Baldur Arnarson baldura@mbl.is Um 140 íbúðir hafa selst á nýjum þéttingarreitum í miðborginni síðan í febrúar og eru nú óseldar innan við 100 íbúðir af um 620. Við þá tölu bætast þrettán leiguíbúðir.

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Um 140 íbúðir hafa selst á nýjum þéttingarreitum í miðborginni síðan í febrúar og eru nú óseldar innan við 100 íbúðir af um 620. Við þá tölu bætast þrettán leiguíbúðir.

Hafa því selst ríflega 500 íbúðir síðan fyrstu íbúðirnar komu á markað haustið 2017 á Frakkastígsreit en sá reitur seldist upp í júlí sl.

Má áætla að söluverðið sé samanlagt ekki undir 25 milljörðum.

Eins og komið hefur fram í Morgunblaðinu er slíkt framboð nýrra íbúða á svo skömmum tíma í miðborginni án fordæma. Fjöldinn er á við tvö Skuggahverfi og vel ríflega það. Eru þá ótaldar 70 lúxusíbúðir við Austurhöfn en svar við fyrirspurn um sölu þeirra hafði ekki borist í gær.

Fjárfestar hafa keypt margar íbúðir á þessum reitum með útleigu í huga, ekki síst á Brynjureit.

Frá því verkefnin voru kynnt hafa reglur um útleigu til ferðamanna verið hertar, WOW air farið í þrot og kórónuveiran lamað heimsbyggðina. Forsendur geta því hafa breyst.

Hafa selt 96 íbúðir

Á Kirkjusandi er búið að selja meirihluta íbúða í tveimur fjölbýlishúsum. Annars vegar 55 af 77 íbúðum í fjölbýlishúsinu Stuðlaborg og hins vegar 41 af 52 íbúðum í fjölbýlishúsinu Sólborg.

Félagið 105 Miðborg byggir á fjórum af níu reitum á Kirkjusandi.

Félagið er fagfjárfestasjóður í rekstri og stýringu Íslandssjóða.

Kjartan Smári Höskuldsson, framkvæmdastjóri Íslandssjóða, segir útlit fyrir að íbúðirnar verði uppseldar upp úr áramótum.

Það sé í takt við áætlanir um að hafa selt íbúðirnar um það leyti sem framkvæmdunum lyki.

„Salan er stöðug og það er mikið skoðað á heimasíðunni okkar. Ástæðurnar eru margþættar. Í fyrsta lagi er þetta mjög vinsælt svæði og lítið framboð hefur verið af nýjum íbúðum í Laugarneshverfinu síðustu ár. Því var uppsöfnuð eftirspurn meðal fólks úr hverfinu sem vildi minnka við sig eða fara í nýtt húsnæði. Svo er þetta frábær staðsetning við strandlengjuna í Reykjavík og verðin eru töluvert hagstæðari en í nýbyggingum nær miðbænum.

Svo má ekki gleyma því að lægri vextir á húsnæðislánum hafa stækkað hópinn sem ræður við að kaupa sér nýtt íbúðarhúsnæði. Nýjar íbúðir eru að jafnaði dýrari en gamlar og við áttum því ekki von á að það yrði töluvert um fyrstu kaupendur sem hefur svo reynst raunin.

Þá má heldur ekki gleyma því að þeim verkefnum sem eru í byggingu og sölu fer fækkandi. Það hefur gengið vel á lagerinn,“ segir Kjartan Smári um stöðuna.