Gull Helgi tók við gullsmáskífu úr hendi Sölva Blöndal hjá Öldu Music.
Gull Helgi tók við gullsmáskífu úr hendi Sölva Blöndal hjá Öldu Music. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Helgi Björnsson, tónlistarmaður og leikari með meiru, tók við gullsmáskífu í gær fyrir lagið „Það bera sig allir vel“ þar sem því hefur nú verið streymt yfir 500 þúsund sinnum.

Helgi Björnsson, tónlistarmaður og leikari með meiru, tók við gullsmáskífu í gær fyrir lagið „Það bera sig allir vel“ þar sem því hefur nú verið streymt yfir 500 þúsund sinnum. „Ég hafði svo sem trú á þessu lagi, að það hefði kjörgengi,“ sagði Helgi í samtali við Morgunblaðið í gær, „en svo sem ekkert fram yfir það, í sjálfu sér.“

Helgi segir algjörlega frábært að lagið hafi fengið svo mikla hlustun og spurður hvort lagið verði mögulega táknlag Covid-19 segir hann sposkur að hætt sé við því. Lagið hafi þó ekki verið samið um kófið eitt og sér. „Það var búið að vera svo svakalega ömurlegt veður, endalaust stormur og leiðindi frá nóvember, desember síðasta vetur og áfram fram í janúar og febrúar,“ segir Helgi. Boðskapur lagsins sé sá að þrátt fyrir leiðindin beri sig allir vel, hafi það kósí heima og gleðjist yfir því litla í lífinu.

Þegar kófið verður rifjað upp munu eflaust margir muna eftir kvöldvökum Helga og Reiðmanna vindanna en nýjasta afurð þeirra er sænska tökulagið „Saman (höldum út)“ sem Helgi og Salka Sól syngja.

Helgi segist hafa verið heppinn í kófinu að því leyti að hafa nóg að gera. „Mér hefur tekist að gera eitthvað í þessu ástandi öllu,“ segir hann. helgisnaer@mbl.is