Gunnar Sigurðsson fæddist í Reykjavík 19. apríl 1943. Hann lést á gjörgæslusjúkrahúsi í Las Palmas á Gran Canaria 2. október 2020.

Foreldrar Gunnars voru þau Sveinn Sigurður Hannsson, fæddur á Eskifirði 28. apríl 1910, látinn 4. september 1951, og Sigríður Þorbjörnsdóttir, fædd í Reykjavík 6. janúar 1916, látin 8. júlí 1980. Gunnar var næstelstur fjögurra systkina sinna, Þorbjörn, f. 1938, d. 1984, Sigþór, f. 1949, d. 2020, Sigríður Rebekka, f. 1951, búsett í Hafnarfirði.

Gunnar lætur eftir sig tvo syni, Svein Sigurð Gunnarsson, f. 1962, móðir Alda Sigurjónsdóttir, f. 1944, d. 2002, og Gunnar Inga Gunnarsson, f. 1974, móðir Ingibjörg Jónsdóttir, f. 1942, d. 2016, ásamt stjúpdóttur, Sigrúnu Pedersen, f. 1972, móðir Ingibjörg Stefánsdóttir, f. 1939, d. 1993.

Sveinn á eina dóttur, Öldu Björgu Sveinsdóttur, f. 1983, og barnabörn, þau Töru Sif, f. 2011, og Ísak Mána, f. 2016. Gunnar Ingi á eina dóttur, Valborgu Lilju, f. 2007. Sigrún á þrjú börn, þá Sigurjón, Gest og Styrmi.

Sambýliskona Gunnars til 20 ára var Guðfríður Hermannsdóttir f. 2. apríl 1931, d. 26. júní 2019.

Gunnar ólst upp í Vesturbænum í Reykjavík og fór ungur að stunda sjó. Þegar árin færðust yfir fór Gunnar í land og starfaði lengst af sem húsvörður í Austurbrún 4 ásamt því að starfa sem prófdómari og leiðbeinandi í skotfimi.

Bálför Gunnars fer fram frá Digraneskirkju í dag, 13. nóvember 2020, og hefst athöfn kl. 13. Vegna Covid verður útförinni streymt og er fólk beðið að halda sig heima.

Streymi á útför:

https://youtu.be/ORhlFEXT2cw

Virkan hlekk á slóð má nálgast á:

https://www.mbl.is/andlat

Laugardagurinn 19. september líður mér seint úr minni. Þá fékk ég tilkynningu um að Gunnar bróðir minn hefði fengið alvarlegt hjartaáfall kvöldið áður og lægi á sjúkrahúsi á Gran Canari, ástandið reyndist mjög alvarlegt og komst hann aldrei til meðvitundar.

Kanaríeyjar voru honum mjög hjartfólgnar og vildi hann hvergi annars staðar vera yfir veturinn. Hann og Fríða hans dvöldu þar marga undanfarna vetur, en seinnipart vetrar 2019 veiktist Fríða og lést 26. júní 2019. Söknuður Gunna var mikill eða eins og hann sagði sjálfur að bestu ár ævi sinnar átti hann með Fríðu. Það var undurfallegt að sjá þau saman, gagnkvæm virðing og væntumþykja.

Á Kanarí eignuðust þau marga góða vini. Gunni bróðir var mikill áhugamaður um skotfimi og keppti bæði hér heima og eins á Kanarí. Hann byrjaði ungur að vinna eins og títt var í þá daga, hann var í sveit og undi sér vel. Sjórinn heillaði, hann var bæði á fiskiskipum og millilandaskipum. Aldrei gleymast ferðirnar sem við systkinin fórum saman með mökum til Tenerife, ég vissi að þeir bræður vildu heldur fara til Kanarí en gerðu það fyrir litlu systur að koma til Tenerife.

Já, lífið er undarlegt, ég hefði ekki trúað, þegar við kvöddumst eftir jarðarför Sigþórs bróður okkar, að það yrði í síðasta sinn sem við hittumst - þú á leiðinni á sólskinseyjuna þína - en lífið kemur manni stöðugt á óvart. Ósanngjarnt, já ég held að mér hafi fundist það, að taka ykkur með svo stuttu millibili frá okkur. Bið ég góðan guð að styrkja börnin þín og fjölskyldur. Þótt ég kveðji þig með sorg í hjarta lít ég á tímann okkar saman með hlýju og brosi.

Þín systir,

Sigríður Rebekka (Beggý) og fjölskylda.

Betri mann en Gunnar hef ég ekki þekkt. Nú þegar ég horfi yfir farinn veg og rifja upp stundir okkar saman þá átta ég mig á því að þær minningar sem ég á með Gunnari eru hinar glaðlegu minningar bernskunnar. Þessar minningar sem maður hefur alltaf tekið sem sjálfsögðum hlut en eru ekki á allra kosti, þessar minningar sem Gunnar gaf mér. Ég minnist þeirra, ekki vegna atburða þeirra, heldur vegna kátínunnar sem býr í þeim öllum. Kátínunnar sem bjó alltaf í Gunnari. Hann kom mér í afa stað þegar ég var enn mjög ungur og því hef ég aldrei þekkt lífið án hans Gunnars.

Ég hef aldrei þekkt lífið án hlátraskallanna, án brossins, án gleðinnar sem í honum bjó. Viðhorf hans til lífsins var nefnilega alltaf eins, að það væri gott og fagurt, og sama hvað ég reyndi sem prakkaragjarn strákur gat ég ekki umturnað því. Gunnar var nefnilega alltaf jafningi minn og verð ég helst að þakka honum fyrir það; að leyfa mér að vera barn í heimi fullorðinna með því að sýna mér að í öllum býr nefnilega barn.

Ef það var ekki ég sem gerði prakkarastrikin þá var það Gunnar. Þær voru ófáar ruslatunnurnar á Hlemmi sem fengu að finna fyrir spörkum okkar. Hann hafði endalausa þolinmæði, hvort sem það var uppi á fjalli að elta tófu eða niðri í fjöru að tína saman þara með litlum dreng að spinna sögur um sæskrímsli. Hlýjan sem bjó í hjarta hans var þrotlaus og beindist hún til allra sem fengu að kynnast honum en þá sérstaklega gagnvart henni ömmu minni Fríðu. Sambandi þeirra var á þann veg háttað að aldrei sló í brýnu milli þeirra. Gunnar var þrotlaus brunnur af þolinmæði og gleði og ég get ekki ímyndað mér fjölskyldu mína án hans. Enda er hann partur af henni. Sú ást sem hann sýndi til ömmu minnar og allra hennar afkomenda er eitthvað sem ég mun hafa sem leiðarstef í gegnum lífið, hvernig á að miðla ást og gleði, ég lærði það nefnilega fyrst hjá Gunnari.

Mikið sem ég á eftir að sakna hans, vikulegu símtalanna (að minnsta kosti), hlátursins, brossins og ástarinnar. Minn allra besti vinur, jafningi minn síðan ég var barn, sá sem sýndi mér hina glaðlegu ásýnd barns í fullorðnum líkama. Hann er farinn á brott til ástar sinnar eftir stutta fjarveru en hann skilur eftir sig ljóstíru. Ljóstíru sem mun halda áfram að lifa í mér og öllum þeim sem hann snerti. Því kveð ég Gunnar, jú, vissulega með sorg en einnig með hinni mestu sátt. Því sem barn og ungur maður átti ég rækilega góðan vin. Vin sem sýndi mér allt hið góða sem lífið býður upp á. Ef mitt eina markmið í þessu lífi verður að halda uppi viðhorfi og gleði Gunnars til heimsins þá veit ég það vera hið besta markmið og mun ég reyna mitt allra besta til þess að halda minningu hans á lofti. Með brosi og hlátri mun ég reyna að lifa, því sá besti maður sem ég nokkurn tímann kynntist lifði þannig, og hann lifði vel. Hvíl í friði, vinur minn.

Þórir Freyr Höskuldsson.

Leiðir okkar Gunnars lágu fyrst saman fyrir rúmum 20 árum þegar þau Guðfríður Hermannsdóttir móðir og tengdamóðir fóru að búa saman. Á fyrstu árum okkar kynna bjuggum við Elsa ásamt börnum í Frakklandi þar sem Gunnar og Fríða dvöldu hjá okkur um nokkurra vikna skeið.

Fjölskyldan myndaði fljótlega mjög góð tengsl við Gunnar sem styrktust með árunum. Sérstaklega náðu yngstu börn okkar góðu sambandi við Gunnar en þar spilaði persónuleiki hans vel inn í því hann hafði einstakt lag á að ná til þeirra.

Samskiptin voru mikil á þessu árum og margar góðar minningar koma upp í hugann. Minningin um góðan dreng sem gott var að leita til situr sterk eftir.

Gunnar var úrræðagóður, handlaginn og bjó að mikilli reynslu af alls kyns störfum og iðju sem hann hafði tekið sér fyrir hendur í sínu lífshlaupi. Mikill og flinkur veiðimaður sem unun var að sjá hvernig bar sig að við að renna fyrir fisk. Gunnar hafði einnig mikið dálæti á skotveiði og skotfimi en hann kenndi og keppti á því sviði með miklum og góðum árangri jafnt innanlands sem erlendis. Oft kom hann með björg í bú og naut fjölskyldan þess að fá bráðina vel til reidda eftir að Gunnar var búinn að meðhöndla hana af sinni fagmennsku.

Á síðustu árum dvöldu Gunnar og Fríða oft veturlangt á Kanarí. Við Elsa áttum því láni að fagna að heimsækja þau í nokkur skipti og var virkilega gaman að finna hversu vel þau undu hag sínum. Hjálpaði þar til að þau höfðu myndað sterkan og náinn vinahóp Íslendinga. Það var eftirtektarvert að sjá hvað Gunnar var orðinn hagvanur á staðnum, þekkti hvern krók og kima og greiddi götu okkar af mikilli eljusemi.

Það var ánægjulegt að upplifa í gegnum árin hversu samrýnd Gunnar og Fríða voru og nutu samvista hvort annars. Í veikindum Fríðu var aðdáunarvert að sjá hversu vel Gunnar annaðist hana af mikilli ósérhlífni. Fríða féll frá á síðasta ári.

Við Elsa minnumst Gunnars með mikilli hlýju og þakklæti. Við vottum börnum Gunnars og fjölskyldu hans innilega samúð.

Elsa Þórisdóttir.

Höskuldur Ásgeirsson.