Kristín Jóhannsdóttir fæddist í Bæ í Hrútafirði 21. febrúar 1932. Hún lést á Sjúkrahúsinu á Hvammstanga 5. nóvember 2020.

Kristín var dóttir hjónanna Jóhanns Jónssonar, f. 18. júní 1890, d. 20. nóvember 1966, bónda og trésmiðs í Bæ, og Sigríðar Guðjónsdóttur, f. 4. júlí 1898, d. 24. apríl 1965, húsfreyju s.st. Kristín átti níu systkini og komust fimm þeirra á legg, þau eru: Ingibjörg, f. 31. júlí 1930, d. 11. ágúst 2001, maki 1 Vilhjálmur Þór Þorbergsson, maki 2 Ásgeir Jónsson; Jóna Aðalheiður, f. 19. maí 1933, d. 14. mars 1952, ógift; Guðjón, f. 10. maí 1936, maki Hrefna Bjarnadóttir; Jónas, f. 3. ágúst 1938, d. 19. janúar 2015, ókvæntur, og Sigrún Dagmar, f. 15. maí 1942, maki Ingólfur Karlsson.

Kristín giftist 18. júní 1954 Böðvari Þorvaldssyni frá Þóroddsstöðum, f. 22. ágúst 1926, d. 23. apríl 2015. Börn þeirra eru: 1) Aðalheiður S., f. 25. apríl 1955. Eiginmaður hennar er Þorsteinn H. Sigurjónsson. Þau eiga sex börn; Kristínu, Erlu (f. 13. júlí, d. 14. júlí 1979), Sigurjón, Sigurbjörgu, Guðrúnu Gróu og Helgu Margréti, og fimm barnabörn. 2) Þorvaldur, f. 1956, ókvæntur. 3) Gróa María, f. 1962, maki 1 Sigurbjörn Ragnarsson, sonur þeirra er Böðvar, og þrjú barnabörn; maki 2 Steinþór Friðriksson, sonur þeirra er Friðrik Tómas, stjúpbörnin Sandra Dís, Finnborg Salóme og Guðmundur Atli, og fjögur stjúpbarnabörn. 4) Jóhann, f. 1966, maki Þórunn Helga Þorvaldsdóttir. Þau eiga þrjú börn, Þorvald Helga, Hrafnhildi Kristínu og Hauk Inga, og eitt barnabarn.

Kristín ólst upp í Bæ til 1941 er fjölskyldan flutti að Litlu-Hvalsá í sömu sveit og var þar til 1952 þegar þau brugðu búi og fluttu til Borðeyrar í eitt ár og síðan til Reykjavíkur. Kristín var í Reykjaskóla 1948-49 og fór svo í Kvennaskólann á Blönduósi þar sem hún nam veturinn 1950-51. Um tíma starfaði hún við verslun í Reykjavík en 1951-52 varð hún ráðskona á Símstöðinni í Brú þar til þau Böðvar hófu búskap á Þóroddsstöðum 1953-54. Árið 1963 hófu þau svo búskap á nýbýlinu Akurbrekku, sem þau höfðu hafið uppbyggingu á 1955, og þar bjuggu þau allt fram til 1999 er þau hættu búskap og keyptu húsið Hveravík við Reykjaskóla og fluttust þangað. Auk þess að taka fullan þátt í búskapnum vann Kristín við ræstingar í Reykjaskóla frá því snemma á 8. áratugnum og fram yfir aldamótin. .

Útförin fer fram frá Staðarkirkju í dag, 14. nóvember 2020, klukkan 14.

Hverfur margt

huganum förlast sýn

þó er bjart

þegar ég minnist þín.

Allt er geymt

allt er á vísum stað

engu gleymt,

ekkert er fullþakkað.

(Oddný Kristjánsd. í Ferjunesi)

Elsku amma Stína

Mín fyrsta æskuminning er frá því þegar ég prílaði upp á plötuspilarann á Akurbrekku og staflinn með ABBA-plötunum hennar mömmu og harmonikkutónlistinni sem þér þótti svo skemmtileg hrundi yfir mig. Þú passaðir mig oft, ég var það sem kallað er í dag krefjandi barn og þú sagðir mér að Grýla kæmi bráðum hlaupandi ofan úr Þóroddsstaðahrauni til að taka mig. En þess á milli vorum við góðar vinkonur og ég fékk mitt fyrsta tónlistarlega uppeldi frá þér þó svo ég hafi aldrei lært að meta Hauk Morthens almennilega. Þú varst annáluð fyrir snyrtimennsku. Einu sinni var ég að reka kindur meðfram þjóðveginum þegar þú allt í einu snaraðist út úr bíl, hljópst til mín með hárbursta og átaldir mig fyrir að láta sjá mig á almannafæri með hárið eins og úfinn hænurass eins og þú sagðir sjálf.

Ef þú hefðir fæðst 40 árum seinna hefðir þú kannski farið svipaða leið í lífinu og ég. Þú hafðir áhuga á landafræði og dróst oft fram Gyldendal-kortabókina þegar ég kom í heimsókn eða baðst mig að benda þér á Súmötru, Jövu eða Borneó á landakortinu á borðstofuborðinu. Þegar fór að gjósa einhvers staðar í Indónesíu áttir þú það til að hringja og spyrja hvort það væri ekki örugglega allt í lagi hjá okkur í Singapúr. Þú barst svo mikla umhyggju fyrir okkur öllum og það stóð aldrei á þér þegar einhver þurfti á hjálp að halda.

Elsku amma, það er þyngra en tárum taki að geta ekki fylgt þér síðasta spölinn. En þetta er verðið sem ég borga fyrir að hafa þetta val sem þín kynslóð hafði ekki.

Hvíl í friði,

Kristín Þorsteinsdóttir.

Síminn minn er hættur að hringja.

Hún mamma mín hefur kvatt okkur og haldið á nýjar slóðir.

Svo mikið er víst að hún hefur ekki komist í síma til að hringja, mikil ósköp sem ég sakna þess.

Söknuðurinn er sár, tómarúmið virðist endalaust.

Hún var dugleg og samviskusöm hún mamma, stjórnaði heimilinu á Akurbrekku með myndarbrag og það var ekkert sem fram hjá henni fór.

Hún var alltaf að og stundum erfitt að fylgja henni eftir því það var svo margt sem hún vildi gera, þurfti að gera eða henni datt allt í einu í hug að gera. Þannig var hún mamma.

Mamma elskaði tónlist, var með fallega rödd og spilaði bæði á orgel og gítar.

Hún hafði brennandi tónlistaráhuga og var mikill safnari.

Það var ekki nóg að henni tækist að koma mér og mínum systkinum til vits og ára heldur átti hann Böðvar eldri sonur minn sitt annað heimili á Akurbrekku í styrkum og traustum faðmi hennar og pabba.

Hann var lánsamur hann Böðvar litli eins og mamma kallaði hann gjarnan til aðgreiningar frá afa Böðvari.

Alla tíð hefur verið sérstök taug milli okkar mömmu, okkur þótti helst til of langt á milli okkar núna síðustu árin og erfitt að geta ekki verið til staðar. Hún hafði gjarnan á orði að ég væri búin að vera nógu lengi þarna fyrir vestan, það væri kominn tími á að koma eitthvað nær.

Við vorum sammála um að það væri langt á Ísafjörð.

Takk fyrir elsku þína og umhyggju alla tíð.

Þín er sárt saknað.

Ég heyri vorið vængjum blaka,

og vonir mínar undir taka,

Því ég er barn með sumar sinni

og sólarþrá í vitund minni.

Er blikar sær und bláu hveli

og blærinn vaggar smáu stéli

og ástin skín úr augum þínum,

ég uni glaður kjörum mínum.

Þegar sígur sólin rauð,

sundin gulli þekur,

í hjarta mínu á ég auð

sem enginn frá mér tekur.

(Oddgeir Kristjánsson/Ási í Bæ)

Gróa María.