Loki Í bókinni er áhugaverð blanda „af groddaskap og fegurð; ljóð sem fanga það hvað lífið getur verið misheppnað en á sama tíma fallegt.“
Loki Í bókinni er áhugaverð blanda „af groddaskap og fegurð; ljóð sem fanga það hvað lífið getur verið misheppnað en á sama tíma fallegt.“ — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Loka. Benedikt, 2020. Innbundin, 128 bls.
Tunglið er diskókúla er ný ljóðabók eftir skáld sem kallar sig einfaldlega Loka. Þar kennir ýmissa grasa en þó er góður heildarsvipur yfir verkinu.

Mörg ljóðanna hafa að geyma sterka frásögn sem gerir það að verkum að þau halda manni við lesturinn. Þau flæða áreynslulaust áfram. Í upphafi verksins eru áhrifamiklar frásagnir af uppvexti drengs og síðar í verkinu eru sögur af ást og ástarsorg í stóru hlutverki.

Rauður þráður liggur í gegnum verkið sem þakka má skýrt mótuðum ljóðmælanda. Ljóðmælandinn er einlægur og hreinskilinn og það snertir mann. Hann setur ekki upp grímu og reynir ekki að fegra neitt. En ljótleikanum fylgir viss fegurð.

Samhliða einlægni ljóðmælandans er ákveðinn töffaraskapur. Ljóðmælandinn slengir fram lýsingum á skyndikynnum og djammi og það fer líklega eftir lesandanum hver áhrifin af því eru. Einhverjum gæti þótt lýsingarnar óþarflega grófar en aðrir verið á þeirri skoðun að þær ættu að vera enn grófari ef þær ættu að hafa tilætluð áhrif.

Ljóðmælandinn flakkar á milli Íslands og útlanda. Ég set spurningarmerki við þá flötu og einhliða framsetningu á „suðrinu“ sem kemur fram í mörgum ljóðanna, þar sem konurnar eru „hórur“ og karlarnir „rónar“ og allt er svo þægilega ódýrt fyrir vestræna manninn. Þangað getur hann farið til þess að flýja vandamálin heima fyrir og flýja sjálfan sig í leiðinni.

Þrátt fyrir að ljóðmælandinn sé að ýmsu leyti gagnrýninn á eigin hegðun er hann ekki nægilega gagnrýninn á þessa vafasömu framsetningu til þess að myndin, sem hann dregur upp, sé sæmandi.

Þetta „suður“ er þó ágætur bakgrunnur fyrir lýsingar á þeirri óreiðu sem fylgir endalausri neyslu áfengis og vímuefna og stefnulausu flakki um veröldina, auk glímunnar við andleg veikindi og ástina.

Þrátt fyrir að fólk kannist líklega mismikið við aðstæðurnar sem fjallað er um í ljóðunum er þar að finna margt sammannlegt. Skáldið hittir naglann á höfuðið í lýsingum sem sýna hvað mannskepnan er oft og tíðum breysk og brothætt.

Fyrir utan hið sammannlega sem verkið sýnir eru það skrifin um andlega heilsu sem eiga mest erindi við samfélag samtímans. Það er efniviður sem er mikilvægur en líka vandmeðfarinn og Loki leysir verkefnið vel af hendi.

Með Tunglið er diskókúla kemur áhugaverð rödd fram á sjónarsviðið, rödd sem veitir innsýn í líf heimshornaflakkara, geðsjúklings og fíkils og flytur á sama tíma almennan sannleik. Í verkinu er einnig að finna áhugaverða blöndu af groddaskap og fegurð; ljóð sem fanga það hvað lífið getur verið misheppnað en á sama tíma fallegt.

Ragnheiður Birgisdóttir