Ríkisútvarpið hefur blásið út. Nú þarf að gera því að taka til.

Ríkisútvarpið hefur sent fjárlaganefnd erindi vegna fjárlagafrumvarps fyrir næsta ár og dregur þar fram ýmiskonar viðbótarkostnað sem stofnunin hefur orðið fyrir vegna kórónuveirufaraldursins, auk tapaðra tekna. Samtals telur Ríkisútvarpið að staða þess verði um 470 milljónum króna lakari í ár en verið hefði án kórónuveirunnar. Í umsögn Ríkisútvarpsins segir einnig að horfur séu á að á næsta ári muni í heild „vanta yfir 600 m.kr. í fjármögnun RÚV“. Er þetta rakið til minni tekna af útvarpsgjaldi, áframhaldandi samdráttar auglýsingatekna og hærri kostnaðar, meðal annars vegna nýrra kjarasamninga.

Í erindi Ríkisútvarpsins til fjárlaganefndar er þess ekki getið að útvarpsgjaldið hefur hækkað stórkostlega á liðnum árum án þess að nokkur samsvarandi kostnaður hafi fylgt með, enda eykst kostnaður við útsendingar ekkert þó að lögaðilum fjölgi, útvarpsgjald hækki eða íbúum fjölgi í landinu, meðal annars vegna mikillar fjölgunar fólks af erlendum uppruna. Nú, þegar Ríkisútvarpið horfir fram á samdrátt tekna sem felur í sér að hluti aukningar síðustu ára gangi til baka, fer stofnunin fram á að skattgreiðendur bæti henni tekjufallið. Á síðustu árum hefur þó ekki verið gripið til þess að lækka útvarpsgjaldið til samræmis við fjölgun íbúa og óeðlilegan tekjuvöxt, þvert á móti hefur það verið látið hækka.

Sýn hf. sem rekur fréttastofu í samkeppni við Ríkisútvarpið auk annarrar fréttaþjónustu, ritar bréf til fjárlaganefndar til að svara erindi Ríkisútvarpsins. Í bréfi Sýnar er bent á að það fyrirtæki hafi einnig orðið fyrir skakkaföllum vegna kórónuveirufaraldursins. Auglýsingatekjur hafi dregist saman um 15% og ýmsar aðrar tekjur hafi einnig lækkað verulega og samtals hafi áhrif faraldursins á reksturinn verið neikvæð um 1,1 milljarð króna.

Sýn bendir á að fyrirtækið veiti margskonar sambærilega þjónustu við Ríkisútvarpið og að færa megi „fyrir því rök að Sýn reki nú þegar fjölmiðil í almannaþágu, þrátt fyrir að lögin um Ríkisútvarpið byggist á að einungis einn slíkur miðill sé rekinn hér á landi“. Þetta má til sanns vegar færa og á vitaskuld við um fleiri miðla þó að Ríkisútvarpið eitt sé skreytt með þeim orðum að það starfi í almannaþágu.

Í erindi Sýnar segir einnig að í fjárlagafrumvarpinu sé aðeins gert ráð fyrir að einkareknir fjölmiðlar fái bættan óverulegan hluta neikvæðra áhrifa kórónuveirufaraldursins á rekstur þeirra. Þar af leiðandi sé eðlilegt að fjárframlög til Ríkisútvarpsins skerðist.

„Með vísan til þessa er með öllu óverjandi að RÚV verði bættur allur skaðinn eins og farið er á leit í umsögn RÚV enda myndi slík aðgerð einungis auka á þá samkeppnisröskun sem þegar leiðir af tæplega 5 milljarða árlegri meðgjöf frá ríkinu og um 2ja milljarða auglýsingatekjum sem stofnunin aflar sér ár hvert. Þá verður ekki séð að stofnunin hafi hegðað sér með samfélagslega ábyrgum hætti, sbr. nýlegt mat fjölmiðlanefndar á því hvort RÚV hafi uppfyllt almannaþjónustuhlutverk sitt. Þar er gerður ríkur fyrirvari og í raun felldur áfellisdómur um hvernig RÚV hefur sniðgengið skyldur sínar gagnvart sjálfstætt starfandi framleiðendum. Kemur sú skýrsla í framhaldi af svartri úttekt Ríkisendurskoðunar á rekstri RÚV,“ segir ennfremur í erindi Sýnar.

Einkareknir fjölmiðlar hafa þurft að skera verulega niður í starfsemi sinni til að bregðast við erfiðleikum undanfarinna ára. Þeir erfiðleikar eru þekktir og hafa komið fram í skýrslum hins opinbera, frumvörpum og umræðum á opinberum vettvangi á liðnum árum. Erfiðleikarnir eiga sér ýmsar skýringar, ekki síst óeðlilega erlenda samkeppni sem skákar í skjóli skattleysis og óeðlilega samkeppni við Ríkisútvarpið, sem hefur eins og áður segir sótt auknar skatttekjur á sama tíma og aðrir berjast í bökkum.

Hjá Ríkisútvarpinu eru miklir möguleikar til að hagræða í rekstri og spara háar fjárhæðir. Þeir sem starfa á einkareknum fjölmiðlum og reka fjölmiðla í samkeppni við Ríkisútvarpið sjá þetta í hendi sér. Fleiri hljóta að sjá þetta, ekki síst þeir sem sitja í fjárlaganefnd og víðar þar sem ákvarðanir eru teknar um ráðstöfun fjármuna almennings.

Fjölmiðlar sem þurfa að keppa við þessa ríkisstofnun eiga ekki að þurfa að þola það að hún geti starfað utan við efnahagslegan veruleika. Og skattgreiðendur eiga ekki að þurfa að þola að vera krafðir um enn frekari fjárútlát til að standa undir óráðsíu ríkisstofnunar sem ofan á annað telur að hún sé hafin yfir lög.