Elliðaár Leirugur botn þar sem lónið var áður er nú á þurru. Fuglafræðingur bendir á að tryggja þurfi að menn og kettir komist ekki greiðlega í Blásteinshólma þar sem er varpland fugla þegar vatnsborðið lækkar ofan við stífluna.
Elliðaár Leirugur botn þar sem lónið var áður er nú á þurru. Fuglafræðingur bendir á að tryggja þurfi að menn og kettir komist ekki greiðlega í Blásteinshólma þar sem er varpland fugla þegar vatnsborðið lækkar ofan við stífluna. — Morgunblaðið/Eggert
Guðni Einarsson gudni@mbl.is Raforkuvinnslu var hætt í Elliðaárstöðinni árið 2014. Síðan þá hefur Árbæjarstíflan verið notuð með hagsmuni lífríkisins í huga, samkvæmt upplýsingum frá Orkuveitu Reykjavíkur (OR). Ákveðið var endanlega á fundi hjá OR 8.

Guðni Einarsson

gudni@mbl.is

Raforkuvinnslu var hætt í Elliðaárstöðinni árið 2014. Síðan þá hefur Árbæjarstíflan verið notuð með hagsmuni lífríkisins í huga, samkvæmt upplýsingum frá Orkuveitu Reykjavíkur (OR). Ákveðið var endanlega á fundi hjá OR 8. september í haust að tæma lónið með hagsmuni lífríkis Elliðaánna í huga. Þetta var rekstrarleg ákvörðun og því ekki borin undir stjórn, samkvæmt upplýsingum frá OR. Björn Gíslason borgarfulltrúi hefur gert athugasemdir við tæmingu lónsins og furðar sig á þeirri ákvörðun eins og lesa mátti í Morgunblaðinu í gær.

Í minnisblaði Hafrannsóknastofnunar frá 28. október kemur m.a. fram að með byggingu Árbæjarstíflu 1920-1929 hafi lokast fyrir allar göngur laxfiska upp árnar í sjö mánuði á ári. Lax var fangaður í laxakistu og hann fluttur á efra svæði árinnar þannig að hann kæmist á hrygningarstöðvarnar.

Mælingar sem gerðar voru í vor við reglulega tæmingu lónsins sýndu að súrefnismagn vatnsins neðan við stífluna minnkaði mjög mikið vegna súrefnissnauðs vatns úr botni lónsins. Um leið barst mikið grugg og set með árvatninu úr lónbotninum.

OR óskaði eftir tillögum frá Hafrannsóknastofnun sem lagði fram fjórar sviðsmyndir og raðaði þeim eftir vænleika með tilliti til vatnalífríkis árinnar. Hagstæðustu kostirnir voru taldir annars vegar að fjarlægja stífluna og ganga frá svæðinu í „upprunalegu“ ástandi eða hins vegar að hafa allar lokur opnar árið um kring og gera skarð í einn þröskuldinn Árbæjarmegin til að auðvelda göngur fiska. Einnig kemur þar fram að víða um heim sé lagt kapp á að fjarlægja stíflur sem ekki eru lengur í notkun og að endurheimta farvegi og fyrra lífríki.

Tæming Árbæjarlónsins í haust fór fram undir eftirliti Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur. Það telur jákvætt og æskilegt að færa Elliðaár nær náttúrulegu ástandi og koma í veg fyrir neikvæð áhrif losunar vatns úr lóninu á vorin.

Er á náttúruminjaskrá

Náttúrufræðistofnun Íslands hefur ekki veitt umsögn um þá ákvörðun OR að tæma lónið við Árbæjarstífluna varanlega, að sögn Trausta Baldurssonar, forstöðumanns vistfræði- og ráðgjafadeildar Náttúrufræðistofnunar Íslands (NÍ). Tölvupóstur OR þann 12. október 2020 til NÍ með ósk um mat á áhrifum tæmingar lónsins á fuglalífið á andapollinum ofan stíflunnar rataði ekki rétta boðleið og hefur því ekki verið svarað. Það verður gert við fyrstu hentugleika, að sögn Trausta.

Vatnasvið Elliðaánna, frá upptökum í Elliðavatni til ósa, er á náttúruminjaskrá. Trausti sagði að því fylgi almennt minni vernd en væri svæðið friðlýst. Árbæjarlónið er hluti af svæðinu og nýtur hvorki meiri né minni verndar en aðrir hlutar þess og þarf að taka afstöðu til mála hverju sinni. Vegna þess að gert er ráð fyrir að tæming lónsins sé til frambúðar og áhrifin varanleg þarf að leita umsagna Umhverfisstofnunar og Náttúrufræðistofnunar Íslands um hana. Umsagnir liggja ekki fyrir og því er afstaða þessara stofnana til framkvæmdarinnar ekki ljós.

Trausti benti á 37. grein laga um náttúruvernd. Þar kemur m.a. fram að skylt sé að afla framkvæmdaleyfis, eða eftir atvikum byggingarleyfis, vegna framkvæmda á svæðum á náttúruminjaskrá sem valda röskun. Áður en slíkt leyfi er veitt á að leita umsagna Umhverfisstofnunar, Náttúrufræðistofnunar Íslands og viðkomandi náttúruverndarnefndar, nema fyrir liggi staðfest aðalskipulag og samþykkt deiliskipulag.