Teitur Björn Einarsson
Teitur Björn Einarsson
Eftir Teit Björn Einarsson: "Eina leiðin í átt að vitrænni niðurstöðu um mörk auðlindanýtingar er leið vísindanna"

Vísindi og lögbundnar vistfræðilegar rannsóknir hafa orðið að umræðuefni í greinaskrifum mínum og framkvæmdastjóra Landssambands veiðifélaga hér á síðum Morgunblaðsins nýverið. Í grein, sem birtist þann 7. nóvember sl., telur framkvæmdastjórinn Elías Blöndal Guðjónsson ekki sjálfgefið að fara eigi eftir vísindalegum niðurstöðum stjórnvalda bara af því að hún er vísindaleg, til að ákvarða hvort fiskeldisstarfsemi hafi neikvæð áhrif á umhverfið eða lífríki á ákveðnu svæði stafi hætta af starfseminni. Í niðurlagi greinar hans segir orðrétt að „Vísindi mega ekki bera náttúruna ofurliði“. Þetta er merkileg afstaða.

Vísindi efla alla dáð

Vísindi eru leið mannsins til að skilja bæði mannshugann og náttúruna. Vísindaleg þekking og aðferðafræði gerir okkur kleift að spyrja gagnrýnna spurninga um hvað er skynsamlegt og rétt, efast um viðtekinn hugsunarhátt og leita leiða til að gera betur. Vísindin hafa því fært okkur þekkingu til að bæta okkur sjálf og umhverfi okkar. Með hugvitið að vopni hefur Íslendingum tekist að búa til verðmæti úr auðlindum landsins og skapa skilyrði til að hér megi dafna blómlegt mannlíf.

Andspænis vísindum standa svo kreddur, hindurvitni, trú og tilfinningar. Jörðin er flöt og Maríubænir vinna best á draugum eru auðvitað kjánalegar staðhæfingar og ómarktækar í þekkingarsamfélagi. Einhverjir trúa því samt að jörðin sé flöt og draugar séu til. Það er meinlaust á meðan slíkt er ekki lagt til grundvallar þýðingarmiklum spurningum um hvernig samfélagi við viljum búa í, hvernig við bætum lífskjör og lifum saman í sátt og samlyndi í frjálslyndu lýðræðissamfélagi.

Staðhæfing þess efnis að vísindi megi ekki bera náttúruna ofurliði er því furðuleg. Það er vegna vísinda sem við vitum hvað er náttúra og hvaða tjóni maðurinn getur valdið henni. Kannski er þetta tilfinning framkvæmdastjórans um að ekkert megi gera við lax – nema veiða hann með flugustöng.

En þessi skoðun að vísindi megi ekki bera náttúruna ofurliði er ómarktæk og getur ekki legið til grundvallar í löggjöf eða ákvörðunum stjórnvalda. Einfaldlega vegna þess að hún byggist á geðþótta en ekki vísindalegum rökum sem leitt geta til málefnalegrar niðurstöðu.

Náttúran skal njóta vafans er haldbært sjónarmið svo lengi sem náttúruandlagið og vafinn byggist á einhverjum hlutlægum mælikvörðum sem hægt er að rannsaka, rökræða og bregðast við á grundvelli vísindalegrar aðferðafræði og ráðgjafar. Vafinn getur ekki verið huglægur og meðhöndlaður sem algildur sannleikur af útvöldum verndarsinnum. Í stað rökræðu kæmi þá keppni í hávaða og upphrópunum.

Auðlindanýting á grundvelli vísinda

Eina leiðin í átt að vitrænni niðurstöðu um mörk auðlindanýtingar er leið vísindanna. Það er eina leiðin til að ákveða hvað má veiða mikið af þorski, hvernig við beislum orku fallvatnanna, hvar á reisa hús til að forðast tjón af völdum jarðskjálfta og hvar er hægt að starfrækja fiskeldi án þess að slík starfsemi hafi neikvæð áhrif á umhverfið eða lífríki á ákveðnu svæði stafi hætta af starfseminni.

Elías dylgjar um það í grein sinni að ég vilji setja laxeldi við ósa laxveiðiperlna en það hef ég aldrei lagt til. Reyndar er í gildi regla í 18. gr. reglugerðar nr. 540/2020 um fiskeldi sem segir að fjarlægðarmörk laxeldis frá ósum áa með villta laxastofna skuli vera minnst 5 km. Ég leyfi mér hins vegar alveg að spyrja á hverju sú regla grundvallast. Er ástæða til að afla frekari gagna og gera ítarlegri rannsóknir til að staðreyna varnaðarorð veiðiréttarhafa um að fjarlægðin eigi að vera meiri, kannski 10 km, nú eða 100 km? Aðalatriðið er að vísindaleg ráðgjöf skeri úr um rétta fjarlægð út frá hlutlægum forsendum.

Að sama skapi hef ég opinberlega efast um gildi auglýsingar nr. 460/2004, þar sem laxeldi í sjókvíum var bannað á stórum hluta við strendur landsins, á þeirri forsendu að litlar sem engar rannsóknir eða gögn styddu við jafn umfangsmikið og íþyngjandi bann við löglegri starfsemi. Gildandi og nýlega breytt fiskeldislög kveða ítarlega á um vistfræðilegar rannsóknir til að skera úr um hvar óhætt er að stunda fiskeldi. Lögin eru stjórnvaldsfyrirmælum rétthærri og því verður að ætla að bann við fiskeldi á stórum hluta við strendur landsins verði að styðjast við slíkar lögbundnar vistfræðilegar rannsóknir. Annars byggist auglýsingin meira á geðþótta en vísindum og það stenst ekki lagalega.

Farsældum vefja lýð og láð

Í opinberri umræðu verður æ oftar vart við alls konar dylgjur um að vantreysta beri vísindum og fræðimönnum og jafnvel leggja rök og staðreyndir til hliðar svo hægt sé að ná í gegn einhverjum pólitískum baráttumálum. Popúlistar hafa slíkir kyndilberar fáfræði og upplýsingaóreiðu verið kallaðir beggja vegna Atlantsála. Þeir óttast allir mjög að vísindi og málefnaleg umræða beri málstaðinn ofurliði.

Höfundur er lögmaður og 1. varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi.

Höf.: Teit Björn Einarsson