Verslun Húrra Reykjavík er meðal verslana sem þurfa að bæta vefsíðu sína.
Verslun Húrra Reykjavík er meðal verslana sem þurfa að bæta vefsíðu sína. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Höskuldur Daði Magnússon hdm@mbl.is „Það virðist vanta upp á þekkingu hjá seljendum á þeim reglum sem snúa að rétti neytenda til að hætta við kaup,“ segir Matthildur Sveinsdóttir, sérfræðingur hjá Neytendastofu.

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

„Það virðist vanta upp á þekkingu hjá seljendum á þeim reglum sem snúa að rétti neytenda til að hætta við kaup,“ segir Matthildur Sveinsdóttir, sérfræðingur hjá Neytendastofu.

Neytendastofa hefur gert fimm verslunum að gera úrbætur á vefsíðum sínum innan tveggja vikna. Ef verslanirnar verða ekki við tilmælum Neytendastofu verða lagðar 20 þúsund króna dagsektir á þær þar til úrbætur verða gerðar. Umræddar verslanir eru Úngfrúin góða, Herrafataverslun Kormáks & Skjaldar, Penninn, Skór.is og Húrra Reykjavík.

Þessar aðgerðir Neytendastofu eru afrakstur samræmdrar skoðunar Evrópusambandsins á vefsíðum verslana sem selja fatnað, húsgögn eða raftæki. Skoðun þessi er framkvæmd á hverju ári en misjafnt er hvers konar verslanir eru skoðaðar hverju sinni. Um 20 íslenskar vefsíður voru teknar til skoðunar og kannað var hvort fram kæmu með nægilega skýrum hætti upplýsingar um þjónustuveitanda, vörur og þjónustu, verð og samningsskilmála á vefsíðunum, að því er segir á heimasíðu Neytendastofu.

Einhverjar athugasemdir voru gerðar við allar 20 síðurnar, svo sem að skýrari upplýsingar vantaði fyrir neytendur um þjónustuveitanda, heildarverð og rétt til þess að falla frá kaupum. Þá vantaði í mörgum tilvikum upplýsingar um framkvæmd og meðferð kvartana og lögbundin úrræði neytenda vegna galla. Áðurnefndar fimm verslanir þóttu ekki hafa gert fullnægjandi lagfæringar í kjölfar athugasemda. Matthildur segir í samtali við Morgunblaðið að forvarsmenn verslananna hafi flestir haft samband í kjölfarið og lofað bót og betrun.

Hraðri þróun um að kenna

Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu, segir að breytingar á verslun hafi orðið með ófyrirsjáanlegum hraða í kjölfar áhrifa kórónuveirunnar. „Það sem menn sáu fyrir sér að myndi gerast á tveimur árum er að gerast á tveimur mánuðum,“ segir hann og bendir á að fyrir vikið sé kannski ekki búið að slípa allt til í vefverslun. „En ég er sannfærður um að öll þessi fyrirtæki muni bregðast skjótt við og laga þessa hluti. Það vilja allir hafa sína starfsemi í lagi.“