Björn Arnar Bergsson fæddist 13. júlí 1935. Björn lést 22. október 2020.

Útför Björns fór fram 3. nóvember 2020.

Björn Arnar Bergsson var fæddur í Borgarnesi, bjó í Reykjavík nær tuttugu ár eftir starfslok en var fyrst og fremst Skagamaður. Á Akranesi ólst hann upp, stofnaði sína fjölskyldu, ól upp sín börn og skilaði sínu farsæla ævistarfi þar og þaðan.

Starf hans sem rafmagnseftirlitsmaður í Borgarfirði var á flestan hátt brautryðjendastarf en um leið einyrkjastarf fyrsta áratuginn þar sem hann vann jöfnum höndum við línulagnir, hústengingar og viðgerðir ásamt mælalestri og skriffinnsku í framhaldinu. Mest krefjandi hefur eflaust verið samfelld bakvakt og baráttan við náttúruöflin þar sem slitnar og sligaðar línur og ísbrynjaðar spennistöðvar ógnuðu oft öryggi heimila og fyrirtækja jafnt í hversdegi og á jólum.

En með vönum línumönnum, vaxandi reynslu og ráðum undir rifjum voru málin leyst. Enn þá er búið að þeim ráðum sem Bjössi og hans menn beittu við ísingarvarnir fyrir áratugum. Þegar ég spurði hann út í þetta nýlega sagðist hann bara hafa lesið um þetta einhvers staðar fyrir mörgum árum en ekki fundið þetta upp hjá sjálfum sér. Þetta var dæmigert svar og lýsandi fyrir manninn og passaði um leið við persónulýsingu og heilræði Hallgríms Péturssonar:

Lítillátur, ljúfur, kátur, leik þér ei úr máta. Varast spjátur, hæðni, hlátur, heimskir menn sig státa.

Ein sterkasta sameiginlega minning okkar Bjössa var þegar ég naut þess heiðurs í einu jólafríinu að aðstoða hann og aka með honum um Borgarfjörð og tengja og kveikja fyrstu rafmagnsljósin á bæjunum í Hvítársíðunni. Á ónefndum bæ kveikti Bjössi fyrsta ljósið í eldhúsinu eftir tengingu.

Húsmóðirin, öldruð kona, fórnaði höndum í fögnuði og undrun og bauð okkur síðan til veislu sem var soðið heilagfiski, líklega það mesta og besta nýmeti sem hugsast gat svo langt frá sjó.

Enda tilefni, loks var komið rafljós í bæinn eftir þúsund ára bið. Fleiri minningar eru kærar eins og þegar við ókum um bæinn að dreifa lakkrís í búðir, ég sjö ára og hann rúmlega tvítugur í aukavinnu.

Í sæluvímu með metralanga marsípanlengju á milli okkar í framsætinu gleymdi ég alveg að ég átti að fara í ljós hjá skólalækninum og var það líklega í fyrsta skipti sem ég gleymdi einhverju og hugsaði mikið um það hvernig hægt væri að gleyma einu skyldu sinni í hinum einfalda heimi sem þá var.

Rólyndi Bjössa, ljúft viðmót, frjótt hugmyndaflug og hnyttnar athugasemdir, allt var þetta vel metið í okkar fjölskyldu frá fyrsta degi og öll þau 65 ár sem hafa liðið síðan Inga elsta systir okkar kynnti hann fyrir fjölskyldunni.

Fyrir okkur krakkana var það sjálfgefið en um leið merkilegt síðar að Bjössi og reyndar þau bæði hann og Inga hafa aldrei skammað nokkurt okkar systkina á þessari löngu leið.

Þeirra börn hafa væntanlega svipaða sögu að segja og eru enda sérlega samheldinn hópur sem hefur reynst foreldrum sínum afar vel þegar heilsu þeirra hnignaði og þrekið dvínaði.

Fyrir hönd okkar systkinanna færi ég Ingu og öllum afkomendum og aðstandendum okkar innilegustu samúðarkveðjur. Góður maður er genginn. Megi Björn Arnar Bergsson hvíla í friði.

Magnús Ingólfsson.