[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Snjólaug fæddist á Ísafirði 14. nóvember 1945 og ólst þar upp til 18 ára aldurs. „Ég passaði börn þegar ég var ellefu ára og þegar ég varð svo unglingur fékk ég vinnu í fiski.

Snjólaug fæddist á Ísafirði 14. nóvember 1945 og ólst þar upp til 18 ára aldurs. „Ég passaði börn þegar ég var ellefu ára og þegar ég varð svo unglingur fékk ég vinnu í fiski.“ Hún segir það hafa verið gaman að fá að taka þátt í atvinnulífinu og að stundum hafi krakkar fengið að pilla rækju í 1-2 tíma í akkorði og fengu þá borgað eftir vigt. „Það var yndislegt að alast upp á Ísafirði. Maður var frjáls eins og fuglinn og lék sér í fjörunni og í fjallinu og á Hlíðaveginum voru mörg börn svo það skorti aldrei félaga.“

Snjólaug var mikil skíðakona og stundaði skíðaíþróttina af kappi á barns- og unglingsárunum eins og sannur Hlíðavegspúki. Hún fór í landspróf vorið 1961 frá Gagnfræðaskóla Ísafjarðar og fór í 1. bekk menntaskólans, sem þá var starfræktur við skólann.

„Mamma var vefnaðarkennari. Hún var fædd og uppalin í Eyjafirði en lærði vefnað í Danmörku og þegar hún kom til Ísafjarðar að kenna við húsmæðraskólann kynntist hún pabba. Árið 1959 byrjar hún með vefstofu og við systurnar unnum á sumrin á vefstofunni, en svo fær hún krabbamein og deyr 1963.“ Snjólaug ræðir það ekki frekar en segir að stuttu síðar hafi hún fengið hugljómun. „Þegar mamma er dáin, man ég eftir því að ég var að vefa niður úr stól og þá slær þeirri hugmynd í kollinn á mér að ég ætti bara að halda vefstofunni áfram, ráða saumakonur og hönnuði og byggja hús með speglum og halda tískusýningar. Í miklum spenningi yfir háleitri hugmyndinni fór hún til Guðrúnar Vigfúsdóttur, vefnaðarkennara í Húsmæðraskólanum, og spyr hana hvort hún haldi að hún geti komist inn í nýja vefnaðardeild Myndlista- og handíðaskóla Íslands, sem hafði verið auglýst fyrr um haustið. „Daginn eftir missti ég móðinn og fór til Guðrúnar og vildi hætta við allt saman. En þá var hún búin að hafa samband suður og ég mátti koma í skólann um áramótin.“

Um vorið 1965 lauk Snjólaug vefnaðarkennaraprófi frá Handíða- og myndlistaskóla Íslands. Hún réðst til starfa við Hússtjórnarskólann á Varmalandi í Mýrasýslu haustið 1966 sem vefnaðarkennari og vann þar í níu ár auk þess að kenna um hríð mynd- og handmennt við útibú grunnskólans á Varmalandi. Hún segir að í rauninni hafi hún haft miklu meiri áhuga á sagnfræði og skíðum en vefnaði þegar hún var ung.

„En ég hef þá trú að í lífinu komi svona stundir þar sem manni er stýrt á ákveðna braut og ég held að mér hafi verið stýrt þarna og eins þegar ég fer á Varmaland. Þetta púslaðist þannig saman án þess að ég hafi endilega valið það, en þó svo að mitt áhugasvið hafi verið annað á þessum tíma, þá kom áhuginn smám saman með ástundun og auknum þroska.“ Hún segir Guðrúnu Vigfúsdóttur hafa verið áhrifakonu í sínu lífi því hún hafi aftur leitað til hennar eftir námið og þá hafi Guðrún verið nýkomin af kennaraþingi á Varmalandi, þar sem vantaði kennara, og þar með small púslið saman.

Á Varmalandsárunum kynntist Snjólaug eiginmanni sínum, Guðbrandi Brynjúlfssyni, sem þá var nemandi í búvísindadeild Bændaskólans á Hvanneyri. „Við hefjum búskap á Brúarlandi 1973 og ég flyt þangað alkomin árið 1975. Ég tók ekki þátt í skepnuhirðingu á búinu enda lítt hrifin af skepnum, en það hefur nú elst af mér. Hræðslan við dýrin kom mér í listina,“ segir hún og hlær. Flest sumur voru hjónin með unglinga, sem ásamt sonum þeirra tóku þátt í bústörfum. „Þá var maðurinn minn oddviti sveitarinnar frá 1978 til 1990 og var skrifstofa hreppsins á heimilinu og fundir hreppsnefndar haldnir þar. Það var því nóg að gera við húsmóðurstörf og barnauppeldi þessi ár, en þegar meiri tími vannst frá heimilisstörfum fór ég að vinna við handíðir og hönnun og byggði vinnu mína á þeirri menntun sem ég hafði.“

Smám saman fór Snjólaug að sinna listinni af meiri alvöru. „Ég byggði litla vinnustofu og gallerí á Brúarlandi og það má segja að handíðir og hönnun sé mitt aðalstarf núna, þótt ég hafi minnkað við mig vinnu með hækkandi aldri.“ Samhliða listsköpuninni var hún virk í félagsmálum.

„Þegar ég hafði verið nokkur ár á Brúarlandi gekk ég í kvenfélag hreppsins, var í stjórn Kvenfélagasambands Borgarfjarðar um tíma og var fulltrúi á aðalfundum Kaupfélags Borgfirðinga í nokkur ár. Ég starfaði með Kvennalistanum öll árin sem hann var starfræktur og sat m.a. á Alþingi í tvær vikur eitt árið sem varamaður Danfríðar Skarphéðinsdóttur.“

Snjólaug hlaut heiðursviðurkenningu Menningarsjóðs Borgarbyggðar árið 2007 fyrir framlag hennar til menningarmála í Borgarbyggð.

Fjölskylda

Eiginmaður Snjólaugar er Guðbrandur Brynjúlfsson, f. 30.4. 1948, bóndi. Foreldrar hans eru Brynjúlfur Eiríksson, f. 21.12. 1910, d. 12.1. 1976, bóndi og bílstjóri, og Halldóra Guðbrandsdóttir, f. 15.5. 1911, húsfreyja á Brúarlandi á Mýrum. Systkini Snjólaugar eru Hólmfríður, f. 25.8. 1944, fv. kennari og skólastjóri, búsett á Akureyri og Bárður Guðmundsson, f. 27.10. 1950, skipulags- og byggingafulltrúi á Selfossi. Börn Snjólaugar og Guðbrands eru Brynjúlfur Steinar, f. 27.2. 1973, bóndi á Brúarlandi, kvæntur Theresu Vilstrup Olesen garðyrkjufræðingi og húsmóður, f. 28.11. 1974, og Guðmundur Ingi, f. 28.3. 1977, líffræðingur og umhverfisfræðingur og umhverfis- og auðlindaráðherra og býr í Reykjavík. Snjólaug á barnabarnið Dóru Karólínu Brynjúlfsdóttur, f. 23.5. 2007.

Foreldrar Snjólaugar eru hjónin Guðmundur Bárðarson vélstjóri, f. 9.2. 1918, d. 27.6. 1977, og Margrét Ingibjörg Bjarnadóttir, f. 8.8. 1915, d. 3.3.1963. Þau bjuggu á Ísafirði.