Helgi Laxdal
Helgi Laxdal
Eftir Helga Laxdal: "Getur verið að oftrúin á sérfræðinga og pillur hafi fært okkur frá trúnni á almættið og tilurð þess?"

Í Silfrinu fyrir skemmstu var einn viðmælandinn Brynjar Níelsson. Hann sagðist vera efins um að allar lokanirnar í tengslum við Covid væru réttlætanlegar, hvort ekki væri verið að fórna meiri hagsmunum fyrir minni þegar litið væri til efnahagslegu áhrifanna. Sín skoðun væri sú að þetta þyrfti að skoða mun betur áður en ákvarðanir væru teknar sem ekki væru bara efnahagslegar, þær skertu persónufrelsi sem ekki hefði alltaf verið þrautalaust að eignast. Hann sagðist líta svo á að þingmönnum bæri að hafa skoðanir á málum af þessu tagi þó ekki væri nema til þess að fá fram almenna umræðu um málið í samfélaginu en því fylgdi sá böggull að sumir í læknastétt teldu að enginn mæti hafa skoðun á þessu máli nema vera með læknismenntun sem að hans mati væri fráleitt.

Mikið er ég sammála Brynjari hvað þetta varðar, benda má á að við lifum í æ fjölbreyttara sérfræðingasamfélagi. Ef fylgja ætti þeirri reglu að enginn mætti tjá sig um mál nema vera þar sérfræðingur er hætt við að lítið færi fyrir lýðræðinu, þ.e. að allir megi tjá sig um allt milli himins og jarðar, sem er ríkulega stjórnarskrárvarið.

Samfélagið verður sífellt flóknara

Við búum í sífellt flóknara samfélagi sem hefur mótast af hinum fjölmörgu reglum sem settar hafa verið til þess tryggja rétt þegnanna og hindra árekstra en reynast síðan í framkvæmdinni um of íþyngjandi og ná til viðbótar ekki þeim árangri sem til var ætlast í upphafi. Alltaf verið að þétta netið umhverfis þá sem talið er að lendi í mótlæti í lífinu af einhverju tagi, mótbyr sem bara fylgir því að vera til og er í raun bara hluti af uppeldinu. Nefna má áfallahjálpina sem sett var á fót fyrir þá sem lent höfðu í meiriháttar áföllum eins og t.d. slysum þar sem björgun stóð tæpt.

Nú virðist mér að áfallahjálpin sé orðin almenn regla, svo almenn að við liggur að ef stelpa segir upp strák eða öfugt þá leiti viðkomandi þessa úrræðis sem opinberar að atvik hins daglega lífs séu að verða nútímamanninum óyfirstíganleg, hann þurfi aðstoð af einhverju tagi til þess að komast klakklaust í gegnum daginn. Atvik sem fyrir nokkrum árum voru hluti af daglega lífinu, lífi sem hver og einn tókst á við án atbeina sérfræðinga. Við búum í harðbýlu landi, landi sem hefur gert okkur að því sem við erum; hraustum, duglegum og kjarkmiklum einstaklingum. Okkar rætur koma frá þeim sem börðust nánast daglega fyrir lífi sínu. Sjómennirnir sem reru til fiskjar gátu allt eins búist við því að þeir næðu ekki heim að kvöldi, þess vegna var aldrei farið í róður án þess að farið væri með sjóferðabæn áður en ýtt var úr vör. Dæmi eru um að heilu áhafnirnar hafi farist í lendingu skipanna ef veðrið breyttist skyndilega sem skildi eftir ekkjur án fyrirvinnu með barnahóp sem þurfti að sjá fyrir. Sama gilti um fjölmargt annað en sjósóknina þótt þar væru slysin trúlega skæðust. Ferðalög á milli staða og landshluta að vetri reyndust mörgum fjörtjón, menn villtust og urðu hreinlega úti, frusu í hel í aftakaveðrum þess tíma. Skýrt dæmi þar um er þegar Reynistaðarbræður urðu úti á Kili á leið sinni norður við fimmta mann með um 200 kinda fjárrekstur, um mánaðamótin október-nóvember 1780.

Hvað hélt lífi í þjóðinni á þessum tímum?

Ég spyr mig stundum: Hvað hélt lífinu í þjóðinni? Hvernig gat hún risið upp aftur og aftur eftir erfið áföll og haldið áfram eins og ekkert hefði í skorist? Skýringarnar eru trúlega margar og fara að nokkru eftir því hver setur þær fram. Mín skýring er sú að það hafi verið trúin á almættið og það hafi verið eitthvað æðra manninum sem réð auðnu fólks. Um það vitnar t.d. sjóferðabænin glöggt en með henni lögðu þeir sem létu úr vör allt sitt traust á almættið, fólu því líf sitt og auðnu, sögðu einfaldlega: Ef það er vilji almættisins að við komum ekki heilir heim þá verður svo að vera. Á þessum árum fólst áfallahjálpin í trúnni á almættið og að allt myndi vel fara ef það væri með í för. Frá þessum árum hefur margt breyst, vonandi flest til batnaðar þótt ég hafi um það efasemdir.

Ég held að enginn deili um það að við lifum í nægtasamfélagi þrátt fyrir að lífsgæðunum mætti vera skipt með réttlátari hætti á milli þegnanna en þrátt fyrir að flestir hafi það gott virðist þeim stöðugt fjölga sem verða þunglyndi og eiturlyfjum að bráð og leita lausna, of oft með því að svipta sig lífi. Af hverju, á sama tíma og við höfum óteljandi úrræði fyrir fólk sem á í margháttuðum vanda nútímamannsins sem boðið er upp á af sérfræðingum á flestum sviðum heilsuverndar, svo sem sálfræðingum, geðlæknum, geðhjúkrunarfræðingum, félagsráðgjöfum, uppeldisfræðingum, fjölskylduráðgjöfum og næringarfræðingum svo nokkuð sé nefnt af sérfræðingaúrvalinu sem sífellt býður upp á fjölbreyttari titla. Þrátt fyrir alla þessa hámenntuðu sérfræðinga og þjónustu þeirra virðist hægt ganga að ráða bót á öllum geðrænu vandamálunum.

Getur verið að ofmat á tækni, sérfræðingum og pillum hafi leitt okkur frá þeirri vissu að það sé eitthvað í heiminum manninum æðra og máttugra sem við eigum að snúa okkur til á erfiðum stundum, fullvissa, sem hefur oftar en ekki leitt okkur gegnum erfiðleika hversdagsins? Hver veit?

Höfundur er vélfræðingur og fyrrverandi yfirvélstjóri. punkta60@gmail.com

Höf.: Helga Laxdal