Höfn Glaðbeittir gestgjafar: Þorgrímur Tjörvi Halldórsson, Birna Jódís Magnúsdóttir og Elías Tjörvi Halldórsson.
Höfn Glaðbeittir gestgjafar: Þorgrímur Tjörvi Halldórsson, Birna Jódís Magnúsdóttir og Elías Tjörvi Halldórsson.
Ágúst Ingi Jónsson aij@mbl.is „Það hefur gengið furðuvel,“ segir Elías Tjörvi Halldórsson, en tíu vikur eru liðnar síðan veitingahúsið ÚPS á Höfn í Hornafirði tók til starfa. Elías á og rekur staðinn ásamt bróður sínum, Þorgrími Tjörva, og Birnu Jódísi Magnúsdóttur. Þeir bræður standa vaktina í veitingahúsinu, elda og þjóna, og segir Elías að þeim hafi fundist vanta samkomustað fyrir heimafólk og að Hornfirðingar hafi tekið staðnum vel. „Ferðamenn eru sannarlega líka velkomnir, þegar þeir koma,“ segir Elías.

Ágúst Ingi Jónsson

aij@mbl.is

„Það hefur gengið furðuvel,“ segir Elías Tjörvi Halldórsson, en tíu vikur eru liðnar síðan veitingahúsið ÚPS á Höfn í Hornafirði tók til starfa. Elías á og rekur staðinn ásamt bróður sínum, Þorgrími Tjörva, og Birnu Jódísi Magnúsdóttur. Þeir bræður standa vaktina í veitingahúsinu, elda og þjóna, og segir Elías að þeim hafi fundist vanta samkomustað fyrir heimafólk og að Hornfirðingar hafi tekið staðnum vel. „Ferðamenn eru sannarlega líka velkomnir, þegar þeir koma,“ segir Elías.

Staðurinn tekur 40-50 manns í sæti með áherslu á handverksbjór og eru tólf slíkir á boðstólum. Með veigunum er boðið upp á léttar „bjórtengdar“ veitingar og er helmingur þeirra vegan. Humar er ekki á matseðlinum eins og vinsælt hefur verið á Höfn enda hefur verið skortur á Hornafjarðarhumri síðustu misseri. Birna Jódís er með leirlistarverkstæði samtengt og er allt leirtau á ÚPS úr hennar smiðju. Hægt er að fylgjast með vinnunni á verkstæðinu og kaupa vörur þaðan.

Aldrei hefur verið fullt á ÚPS frá opnun, kórónuveikin og takmarkanir hennar vegna hafa séð til þess. Upp á síðkastið hefur verið miðað við skertan afgreiðslutíma og tíu manns á staðnum að hámarki, þannig að gestir hverju sinni hafa ekki verið fleiri en níu. Talsvert hefur verið að gera og opið innan skilyrts tímaramma alla daga nema sunnudaga og mánudaga.

Ákváðu að láta slag standa

-En hvernig datt þeim í hug að opna veitingastað í miðjum heimsfaraldri og hvaðan kemur nafnið á veitingastaðnum?

„Við byrjuðum að hugsa um þetta löngu fyrir faraldurinn, en ef ég væri að fara af stað núna myndi ég sennilega hinkra aðeins,“ segir Elías. „Við tókum við húsnæðinu í byrjun árs, en það hýsti áður efnalaug. Framkvæmdir byrjuðu í janúar og við gerðum sjálf það sem þurfti að gera með aðstoð góðs fólks, en fengum reyndar fagmenn í rafmagn og pípulagnir.

Hugmyndin var að opna áður en sumartraffíkin byrjaði, en allt dróst þetta vegna faraldursins. Við ákváðum síðan að hafa hægt um okkur um tíma, en vorum einfaldlega komin of langt til að hætta við. Það var síðan ekki annað að gera en að láta slag standa og staðurinn var opnaður síðustu helgina í ágúst.

Nafnið má rekja til þess að við vinirnir vorum að tala saman einu sinni sem oftar meðan á framkvæmdunum stóð. Þá datt þetta upp úr einhverju okkar, „úps, við erum að fara að opna bar og veitingastað“. Okkur fannst nafnið gott; stutt, laggott og eftirminnilegt,“ segir Elías. Hann tekur undir að nafnið mætti eins tengja við faraldurinn, úps – svo kom veiran.

Veitingastaðurinn ÚPS er staðsettur í miðjum bænum, gegnt ráðhúsinu, en flestir aðrir veitingastaðir í fjölbreyttri flóru þeirra á Höfn eru nálægt höfninni. Elías segir að þeir séu flestir opnir eitthvað og hafi veitingamenn á Höfn sýnt ótrúlegan dugnað þrátt fyrir nánast algeran skort á erlendum ferðamönnum, sem síðustu ár hafi í hundruðum þúsunda sótt í fegurðina nálægt jöklum Suðausturlands.