[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sviðsljós Ómar Friðriksson omfr@mbl.is Atvinnuleysið fer stigvaxandi frá mánuði til mánaðar og jókst alls staðar á landinu í seinasta mánuði. Almennt atvinnuleysi fór í 9,9% í október og verulega hefur fjölgað í hópi þeirra sem eru í minnkuðu starfshlutfalli og fóru á hlutabætur en atvinnuleysi tengt því fór í 1,2%. Heildaratvinnuleysi á landinu var því 11,1% í október og er að lítið eitt meira en Vinnumálastofnun (VMST) hafði reiknað með að sögn Unnar Sverrisdóttur, forstjóra stofnunarinnar. Hún segir greinilegt að áhrif hertra sóttvarnaráðstafana í þriðju bylgju veirufaraldursins komi fram í þessum atvinnuleysistölum og fjölgun á hlutabótaleiðinni, ekki síst vegna lokana í veitingaþjónustu.

Sviðsljós

Ómar Friðriksson

omfr@mbl.is

Atvinnuleysið fer stigvaxandi frá mánuði til mánaðar og jókst alls staðar á landinu í seinasta mánuði. Almennt atvinnuleysi fór í 9,9% í október og verulega hefur fjölgað í hópi þeirra sem eru í minnkuðu starfshlutfalli og fóru á hlutabætur en atvinnuleysi tengt því fór í 1,2%. Heildaratvinnuleysi á landinu var því 11,1% í október og er að lítið eitt meira en Vinnumálastofnun (VMST) hafði reiknað með að sögn Unnar Sverrisdóttur, forstjóra stofnunarinnar. Hún segir greinilegt að áhrif hertra sóttvarnaráðstafana í þriðju bylgju veirufaraldursins komi fram í þessum atvinnuleysistölum og fjölgun á hlutabótaleiðinni, ekki síst vegna lokana í veitingaþjónustu.

Allt bendir til að atvinnuleysið muni halda áfram að vaxa á næstu vikum. VMST spáir því núna að heildaratvinnuleysið verði 11,9% í yfirstandandi mánuði og geti farið í 12,2% í desember.

Viðlíka tölur um fjölda atvinnulausra í almenna bótakerfinu hafa ekki áður sést að sögn Unnar. Þegar það reis hæst í apríl sl. var almennt atvinnuleysi 7,5%.

Alls voru 20.252 einstaklingar atvinnulausir í almenna bótakerfinu í lok októbermánaðar og 4.759 í minnkaða starfshlutfallinu, eða samtals 25.011 manns. Fjölgað hefur um 1.440 manns sem nýta sér hlutabótaleiðina í októbermánuði.

Heildaratvinnuleysi á Suðurnesjum komið í 21,1%

Suðurnesin skera sig algerlega úr meðal landshlutanna í skýrslu Vinnumálastofnunar, sem birt var í gær. Þar mældist heildaratvinnuleysi 21,2% í október og var almenna atvinnuleysið 20,1% en atvinnuleysi tengt minnkuðu starfshlutfalli var 1,1%. „Hin erfiða staða flugrekstrar og ferðaþjónustu bitnar hart á atvinnulífi Suðurnesja,“ segir í umfjöllun VMST. Atvinnuleysið jókst um 1,6 prósentustig á Suðurnesjum milli mánaða. Þar er heildaratvinnuleysið mun meira meðal kvenna en karla, eða 24,0% alls hjá konum en 19,3% hjá körlum.

Víðar má sjá verulega aukningu atvinnuleysis. Á höfuðborgarsvæðinu var aukningin 1,2 prósentustig en atvinnuleysið þar fór úr 10,1% í september og í 11,3% í október. Á Suðurlandi jókst það úr 8,4% í september og í 10,0% í október og á Austurlandi

fór það úr 5,2% í september og í 7,0% í október. Minnsta aukningin varð á Vesturlandi, Vestfjörðum og á Norðurlandi vestra eða á bilinu 0,5 prósentustig og 0,8 prósentustig.

„Atvinnuleysi er hærra meðal kvenna en karla alls staðar á landinu nema á höfuðborgarsvæðinu og Vestfjörðum.

Heildaratvinnuleysið er nú 10,8% (9,7% í almenna kerfinu) meðal karla, en 11,4% (10,2% í almenna) meðal kvenna á landinu öllu,“ segir í samantekt VMST.

Erfitt er að spá um hvað tekur við eftir áramótin. Þá má reikna með að uppsagnarfrestir margra sem sagt var upp störfum á haustmánuðum fari að renna út, og gætu þeir þá bæst við á atvinnuleysisskrána. Ekki er þó heldur útilokað að birti til með endurráðningum fyrirtækja sem nái viðspyrnu í vetur ef faraldurinn verður í rénun og ekki síst ef bóluefni við veirunni er í augsýn.

Í atvinnuleit í meira en ár

Fjölgað hefur mikið í hópi þeirra sem hafa verið atvinnulausir í langan tíma. Alls höfðu 3.614 einstaklingar sem voru í atvinnuleit í október verið án atvinnu í meira en 12 mánuði og hefur þeim fjölgað um 2.148 á milli ára. Þeim sem verið hafa atvinnulausir í 6-12 mánuði fer einnig fjölgandi, voru 5.491 í lok október en 2.063 fyrir ári.

Atvinnuleysið kemur sérstaklega hart niður á erlendum ríkisborgurum og var atvinnuleysi meðal þeirra 22% í október. 8.204 erlendir ríkisborgarar voru án atvinnu í almenna bótakerfinu í lok október. 1.409 erlendir ríkisborgarar voru þá skráðir á hlutabótum.