Sýn hf. hefur sent fjárlaganefnd Alþingis andsvar við umsögn Ríkisútvarpsins við fjárlagafrumvarpið og gerir athugasemdir við málatilbúnað RÚV.

Sýn hf. hefur sent fjárlaganefnd Alþingis andsvar við umsögn Ríkisútvarpsins við fjárlagafrumvarpið og gerir athugasemdir við málatilbúnað RÚV. Gagnrýnir fyrirtækið að svo virðist sem RÚV, sem sé í beinni samkeppni við Sýn, telji sig einn fjölmiðla hafa orðið fyrir skakkaföllum vegna veirufaraldursins og kalli eftir beinum fjárframlögum.

Almannaþjónustuhlutverk

Bendir fyrirtækið á að fjölmiðlar Sýnar, Fréttastofa Stöðvar 2, Vísis og Bylgjunnar, haldi úti öflugri fréttaþjónustu í sjónvarpi, útvarpi og á vefnum og færð eru rök fyrir því að Sýn reki nú þegar fjölmiðil í almannaþágu. Ekkert sé því til fyrirstöðu að ríkið tilefni Sýn með almannaþjónustuhlutverk. Ef niðurstaðan verði sú að auka ríkisstuðning til fjölmiðils sem rekinn er í almannaþágu geti sú fjárveiting allt eins runnið til fjölmiðla sem reknir eru af Sýn hf.

„Nú vill svo til Sýn hf. hefur orðið fyrir margvíslegum skakkaföllum af völdum Covid-19-heimsfaraldursins. Þannig hafa auglýsingatekjur félagsins á fyrstu 9 mánuðum ársins dregist saman um 212 [milljónir kr.] eða sem nemur 15%. Þá hafa vaxtaberandi skuldir félagsins hækkað um 401 [millj. kr.] eða sem nemur 2,48% vegna veikingar ISK. Af sömu ástæðu hafa skuldbindingar við erlenda birgja, einkum vegna efniskaupa hækkað um 260 [millj. kr.] eða sem nemur um 15%. Þá hafa reikitekjur í farsíma fallið um 235 [millj. kr.] eða sem nemur 60%. Samtals hefur því tekjusamdráttur vegna Covid-19-heimsfaraldursins numið að minnsta kosti 447 [millj. kr.] en vegna Covid-19 hefur einnig orðið samdráttur í tekjum af frelsisnúmerum og gjaldaaukning um allt að 90 [millj. kr.] á mánuði. Samtals nemur þetta um 1,1 milljarði kr. á rekstur félagsins til hins verra,“ segir í umsögninni. Þessu hafi félagið mætt með margvíslegum hagræðingaraðgerðum sem eðli máls samkvæmt skerði samkeppnisstöðu þess gagnvart ríkisreknum keppinauti.

Það sé með öllu óverjandi ef RÚV verði bættur allur skaðinn eins og farið sé á leit í umsögn RÚV enda myndi slík aðgerð einungis auka á þá samkeppnisröskun sem þegar leiði af tæplega 5 milljarða árlegri meðgjöf frá ríkinu. omfr@mbl.is