Heiðar Guðjónsson
Heiðar Guðjónsson
Heiðar Guðjónsson, forstjóri Sýnar hf., sem rekur m.a. Stöð 2, Vísi og Bylgjuna, segir félagið vel geta tekið að sér almannaþjónustuhlutverk sem RÚV er einu falið í lögum í dag.

Heiðar Guðjónsson, forstjóri Sýnar hf., sem rekur m.a. Stöð 2, Vísi og Bylgjuna, segir félagið vel geta tekið að sér almannaþjónustuhlutverk sem RÚV er einu falið í lögum í dag. Í umsögn Sýnar til fjárlaganefndar segir að fjölmiðlar félagsins séu vel í stakk búnir til að veita almannaþjónustu og ríkið gæti gert samning um það við fyrirtækið hliðstæðan þeim sem gerður hefur verið við TV2 í Noregi.

,,Við erum með vinsælasta vef landsins um þessar mundir, Vísi, við erum með stóra fréttastofu, við rekum sjö útvarpsstöðvar og erum við með níu sjónvarpsstöðvar þannig að það er ekkert vandamál fyrir okkur að ná til allra. Við rekum líka eina landsdekkandi dreifikerfi sjónvarps og útvarps. Við getum því séð um þetta,“ segir hann.

,,Ríkið þarf að skilgreina hvað almannaþjónusta er. Að halda úti auglýsingamiðli er ekki almannaþjónusta, að kaupa sápur og sýna í sjónvarpi er ekki almannaþjónusta og að vera með vinsælar íþróttaútsendingar er ekki almannaþjónusta. Það er nóg af fyrirtækjum sem sjá um þetta og gera það á eigin kostnað en ekki á kostnað skattborgara,“ segir Heiðar. Hann bætir því við að rekstrarkostnaðurinn á RÚV sé allt of hár og reksturinn ekki nógu hagkvæmur. „Miðað við hvað þeir framleiða af efni þá er kostnaðurinn 50 prósentum of hár,“ segir hann. ,,Þeir eru ekki að reka þetta nógu vel og er ég þá ekki að tala um að það eigi að lækka fólk þarna í launum en það þarf bara að auka framleiðni fyrirtækisins. Þeir eru að gera allt of lítið fyrir allt of mikið,“ segir hann.

Heiðar segist ekki ætlast til að RÚV verði lagt niður, en það standist ekki að tala um það sem almannaþjónustu þegar RÚV er að leigja út t.d. myndver og myndatökubúnað. „Það er nóg af einkafyrirtækjum í þessum verkefnum. Ríkið á ekkert að vera að vasast í því.“ omfr@mbl.is