Anna H. Sigurjónsdóttir fæddist í Vestmannaeyjum 19. febrúar 1930. Hún lést á Hrafnistu Laugarási 29. okt. 2020.

Foreldrar hennar voru Anna Sigríður Sveinsdóttir Scheving, f. 11.10. 1901, d. 30.7. 1975, og Sigurjón Hansson, f. 14.2. 1902, d. 6.5. 1994. Systkini Önnu eru: Sveinn Scheving, f. 1924, d. 1942, Hans Ragnar, f. 1927, d. 2013, maki Ingibjörg Guðbjörnsdóttir, f. 1929, d. 2008, Þráinn, f. 1940, maki Ruth Fjeldsted, f. 1939, Sveinn Scheving, f. 1942, maki Kristín Björk Scheving Pálsdóttir, f. 1943.

Anna giftist 17.12. 1955 Samúel Kr. Guðnasyni, f .13.7. 1924, d. 2.8. 2011.

Dætur þeirra: 1) Hrönn Scheving, f. 23.8. 1950, maki Björn Björnsson, f. 26.1. 1948. Þeirra börn: a) Heida Hrönn, f. 2.2. 1970, maki Erlingur Jónsson, f. 29.8. 1971. Synir Heidu Hrannar eru Viktor Hrannar Sigurjónsson, f. 7.7. 1992, og Kristinn Snær Sigurjónsson, f. 7.7. 1992. b) Björn Björnsson, f. 24.8. 1972, synir hans eru: Björn Guðmundur, f. 21.9. 1998, og Gunnar Helgi, f. 31.7. 2001. c) Ásthildur Björnsdóttir, f. 12.7. 1975, maki Eiríkur Jónsson, f. 4.10. 1970, þeirra börn: Ríkharður Aron, f. 4.1. 2001, og Rebekka Rut, f. 29.8. 2002. d) Ingibjörg Anna, f. 6.12. 1980, maki Guðmundur Líndal Pálsson, f. 27.4. 1977, þeirra börn: Kristófer Daði, f. 1.4. 2003, Gabríel Leó, f. 23.7. 2009, Ísabella Rós, f. 13.8. 2010, og Sigursteinn Ísak, f. 11.3. 2014.

2) Kristín Viktoría, f. 11.3. 1955, maki Kjartan Viðarsson, f. 15.10. 1955. Þeirra börn: a) Kristinn Viðar, f. 9.7. 1980, maki Guðný Hulda Ingibjörnsdóttir, f. 12.4. 1983, dætur þeirra: Viktoría Hildur, f. 24.8. 2007, og Emilía Katrín, f. 20.7. 2011. b) Anna Lilja, f. 13.9. 1985, maki Magnús Ingi Magnússon, f. 8.2. 1985, sonur þeirra: Kjartan Leó, f. 11.8. 2020.

3) Bára Scheving, f. 21.4. 1959, maki Kjartan S. Guðjónsson, f. 10.12. 1958. Þeirra börn: a) Theódóra, f. 21.7. 1983, maki Anton Sigurjónsson, f. 21.7. 1980, þeirra börn: Júlíana Dís, f. 12.7. 2006, Max Tristan, f. 23.2. 2010, og Emma Natalía, f. 7.12. 2011. b) Samúel A. Scheving, f. 29.7. 1988, maki Sólveig Ragna Jónsdóttir, f. 14.2. 1988, sonur þeirra: Hilmar Scheving, f. 15.11. 2017.

Anna ólst upp í Vestmannaeyjum fram á unglingsaldur en fjölskyldan flutti síðan til Reykjavíkur. Bjó á Laugavegi 67 um miðbik aldarinnar en þau hjónin fluttust vestur á Suðureyri við Súgandafjörð 1959 og bjuggu til 1962. Eftir það bjuggu þau í Ljósheimum 12 en lengst af bjuggu þau í Fellsmúla 6 og síðustu æviárin í Sóleyjarima 21.

Anna var sjómannskona, mest heimavinnandi. Vann sem ung kona í Bernhöftsbakaríi, fór í Húsmæðraskólann í Reykjavík og starfaði seinna við verslunarstörf í Raftækjastöðinni og síðar við aðstoð og þrif á Dalbraut og í Réttarholtsskóla. Hún starfaði lengi í Kvenfélaginu Öldunni.

Anna var mikil hannyrðakona.

Útför Önnu fer fram frá Bústaðakirkju í dag, 13. nóvember 2020, kl. 13.

Vegna aðstæðna verður aðeins nánasta fjölskylda viðstödd.

Streymt verður frá athöfinni: https://tinyurl.com/y5bjg7xu

Virka slóð á slóð má nálgast

https://www.mbl.is/andlat

Elsku mamma. Það er komið að kveðjustund, síðasta árið reyndist þér erfitt, hefðir helst viljað vera heima.

Við systur eigum þér svo mikið að þakka, alltaf til í að passa fyrir okkur, sauma eða prjóna á barnabörnin og langömmubörnin, enda léku hannyrðir í höndum þínum. Þú varst alltaf tilbúin fyrir okkur. Hringdir í okkur daglega og jafnvel oftar til að fá fréttir af okkur.

Fellsó og Sóló voru alltaf eins og umferðarmiðstöð, alltaf allir velkomnir, og ekki vantaði upp á veitingarnar.

Þið pabbi voruð einstaklega barngóð, enda löðuðust öll börn að ykkur, ófáar gistinætur, útilegur og veiðiferðir með ömmu og afa.

Þú elskaðir að horfa á fréttir á báðum rásum, handbolta, fótbolta og spennumyndir í sjónvarpinu.

Núna ertu komin til pabba, við biðjum að heilsa og nú getið þið dansað saman inn í eilífðina.

Við kveðjum þig með miklum söknuði, blessuð sé minning þín elsku mamma.

Þínar dætur,

Hrönn, Kristín (Ditta) og Bára.

Elsku amma mín.

Við brölluðum margt saman, ferðalög, útilegur, ég var oft hjá þér meðan afi var á sjónum og oftar en ekki koma upp margar minningar úr eldhúsinu í Fellsó. Ég hjálpaði þér að elda og við bökuðum saman. Vínarbrauðin með sultunni. Mér hefur aldrei þótt sulta sérstök en þá gerðum við oft nokkra kanilsnúða úr afgangsdeiginu, bara handa mér. Mér er minnisstæð bílferð, þú varst að keyra mig heim. Peugeot 309 ef ég man rétt, rauður. Þá var ekinn Skeiðarvogur, ljós yfir Miklubraut og upp brattan Réttarholtsveginn. Þú gafst allt í og við þutum upp, ég man hvað mér þótti það aðdáunarvert en var smeykur á sama tíma. Svo sagðir þú við mig: „Hún amma er sko algjör refur í umferðinni.“ Og ég var ótrúlega ánægður með þig. Amma refur í umferðinni! Svo varstu alltaf svo góð við okkur afa. Fyrir hverja veiðiferð smurt nesti ofan í köflóttu töskuna. Og ég skal viðurkenna það að stundum var ég spenntari fyrir því hvað kom upp úr töskunni en veiðinni. Kökur, heimabakaða brauðið og kaffi fyrir afa. Hefði viljað geta létt betur undir með þér og stytt þér stundir síðustu mánuðina en það var allt svo erfitt í ljósi aðstæðna. Hvíldu þig nú, amma mín, takk fyrir allt. Við smyrjum nestið okkar sjálf núna.

Kristinn Viðar.

Elsku besta amma mín.

Þegar ég fékk þær fregnir að þú værir farin yfir í sumarlandið varð mér létt, en á sama tíma leið yfir því að hafa ekki getað kvatt þig. En ég veit að afi tekur vel á móti þér með opinn faðm og suðusúkkulaði úr ísskápnum.

Mér þykir afskaplega vænt um það að hafa getað hitt þig í sumar og segja þér frá því að ég væri að fara að eignast lítinn strák.

Ég á svo margar fallegar minningar af þér og þessar lýsa þér svo vel. Það lék allt í höndunum á þér. Ég man í hvert sinn sem þú og mamma voruð að sauma á mig kjól. Ég var alltaf svo hrædd um að títuprjónarnir myndu stinga mig en þú hughreystir mig með að segja að einhver yrði afskaplega skotinn í mér í kjólnum. Ég var samt alveg jafn hrædd um að fá títuprjóninn í mig, þótt ég hafi róast í smá stund. Svo ég tali nú ekki um að veiða títuprjónana úr mottunni fyrir framan saumavélina, svo afi fengi þá ekki í ilina.

Í einu af fjölmörgum skiptum sem ég var hjá þér sem barn og þú spurðir hvað mig langaði í. Ég svaraði um hæl að mig langaði nú í þeyttan rjóma, taldi mig vita að þú yrðir ekki við þeirri bón, þar sem mamma hefði nú ekki látið undan því. Ég var ekki búin að sleppa orðinu þegar þú varst byrjuð að þeyta rjómann í hrærivélinni. Hef sjaldan verið jafn hissa og jafn glöð á sama tíma. Mig grunar að þetta hafi verið augnablikið sem ég áttaði mig á því að það var ýmislegt sem mátti hjá ömmu og afa sem maður fékk ekki að gera heima fyrir. Enda var það nú oft sem ég fékk að gista þegar ég tók upp á því að klæða mig úr og skríða undir sæng og heimta að fá að gista. Mamma var nú ekki par ánægð með þessa aðferð, en lét þó einstaka sinnum undan eftir að amma hneykslaðist yfir því af hverju blessað barnið mætti nú ekki gista. Það sem var látið eftir manni!

Oftar en ekki tókum við spil fyrir kvöldkaffi og það var einstaklega gaman að ná þér með í spilin, því þú máttir eiginlega ekki við því að setjast niður. Alltaf að bardúsa eitthvað. Þú hafðir samt orð á því að vinna ekki afa of oft í einu í rommí því hann gat orðið svo tapsár. Það þótti mér fyndið. Það var ekki jafn fyndið þegar afi tapaði. Þá var yfirleitt komið gott og hætt að spila. Það var líka eins gott að hann hefði ekki fengið títuprjón í tána fyrr um kvöldið, þá hefði friðurinn verið allur úti.

Einu sinni var ég að horfa á umferðina út um svefnherbergisgluggann í Fellsó, og spurði þig af hverju sumir bílar væru með gul ljós en aðrir hvít? Þú svaraðir að það væri af því að þú færir út á nóttunni og settir gular perur í bílana sem væru ljóslausir. Bættir svo við að ég ætti að fara að sofa því klukkan væri svo margt. Ég hlýddi þér og vildi ekki halda þér vakandi fyrst þú ættir eftir að fara út að skipta um perur. Það var naumast hvað amma var dugleg. Alltaf á fullu allan sólarhringinn.

Ætli þú sért ekki núna að setja perur í ljóslausu bílana í sumarlandinu og leyfa afa að vinna þig í rommí.

Elska þig til tunglsins og aftur til baka. Sjáumstumst, þín ömmustelpa.

Anna Lilja.

Elsku amma mín. Þú varst besta amma sem nokkurt barnabarn hefði getað kosið sér. Þú varst góður vinur, passaðir okkur alltaf þegar þú gast og leyfðir okkur að gista hjá þér í tíma og ótíma, alveg sama hversu gömul við vorum. Og þú varst „partner-in-crime“ þegar á þurfti að halda!

Ég fór ófáar ferðirnar með ykkur afa um landið, yfirleitt á Peugeot af nýjustu gerð, með hústjaldið í skottinu og það var alltaf gaman. Ég lærði heilmikið um landið okkar á spjalli okkar í bílnum í gegnum árin og ég er ævinlega þakklát fyrir allar þessar góðu stundir.

Ég fæ oft nostalgíuköst þegar kemur að mat sem ég fékk hjá þér elsku amma; einfaldir hlutir eins og rauðu pylsurnar, Cheerios með „blárri“ mjólk (heima var annaðhvort undanrenna eða léttmjólk og það er bara ekki eins), hakk og spagettí (þar sem hakkið var bara kryddað með salti og pipar, þykkt með hveiti og skvettu af sósulit bætt í svo þetta liti betur út), skatan, kaffitíminn fyrir svefninn (iðulega með heimabökuðu) ásamt einum umgangi af rommý eða veiðimanni ... og við pössuðum okkur oftast að vinna afa ekki því hann var svo tapsár! Ég man líka vel eftir því þegar þú spurðir mig hversu lengi ég syði ýsuna.

Ég svaraði þér að ég léti suðuna koma upp og léti svo fiskinn út í og setti pottinn á borðið. „Ha?!“ sagðir þú ... „ég læt hana alltaf sjóða í 20 mínútur eins og kartöflurnar!“

Jólin voru líka ævintýri líkust í æsku og ég verð að viðurkenna að það myndaðist stórt tómarúm í mínu hjarta þegar þú hættir að hafa pláss fyrir okkur öll og við fórum að vera hver fjölskylda í sínu horni, það var bara alls ekki eins. Ákveðin jólalög minna mig t.d. ennþá á þig og afa og jólin í Fellsó.

Þegar þú greindist með hinn ömurlega sjúkdóm alzheimer kom ég iðulega í heimsókn til þín til að spjalla um gamla tíma, því einmitt þar virtist þér líða vel. Þar var ekkert hik, engar endurtekningar, enginn pirringur ... bara frásagnargleði og hamingja gamla tímans. Á þessum heimsóknardögum sátum við stundum í 2-3 tíma og spjölluðum um allt milli himins og jarðar og rifjuðum upp skemmtilegar stundir. Stundum kom ég við á Metró og keypti handa þér uppáhaldsskyndibitann þinn, hamborgara og franskar, sem þú borðaðir með bestu lyst, þótt matgrönn værir. Svo vissi ég alltaf að þér leið vel og varst í góðu skapi þegar þú sagðir: „Voðalega ertu í fallegri kápu/peysu/jakka Heida mín.“ Í mörgum þessara spjallstunda okkar lærði ég margt um þig og afa sem ég hafði aldrei heyrt áður.

Bjögga systir sendi mér fallega lesningu um það bil sem ég var að setjast niður til að koma þessum hugleiðingum á „blað“, en hún er svona:

„My mind still talks to you and my heart still looks for you. But my soul knows you're in a better place.“ (Ég tala enn við þig í huga mér og hjarta mitt leitar enn að þér. En sál mín veit að þú ert komin á betri stað.) Þessi setning lýsir því fullkomlega hvernig mér líður þessa dagana, ég sakna þín svo mikið en er samt svo þakklát fyrir að baráttunni skuli vera lokið.

Hvíldu í friði elsku amma mín, sjáumst seinna í sumarlandinu.

Þín

Heida.

Elsku amma í Sóló.

Eins erfitt og það var að heyra af andláti þínu er ég á sama tíma þakklát fyrir að erfiðleikar þínir eru á enda. Ég þakka fyrir öll þau ár sem ég hafði með þér, þótt það sé alltaf hægt að segja að samverustundirnar hafi ekki verið nógu margar.

Minningarnar eru margar sem ég á með þér og afa og eru þær flestar frá því þið bjugguð í Fellsó. Það var mjög skrítið þegar þið fluttuð þaðan, þá gátum við ekki haldið áfram að kalla ykkur ömmu og afa í Fellsó eins og undanfarin 40 ár eða svo. Við vorum hins vegar ekki lengi að finna ný nöfn...amma og afi í Sóló og var því vel tekið.

Þegar þið fluttuð í Sóló var ég orðin fullorðin og komin með börn og var alveg yndislegt að heimsækja ykkur með þau. Það var alltaf tekið á móti mér og mínum með opnum örmum og þú varðst ekki róleg fyrr en kaffi og meðlæti var komið á borðið og allir byrjaðir að gæða sér á kræsingunum (möndlukökuna áttir þú yfirleitt til enda í miklu uppáhaldi). Þú varst alltaf tilbúin að hlusta á sögurnar okkar og hvað hafði drifið á okkar daga. Sýndir börnunum alltaf mikinn áhuga og áttir alltaf til gotterí fyrir þau og dót til að leika með. Lengi vel, og á meðan getan var til staðar, prjónaðir þú sokka og vettlinga á öll langömmubörnin þín. Engum átti að verða kalt.

Á meðan ég sit og hlusta á uppáhaldstónlistina þína leyfi ég huganum að reika aftur til þín og þeirra hamingjustunda sem ég átti hjá þér og afa. Tárin sem renna við endurminningarnar eru hamingjutár því mér leið alltaf vel hjá þér og ykkur. Hjá ykkur átti ég skjól. Nú eruð þið bæði sofnuð hinum langa svefni en ég veit að þið verðið alltaf hjá mér. Takk fyrir allt!

Minning þín er mér ei gleymd;

mína sál þú gladdir;

innst í hjarta hún er geymd,

þú heilsaðir mér og kvaddir.

(Káinn)

Hvíl í friði elsku amma,

þín

Ingibjörg Anna (Bjögga).

Hjartkæra mágkonan mín er farin yfir móðuna miklu þangað sem leið okkar allra liggur að lokum.

Hún fæddist á fyrri hluta síðustu aldar, eina dóttir foreldra sinna en miðbarn 5 systkina.

Hennar ánægja í lífinu fólst í að liðsinna öðrum, enda alltaf til þjónustu reiðubúin.

Það fékk ég að reyna á eigin skinni þegar ég, ung og óreynd sveitastúlka, kom inn í fjölskyldu hennar nokkru eftir miðja síðustu öld. Alltaf var hún reiðubúin til að aðstoða mig og leiðbeina mér til dæmis varðandi heimilishald í borg sem reyndist vera mjög frábrugðið því lífi sem ég þekkti úr sveit.

Hún kenndi mér allt varðandi undirbúning á komu frumburðarins og einnig umönnun ungbarna. Kenndi mér hvað væri eðlilegt og hvað ekki við heilsu barnanna, enda hafði hún sjálf fætt þrjú börn á þessum tíma.

Ég minnist þess að þegar ég á sínum tíma leitaði mér vinnu sem ég fékk reyndar fyrir hennar tilstilli en hafði ekki vísa pössun fyrir þriggja ára barnið mitt, þá taldi hún það ekki eftir sér að koma og sækja drenginn minn innan úr Vogahverfi og lengst „vestur í bæ“ eins og það hét þá, hafa hann hjá sér yfir daginn og skila honum að kvöldi.

Foreldrum sínum var hún stoð og stytta þegar aldurinn færðist yfir þá, eins og vænta mátti.

Þegar elli kerling tók að leika heilsu móður hennar grátt, þá tók hún heimili foreldra sinna upp á sína arma og annaðist það af kostgæfni. Í nokkuð mörg ár eftir að móðir hennar lést sinnti hún öllum þörfum föður síns uns hann komst á elliheimili.

Sem sjómannskona hafði hún í mörg horn að líta. Það kom í hennar hlut, eins og flestra eiginkvenna sjómanna, að annast börn og bú og sjá um daglegan heimilisrekstur meðan heimilisfaðirinn var langdvölum við störf sín á sjó, ásamt því að leggja til heimilisins með vinnu utan þess. Sjálfvirk þvottavél var ekki staðalbúnaður á hverju heimili í þá daga, hvað þá annað sem nú þykir ómissandi á hverju heimili og margt fleira og því gat vinnudagurinn orðið langur.

Hún lagði í vana sinn að sauma og prjóna sjálf mestallan fatnað á sig og dæturnar og ýmsa fleiri ef svo bar undir, enda lék allur saumaskapur í höndum hennar og ekki fóru barnabörnin varhluta af því. Hún gjörnýtti allan fatnað, saumaði endalaust upp úr öðrum flíkum, „venti“ slitnum úlpum og kápum og saumaði nýtt á börnin.

Hún var barn síns tíma sem lærði snemma að bjarga sér, því þá var ekki hægt að kaupa í búð allt sem hugurinn girntist.

Undir það síðasta á meðan eiginmaður hennar lifði, þrotinn af kröftum, þá lét hún ekki sitt eftir liggja, orðin háöldruð, en gat átt það til að vera búin að sinna ýmsum þörfum hans áður en starfsmenn heimahjúkrunar mættu á svæðið.

Þarfir annarra voru alltaf í fyrirrúmi.

Svona var þessi elsku mágkona mín.

Hún var ein af hinum hljóðlátu hetjum hversdagsins.

Við fjölskyldan sendum ykkur öllum, dætrunum, tengdasonunum, börnunum, barnabörnunum og barnabarnabörnunum einlægar og hlýjar samúðarkveðjur um leið og við þökkum elsku Gógó samfylgdina í gegnum lífið.

Ruth og Þráinn.

Tekkklukkan í stofunni slær með þýðum hljómi. Sjómannalagasyrpa með Fóstbræðrum á fóninum. Ígulker og kórall á hillu. Fagurblátt veggfóður. Við erum aftur orðin börn og komin í Fellsmúlann til Gógóar föðursystur okkar. Minningarnar streyma úr hugskotinu þegar við kveðjum uppáhaldsfrænku okkar.

Gisting í Felsó með kvöldkaffi og notalegheitum, sofið á bedda við hliðina á hjónarúminu. Afmælisveislur fyrir stóra sem smáa með kaniltertu og rasptertu sem tóku öllu öðru fram. Lautarferðir með Thermos-brúsa og Allsorts-kökudunk. Útilegur og sumarbústaðaferðir. Fá að vera í bílnum hjá Samma og Gógó, standa milli sætanna og syngja hástöfum með þeim á meðan hossast var eftir holóttum malarvegum sem við kölluðum ferðalagavegi.

Gógó var miðpunkturinn í fjölskyldunni. Eina systirin í systkinahópnum. Heimili þeirra Samma var aðalsamkomustaðurinn. Alltaf var nóg pláss fyrir alla þótt íbúðin væri ekki stór enda hjartarýmið nægt og gestrisnin engu lík. Sammi kom af sjónum bókstaflega kortér fyrir jól og þá mallaði jólakötturinn í pottinum hjá Gógó, eftir því sem Sammi sagði. Það stóðst á endum að þegar hann kyngdi kattarrófunni mættu bræður Gógóar og mágkonur með börnin sín í kvöldkaffi og það var spjallað og leikið fram á jólanótt.

Gógó var grönn og nett, kvik og léttstíg, lágróma með notalegan hlátur. Hún saumaði og prjónaði föt á börnin sín og annarra. Engin tók henni fram í þrifum og hreinlæti, hvergi blettur, hvergi rykkorn. Samt gerði hún alltaf boð á undan sér sem var frekar óþrifalegt. Það helltist niður. Heima hjá okkur var haft á orði ef eitthvað helltist niður að nú hlyti Gógó að vera á leiðinni. Og það stóðst. Kannski af því að hún kom oft í heimsókn og á barnmörgu heimili hellist stundum niður. En við krakkarnir trúðum hinni skýringunni.

Við systkinin vottum Hrönn, Dittu, Báru og öllu fólkinu þeirra okkar innilegustu samúð og kveðjum elskulega frænku okkar með þakklæti. Sjáustum síðar Gógó.

Þorsteinn (Steini), Helga, Anna og Sigurjón (Nonni).

Látin er Anna H. Sigurjónsdóttir, eða Anna hans Samma eins og við kölluðum hana alltaf. Þar er fallin frá góð og ljúf kona sem alltaf tók okkur opnum örmum þegar við komum í heimsókn. Þetta byrjaði hjá okkur, þeim elstu, þegar Anna og Sammi, Samúel Kristinn Guðnason, fluttu á neðri hæðina á Aðalgötu 3 á Suðureyri þar sem þau bjuggu í tvö ár. Þá var samgangur mikill á milli fjölskyldnanna og oft glatt á hjalla. Síðar þegar þau fluttu suður hélst alltaf gott samband.

Við munum gönguferðirnar yfir í Vatnadal á fallegum síðsumardögum. Deginum þá eytt við Vatnið þar sem veiddur var silungur og svo farið í berjamó. Alltaf töfraði hún Anna fram mikið og gott nesti í þessum ferðum.

Við munum allar góðu móttökurnar þegar við fórum suður. Í Ljósheimana og Fellsmúlann var alltaf gott að koma og vel tekið á móti okkur. Anna skutlaði manni í öll þau erindi sem voru ástæður ferðarinnar, fyrst í „Fólksvagninum“ og svo á Peugeot-bílunum sem þau áttu ætíð síðan. Sammi var yfirleitt á sjónum og því var Anna oftast í því hlutverkinu. Samt fannst manni það nú svolítið skrítið að hún skyldi keyra bíl í Reykjavík, það voru nú ekki margar konur sem við þekktum sem gerðu það í þá tíð.

Alltaf vissi maður að velkomið var að gista hjá þeim og enn í dag geymist í minni okkar gamla símanúmerið þeirra sem oft var hringt í þegar á þurfti að halda á þessum árum.

Við viljum þakka fyrir samfylgdina, fyrir hlýjuna og svo fyrir alla jólapakkana. Við kveðjum góða konu með söknuði og sendum dætrum hennar, Hrönn, Dittu og Báru, og fjölskyldum þeirra okkar dýpstu samúðarkveðjur.

Fjölskyldan frá Aðalgötu 3

Suðureyri,

Guðni Albert Einarsson.