Aþingi Stjórnskipunar-og eftirlitsnefnd fjallar árlega um skýrslu umboðsmanns Alþingis. Umræða fyrir skýrslu ársins 2019 fór fram á miðvikudag.
Aþingi Stjórnskipunar-og eftirlitsnefnd fjallar árlega um skýrslu umboðsmanns Alþingis. Umræða fyrir skýrslu ársins 2019 fór fram á miðvikudag. — Morgunblaðið / Hari
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Umboðsmaður Alþingis segir fjárveitingar til embættisins ekki nægja til að hægt sé að sinna frumkvæðisathugunum og verði þær því lagðar til hliðar.

Umboðsmaður Alþingis segir fjárveitingar til embættisins ekki nægja til að hægt sé að sinna frumkvæðisathugunum og verði þær því lagðar til hliðar. Þetta kom fram þegar Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis, gerði grein fyrir ársskýrslu embættisins fyrir árið 2019 á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis í vikunni.

Tryggvi sagði embættið hreinlega ekki hafa bolmagn til þess að sinna frumkvæðisathugunum miðað við fjárlagafrumvarp ársins 2021 og fyrirliggjandi fjármálaáætlun. Þingmenn þyrftu að svara því hvort þeir teldu nausynlegt að þessari þjónustu yrði sinnt.

„Nú eru þær aðstæður uppi í starfi umboðsmanns að ég hef fengið tækifæri til að stíga aðeins til hliðar, ætla að sinna hér viðfangsefni sem hefur verið hjartans mál mitt, þ.e.a.s. fræðsluefni fyrir starfsfólk stjórnsýslunnar. Ég mun hins vegar nota tímann nú fram að áramótum og pakka saman hér eldri málum og m.a. að pakka þessum frumkvæðismálum sem við höfum hreyft, væntanlega annaðhvort í bréf sem send verða út eða í pappakassa,“ sagði Tryggvi á fundinum.

Á skrifstofu umboðsmanns Alþingis hefur verið starfandi forstöðumaður frumkvæðismála, sem ásamt því að sinna yfirstjórn og aðstoða við OPCAT-eftirlit með fangelsum landsins hefur haft umsjón með frumkvæðismálum. Með honum hefur starfað einn lögfræðingur. Tryggvi sagði þetta ekki duga til þess að sinna málaflokknum.

Sagði Tryggvi á fundinum að hann hafi gert það að tillögu sinni við vinnslu fjármálaáætlunar að starfsmanni yrði bætt í þessa deild árið 2021 og öðrum árið 2024. Ekki sé útlit fyrir að fjárveitingar fáist fyrir þeim mannskap.

Þá hafi komið spurningar frá fjármála-og efnahagsráðuneytinu um hvort einhver áhætta væri fólgin í því að frumkvæðisathuganir yrðu ekki framkvæmdar. Tryggvi svaraði því þannig að heimild umboðsmanns til þessara athugana sé til staðar til þess að leiða til umbóta í stjórnsýslu. Verði þeim ekki sinnt, verði ekki téðar umbætur.

Samkvæmt ársskýrslu umboðsmanns fyrir árið 2019 var ekkert nýtt frumkvæðismál tekið til athugunar árið 2019 en einu máli lokið. Þá var sjö málum, sem áður höfðu verið tekin til athugunar, enn ólokið við árslok 2019. karitas@mbl.is