Gjögur Flugvélarnar taka jafnt farþega sem póst og annan varning í áætlunarflugi innanlands.
Gjögur Flugvélarnar taka jafnt farþega sem póst og annan varning í áætlunarflugi innanlands. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Helgi Bjarnason helgi@mbl.is Samtök atvinnurekenda á sunnanverðum Vestfjörðum gagnrýna ákvörðun Vegagerðarinnar um að semja við Norlandair um sérleyfi í áætlunarflugi til Bíldudals og óttast að þjónustan versni til muna frá því sem verið hefur í höndum Ernis.

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

Samtök atvinnurekenda á sunnanverðum Vestfjörðum gagnrýna ákvörðun Vegagerðarinnar um að semja við Norlandair um sérleyfi í áætlunarflugi til Bíldudals og óttast að þjónustan versni til muna frá því sem verið hefur í höndum Ernis.

Vegagerðin bauð út fyrr á þessu ári sérleyfi á nokkrum flugleiðum sem niðurgreiddar eru af ríkinu og flugfélagið Ernir hefur sinnt um árabil. Ágreiningur hefur verið um framkvæmdina og er hann ekki enn útkljáður en eftir að kærunefnd útboðsmála aflétti stöðvun framgangs málsins í annað sinn og heimilaði samninga gekk Vegagerðin til samninga við þá sem hún taldi lægstbjóðendur.

Samið var við Erni um áframhaldandi flug á milli Reykjavíkur og Hafnar í Hornafirði og við Norlandair um flug til Bíldudals og Gjögurs. Norlandair mun hefja flug á sína staði næstkomandi mánudag.

Ætluðu að fá stærri vél

Friðrik Adolfsson, framkvæmdastjóri Norlandair, segir að félagið muni nota níu sæta flugvél með jafnþrýstibúnaði við áætlunarflug til Bíldudals og Gjögurs í vetur, eins og krafist var í útboði. Gert var ráð fyrir fimmtán manna vél á sumrin. Friðrik segir að félagið hafi ákveðið að fá nýja og stærri vél til að sinna þessum verkefnum. Það hafi ekki gengið eftir þar sem ekki sé hægt að þjálfa áhöfn vegna kórónuveirufaraldursins. Málið verði endurskoðað þegar séð verður hvaða verkefni verða eftir að faraldrinum lýkur.

Samtök atvinnurekenda á sunnanverðum Vestfjörðum lýsa yfir þungum áhyggjur vegna frétta af breytingum á flugi til Bíldudals. Það er sagt reiðarslag að flufélagið Ernir eigi nú skyndilega að hverfa af vettvangi eftir umdeilt útboð. Félagið hafi veitt afbragðsþjónustu og sé með flugvélar sem henti þjónustunni vel. Í staðinn eigi að bjóða helmingi minni flugvél sem búin er jafnþrýstibúnaði og 50 ára gamlan Twin Otter án jafnþrýstibúnaðar. Sé þetta stökk niður á við í þjónustu.

Friðrik lýsir sig ósammála þessu. Vélin þeirra henti betur fyrir Bíldudalsflugvöll en sú sem notuð hefur verið. Hann tekur fram að ekki sé ætlunin að nota Twin Otter-vélar félagsins í þetta verkefni, þær séu uppteknar í verkefnum í Grænlandi sem skapi uppistöðuna í tekjum fyrirtækisins. Twin Otter-vélar eru notaðar við áætlunarflug félagsins út frá Akureyri, til Þórshafnar, Vopnafjarðar og Grímseyjar. Friðrik segir að Grænlandsverkefnin verði að hluta til gerð út frá Reykjavík og það fari ágætlega saman við áætlunarflugið.

Norlandair verður með afgreiðslu hjá Air Iceland Connect á Reykjavíkurflugvelli og inni í bókunarkerfi þess. Bendir Friðrik á að ódýrustu fargjöld á áfangastaðina fyrir vestan séu í upphafi 12.350 kr. sem hann telur mun lægra verð en hagkvæmustu fargjöld hafi verið til þessa.

Pólitískur þrýstingur

Flugfélagið Ernir er áfram með áætlunarflugið til Hafnar og flýgur einnig til Húsavíkur en án samnings við ríkið. Vegna fækkunar farþega til Vestmannaeyja í kórónuveirufaraldrinum var flugi þangað hætt.

Hörður Guðmundsson, forstjóri Ernis, segir að félagið sé með fleiri verkefni en býst ekki við að þau nægi fyrir flugvélar hans og mannskap. Hann bendir einnig á að mörg flugfélög eigi í erfiðleikum vegna faraldursins.

Telur Hörður að Vegagerðin hafi brotið lög. Það sé della að það varði almannahagsmuni að semja áður en málin eru útkljáð hjá kærunefnd. Telur hann að pólitískur þrýstingur frá Akureyri kunni að hafa ráðið niðurstöðunni.