Ársæll Hannesson bóndi fæddist á Stóra-Hálsi í Grafningi 1. janúar árið 1929. Hann lést á Dvalarheimilinu Ási í Hveragerði 23. október 2020. Foreldrar hans voru hjónin Margrét Jóhannsdóttir, f. 1888, d. 1965, og Hannes Gíslason, f. 1882, d. 1949, en þau bjuggu á Stóra-Hálsi.

Ársæll var yngstur í stórum systkinahópi en þau eru: Jóhann, f. 1910, d. 1976, Valgerður, f. 1912, d. 2003, Hannes, f. 1913, d. 1984, Sigríður, f. 1915, d. 1924, Gísli, f. 1917, d. 1972, Dagbjartur, f. 1919, d. 1999, Kjartan, f. 1920, d. 1979, Ingólfur, f. 1924, d. 1990 og Sigurður Elías, f. 1926, d. 2012.

Hálfsystir Ársæls, samfeðra, var Steinunn, f. 1900, d. 1991. Móðir hennar var Sigríður Björnsdóttir, f. 1877, d. 1955.

Ársæll tók við jörðinni að Stóra-Hálsi þegar faðir hans lést 1949 og bjó þar fyrstu árin ásamt móður sinni.

Árið 1955 flutti til hans eftirlifandi eiginkona hans, Petrína Sigrún Þorsteinsdóttir, f. 1922.

Þar bjuggu þau myndarbúi með blandaðan búskap í áratugi. Frá 1980 bjó dóttir þeirra Ásdís Lilja með þeim en þegar þau hættu búskap tók dóttir Ásdísar, Sigrún Jóna, við búinu og gerðist bóndi á Stóra-Hálsi.

Ársæll og Sigrún eignuðust fjögur börn, en fyrir átti Sigrún fjögur börn með fyrri manni sínum, Vilhjálmi Friðrikssyni, f. 1920, d. 1996, en þau eru: Dagný Heiða, f. 1942, Friðjón Ágúst, f. 1944, Jón Steinar, f. 1945 og Vilfríður Una, f. 1949.

Börn Ársæls og Sigrúnar eru:

1) Ásdís Lilja, f. 1955. Börn hennar eru: Sigrún Jóna, f. 1981, og Kristný Ásta, f. 1989.

2) Dóra Bryndís, f 1957. Börn hennar eru Dagbjört Aðalheiður, f. 1998 og Guðlaug, f. 1999.

3) Hannes Grétar, f 1958. Börn hans eru Guðfinna, f. 1981, Sigrún, f. 1987 og Margrét, f. 1993.

4) Guðgeir Eiður, f. 1960. Börn hans eru Árún Ósk, f. 1982 og Linda Steinunn, f. 1991.

Langafabörn Ársæls eru nú 14.

Ársæll var áhugamaður um landgræðslu og flaug í mörg ár með flugvél Landgræðslu ríkisins til að leiðbeina flugmönnum varðandi dreifingu á áburði og fræi. Var hann árið 2010 sérstaklega heiðraður af Landgræðslunni fyrir framlag sitt til þessa málaflokks. Auk þess ræktaði hann mikil tún og góðan bústofn á Stóra-Hálsi. Samhliða búskapnum var hann virkur í félagsmálum sveitarinnar og héraðsins alls. Hann var í fjölda ára oddviti Grafningshrepps auk þess sem hann var árum saman fjallkóngur sveitarinnar. Hann var lengi meðhjálpari í Úlfljótsvatnskirkju og sinnti skólaakstri í sveitinni. Hann var í sýslunefnd Árnessýslu öll árin sem hún starfaði og einnig í Héraðsnefnd Árnesinga. Hann var virkur félagi í Lionsklúbbnum Skjaldbreið auk þess sem hann gekk í Þristavinafélagið þegar það var stofnað.

Útför Ársæls var frá Úlfljótsvatnskirkju þann 4. nóvember síðastliðinn.

Þann 4. nóv. sl. var kvaddur hinstu kveðju Ársæll Hannesson, Stóra-Hálsi í Grafningi. Sæli, eins og hann var kallaður af okkur, var maðurinn hennar mömmu.

Ég man alltaf fyrsta skiptið sem við hittumst. Þá var ég stödd í Rvk. hjá föður mínum að læra að synda á sundnámskeiði, þar sem sund var ekki kennt vestur í Dölum. Var búið að koma því þannig fyrir að stelpan var sótt og lagt af stað austur yfir Hellisheiði eins og leið lá að Stóra-Hálsi. Jú, jú, upp Grafning var fær vegur og slóði á milli bæja.

Það örlaði á smástríðni í Sæla við mig, þar sem hann var á leið á fjöll, en fljótt kom í ljós bærinn þar sem hann og mamma bjuggu (Gamli bærinn).

Þarna hitti ég mömmu, Unu og Ásdísi sem þá var lítil. Það voru fagnaðarfundir. Í þá daga var ekki mikið flakkað á milli landshluta.

Mín fyrstu kynni af Sæla lofuðu góðu og urðu nánari þegar frá leið. Tíminn leið – Næst þegar ég kom var búið að byggja nýtt hús, börnin orðin fjögur – túnin að mér fannst heil víðátta og allt í þeim dúr. Fyrir um 56 árum varð samgangur meiri. Ég komin með kærasta, síðar eiginmann og börnin okkar fjögur bættust við með árunum. Fjölgaði heimsóknum austur og kynnin treystust. Við vorum oft á sumrin í sveitinni með krakkana.

Minn maður hjálpaði til við heyskapinn, viðgerðir á tækjum o.fl. sem til féll. Börnin okkar voru öll í sveit hjá þeim mömmu, mismikið þó. Sá elsti lengst, var eiginlega eins og einn af þeirra. Skildu fimm ár milli þeirra yngsta og elsta okkar.

Árin flugu. Hvað varð um tímann? Allir orðnir fullorðnir, komnir afleggjarar o.s.frv. Nú síðari árin hefur heilsan spilað inn í tilveruna, kraftar minnkað og getan til búskapar fjarað út. Þá taka aðrir við.

Nú síðustu árin höfum við reynt að koma sem oftast í heimsókn. Því fylgdi spjall um heima og geima og gerð tilraun til að fá niðurstöður um hitt og þetta.

Því miður tók Covid af okkur ráðin. Ekki náð að kíkja til þeirra mömmu síðan 30. ágúst. Símtöl látin duga, ekkert annað í boði.

Erfiður tími fyrir alla. Kæri Sæli. Nú er lífsbók þinni lokið.

Góða ferð í Sumarlandið.

Við þökkum fyrir samfylgdina.

Við þökkum fyrir allt og allt.

Við sendum okkar innilegustu samúðarkveðjur til mömmu og systkinanna.

Guð styrki ykkur öll.

Heiða og Valur.

Látinn er sveitungi, Ársæll Hannesson, bóndi og oddviti til fjölda ára, Stóra-Hálsi í Grafningi.

Þegar aldnir sveitungar falla frá sem sett hafa sterkan svip á sveitina eystra, þá rifjast gjarnan upp lífshlaup þeirra og kynni.

Ársæll ólst upp á Stóra-Hálsi í stórum og kraftmiklum systkinahópi og hóf þar búskap með móður sinni 1949, síðan með Sigrúnu Þorsteinsdóttur, eiginkonu sinni 1955 til 2019, með aðstoð barna sinna og barnabarna sem nú hafa tekið við búinu.

Frá Stóra-Hálsi gat Ársæll horft yfir nærsveitina og tignarlegan fjallahring í austri sem og Sogið og Álftavatn liðast fram með sínum tærbláma og vatnanið.

Ársæll byggði myndarlega upp á Stóra-Hálsi og rak þar blandað bú lengst af með kýr og kindur.

Hann var duglegur að rækta upp tún og úthaga á jörð sinni og hlaut viðurkenningu fyrir, var jafnframt hagleiksmaður á vélar og tæki til nota fyrir búið og víðar.

Hann keypti einn fyrsta Willys-jeppann í hreppnum og var sá útbúinn sláttuvél og þótti mikið þarfatæki, enda fjölgaði slíkum jeppum ört í hreppnum upp frá því.

Oft gustaði af þeim Hálsbræðrum eins og þeir voru oft kallaðir, enda allir kraftmiklir bændur í Grafningi, Ölfusi og víðar.

Blessuð séð minning þeirra og systur.

Fyrstu kynni mín af Sæla eins og hann var oftast kallaður í sveitinni eystra voru við smalamennsku á Nesjavöllum, en þangað komu leitarmenn fyrrum úr Grafningi á haustin til gistingar í 2 nætur í senn (fyrri og seinni leit) til smölunar á Mosfellsheiði, Hengladölum og víðar daginn eftir, síðan á öðrum degi með smölun fram Grafningsfjöll í Selflatarétt.

Oft voru veður válynd í haustleitum og erfitt að ná til háfjallakinda, jafnvel aftur og aftur sama daginn, því þær strekktu gjarnan upp á hvert háfjallið af öðru.

Á þriðja degi var síðan réttað í Selflatarétt sem var byggð 1910, aflögð sl. haust.

Síðan komu til vorréttir til rúnings víðsvegar í hreppnum og nærhreppum sem stóðu í 2 vikur.

Oft voru bændur orðnir þreyttir þegar þeirri törn lauk, enda vökur miklar.

Mín fyrsta smalamennska yfir fjall þá ungur að árum var með fjársafni úr Nesjavallarétt fram Grafningsfjöll samhliða smölun í Selflatarétt með Ársæli, sem var fjallkóngur hreppsins í áratugi.

Þá varð að standa sig, því Ársæll var kröfuharður að allt gengi eftir settum leitarreglum.

Stundum fylgdi þessum smalamennskum háreysti þegar kappsamir bændur komu saman og horfðu hver sínum augum á smalamennskuna og frammistöðu manna.

Ekki var það réttarpelinn sem olli því, því slíkt sást vart í nefndum leitum, heldur var það kappið sem réð för.

Nesjavallafjölskyldan átti langt samstarf við Ársæl, því oft kom hann einnig á bæ vegna aukaleita á haustin og fleiri verka, síðan að sjálfsögðu í spjall og kaffi þess á milli.

Í púlti mínu beið til afhendingar afmæliskveðja til Ársæls.

Þar segir t.d.: þökkum góð kynni fyrr og síðar í sveitinni okkar fögru sem getur einnig verið kröfuhörð til dvalar og verka.

Megi Guð vernda Ársæl og minningu hans.

Með virðingu og þökk kveðjum við Ársæl og vottum eiginkonu, börnum og fjölskyldunni innilega samúð okkar.

Fyrir hönd fjölskyldunnar frá Nesjavöllum,

Ómar G. Jónsson.