Bingó Siggi Gunnars stýrði velheppnuðu bingókvöldi í gær.
Bingó Siggi Gunnars stýrði velheppnuðu bingókvöldi í gær. — Morgunblaðið/EAÁ
„Þetta var frábær kvöldstund sem heppnaðist vel,“ segir Sigurður Þorri Gunnarsson, dagskrárgerðarmaður á K100, sem brá sér í hlutverk bingóstjóra ásamt henni Evu Ruzu í gær, og tóku tugþúsundir manna þátt í beinni útsendingu á mbl.

„Þetta var frábær kvöldstund sem heppnaðist vel,“ segir Sigurður Þorri Gunnarsson, dagskrárgerðarmaður á K100, sem brá sér í hlutverk bingóstjóra ásamt henni Evu Ruzu í gær, og tóku tugþúsundir manna þátt í beinni útsendingu á mbl.is og rás 9 hjá Símanum.

„Fjöldi manns spilaði bingó og svo setti Jón Jónsson punktinn yfir i-ið,“ segir Sigurður eða Siggi Gunnars eins og hann er oftast kallaður. „Það er sama hvar Jón kemur fram, hann geislar alltaf af svo mikilli gleði sem smitar út frá sér,“ segir Siggi.

Vinningarnir voru ekki af verri endanum, en heildarverðmæti þeirra var metið á 1.851.000 krónur. Siggi segir að þeir hafi nánast flogið út, svo mikil var þátttakan í bingóinu. „Þetta var allt frá hárvörum og legókubbum yfir í þyrluferðir og sjónvörp og allt þar á milli,“ segir Siggi.

Hann vill að lokum þakka þeim sem tóku þátt kærlega fyrir og bendir á að bingógleðin verður aftur á dagskrá kl. 19 næsta fimmtudag. „Ég held að bingóið sé bara komið til að vera næstu fimmtudagskvöldin.“