kári Árnason, Ragnar Sigurðsson, Hörður Björgvin Magnússon. Miðja : Jóhann Berg Guðmundsson (Albert Guðmundsson 72), Rúnar Már Sigurjónsson (Sverrir Ingi Ingason 87), Aron Einar Gunnarsson (Ari Freyr Skúlason 83), Birkir Bjarnason. Sókn : Gylfi Þór Sigurðsson, Alfreð Finnbogason (Jón Daði Böðvarsson 72).

Ungverjaland : (3-5-2) Mark : Péter Gulácsi. Vörn : Attila Fiola (Gergö Lovrencsics 61), Willi Orbán, Attila Szalai. Miðja : Endre Botka, Zsolt Kalmár (Dávid Sigér 61), Ádám Nagy (Loic Nego 83), Dominik Szoboszlai, Filip Holender (Nemanja Nikolivs 71). Sókn : Roland Sallai, Ádám Szalai (Norbert Könyves 83).

Dómari : Björn Kuipers, Hollandi.

Áhorfendur : Ekki leyfðir.

* Ýmsa umfjöllun um leikinn er einnig að finna á mbl.is/sport/fotbolti.