Tokaji-héraðið í Ungverjalandi er það vínhérað jarðarinnar sem býr til ein bestu sætvín sem framleidd eru.
Tokaji-héraðið í Ungverjalandi er það vínhérað jarðarinnar sem býr til ein bestu sætvín sem framleidd eru. Þegar ég dvaldi í Búdapest um tíma sem námsmaður fór ég nokkrum sinnum í heimsókn til ungverskra vínbúgarða þar sem glaðværir heimamenn tóku á móti okkur í vínsmökkun og sögðu sögur, af víninu og landinu.

Kommúnismanum tókst að eyðileggja áratuga hefð og heiður ungverskrar víngerðar sögðu þeir okkur gjarnan. Ungversku vínin eru ódýr og mörg hver alveg óþekkt utan landamæranna, en standast flestum snúning í gæðum. Eða svo vildu vínframleiðendurnir í það minnsta meina. Ég veit í raun lítið um vín, en meðal annars í gegnum það tók ég ástfóstri við Ungverjaland.

Ungverjum vildi ég því sýna bróðurlega vinsemd í gær og horfði ég á umspilsleikinn yfir dásamlegri skál af heimalagaðri ungverskri gúllassúpu með miklu paprikukryddi. Hún var ljúffeng en eftirbragðið reyndist heldur beiskt.

Íslendingur var ég að sjálfsögðu yfir leiknum og óskaði þess einskis heitar en að Ísland myndi komast á þriðja stórmótið í röð. Og við vorum svo grátlega nálægt því! En ekki var okkur ætlað þetta ævintýrið. Íslenska landsliðið, strákarnir okkar, kemur tvíeflt til baka.

Egészségédre sagði ég í leikslok og drakk staup af plómubrandíinu Pálinka, Ungverjum, andstæðingum okkar, til heilla. Vonandi njóta þeir þess að spila á heimavelli á EM og vonandi verða áhorfendur leyfðir. Við Íslendingar snúum okkur nú að undankeppni HM sem hefst brátt og tökum undir með Aroni Einari fyrirliða: „Þetta markar engin endalok.“