Fjáraustur Stuðningsmenn Bidens fagna, en þrátt fyrir fjáraustur fóru demókratar verr út úr þingkosningunum.
Fjáraustur Stuðningsmenn Bidens fagna, en þrátt fyrir fjáraustur fóru demókratar verr út úr þingkosningunum. — AFP/Getty
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Andrés Magnússon andres@mbl.is Nýliðin kosningabarátta í Bandaríkjunum reyndist sú langkostnaðarsamasta í sögunni.

Andrés Magnússon

andres@mbl.is

Nýliðin kosningabarátta í Bandaríkjunum reyndist sú langkostnaðarsamasta í sögunni. Talið er að samanlagður kostnaður vegna baráttu um forsetaembættið og þingsæti í bæði öldungadeild og fulltrúadeild, sem kosið var til á sama kjörseðli, hafi numið ríflega 14 milljörðum dala, sem er í námunda við 2.000 milljarða íslenskra króna, ef sá samanburður segir lesandanum eitthvað. Það er meira en tvöföld sú upphæð sem notuð var í síðustu kosningum vestra árið 2016.

Varla kemur á óvart að stærsti hluti þeirra fjármuna fór í baráttuna um Hvíta húsið milli Donalds Trumps og Joes Bidens eða um 6,6 milljarðar dala. En það var líka ógrynni eytt í kosningabaráttu um einstök þingsæti, svo mjög að segja má að það sé komið út í tóma vitleysu.

Skautun í bandarískum stjórnmálum hefur vafalaust haft sitt að segja, eins og endurspeglaðist í kjörsókninni, hinni mestu í meira en öld. Eins hefur netið breytt heilmiklu, því það er orðið svo miklu auðveldara að óska eftir fjárstuðningi þar og ekki þó síður að veita hann; einn smellur og þá fara $20 á þinn frambjóðanda. Eins hafa demókratar tileinkað sér nýja fjáröflun meðal stöndugs fólks, þannig að þeir hafa verið að afla 2-3 sinnum meira fjár en repúblikanar.

Svo blandast þessar ástæður líka saman. Þannig er orðið mikið um það að fólk í einu horni Bandaríkjanna gefi í kosningasjóð þingframbjóðanda í allt öðru kjördæmi, kannski vegna þess að því líst svona vel á hann, nú eða að það hafi þvílíkan ímugust á mótframbjóðandanum.

Þetta mátti t.d. vel sjá á því að Alexandria Ocasio-Cortez, þingkona í New York, safnaði meira en 17 milljónum dala, heilmiklu utan ríkisins. Var hún þó ekki að leggja neina áherslu á fjársöfnun, enda í mjög öruggu demókratakjördæmi. Og þá kannski ekki síður á því, að Amy McGrath, sem bauð sig fram til öldungadeildarsætis í Kentucky gegn Mitch McConnell, leiðtoga repúblikana í deildinni, safnaði og eyddi um 90 milljónum dala í baráttuna! Þeir peningar söfnuðust nær alls staðar annars staðar en í Kentucky, frá stuðningsfólki demókrata sem vildi endilega fella þann lykilmann

Er hægt að kaupa kosningar?

McGrath notaði nær tvöfalt meiri peninga í baráttuna en McConnell, sem þó gaf duglega í. En allt kom fyrir ekki, hún skíttapaði og fékk aðeins 38% atkvæða á móti 58%. Af því ætti að vera augljóst að lykillinn að kosningasigri felst ekki í fjármagninu einu. Er McGrath þó frambærilegur kandídat og McConnell ekki óumdeildur á heimavelli frekar en landsvísu.

Þessir fjármunir eru miklir hvernig sem á er litið, en þegar haft er í huga að síðustu kosningar um öldungadeildarsæti í Kentucky kostuðu samanlagt „aðeins“ um 15 milljónir dala, sést vel hvað baráttan er orðin óstjórnlega dýr.

Demókratar komust að þessum sannindum víðar um landið, ekki síst í baráttu um lykilsæti, þar sem óhemjumiklu fé var varið í kosningabaráttu, sem svo reyndist til einskis. Þeir töpuðu þeim kosningum nær öllum og í stuttu máli má segja að þingkosningarnar hafi verið demókrötum jafnmikil vonbrigði og þeir glöddust yfir forsetakosningunum. Að því leyti má segja að miklu forskoti þeirra í fjársöfnun hafi verið sóað og að hefnigirni sé ekki gott erindi í kosningabaráttu. Og þó repúblikönum hafi orðið meira úr aurunum, sjá þeir örugglega eftir þeim líka.