Stefán E. Stefánsson ses@mbl.is Norska fasteignafélagið Fredensborg AS, sem keypti Heimavelli hf. að fullu í kjölfar yfirtökutilboðs í sumar, hyggst breyta nafni Heimavalla í Heimstaden Iceland á nýju ári.

Stefán E. Stefánsson

ses@mbl.is

Norska fasteignafélagið Fredensborg AS, sem keypti Heimavelli hf. að fullu í kjölfar yfirtökutilboðs í sumar, hyggst breyta nafni Heimavalla í Heimstaden Iceland á nýju ári. Verður það gert í tengslum við breytingar á stöðu fyrirtækisins þar sem það mun færast úr beinu eignarhaldi Fredensborgar og undir félagið Heimstaden sem er einnig í eigu Fredensborg. Heimstaden fer einnig með meirihlutastjórn á Heimstaden Bostad sem á leigufélög í sex öðrum ríkjum, Svíþjóð, Danmörku, Noregi, Hollandi, Tékklandi og Þýskalandi.

Aðrir fjárfestar sem koma að eignarhaldinu á Heimstaden Bostad, með 49% atkvæðisrétt á hluthafafundum eru félögin Alecta (41%), sem er einn stærsti lífeyrissjóður Svíþjóðar, Folksam (6%), Ericsson (2%) og Sandvik (1%). Í kynningu sem fulltrúar fyrirtækisins hafa birt á fundum með íslenskum lífeyrissjóðum og öðrum sjóðastýringarfyrirtækjum á undanförnum vikum kemur fram að markmið fyrirtækisins sé að innleiða stefnu Heimstaden í starfsemi íslenska félagsins en að það byggi m.a. á sjálfbærni og samfélagsábyrgð. Samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins hefur íslenska fjármálafyrirtækið Arctica Finance haft hönd í bagga við skipulag kynningarfundanna en félagið var auk þess ráðgjafi Fredensborg við kaup á Heimavöllum.

Vilja stækka á komandi árum

Samkvæmt kynningu Heimstaden hefur félagið að markmiði að fjölga íbúðum í eigu Heimstaden Iceland um að minnsta kosti 100% á komandi árum. Í dag eru eignir í útleigu um 1.581 talsins en áætlanir séu uppi um að fjölga þeim í 3-4 þúsund. Þá sé horft til þess að vöxturinn verði bæði knúinn áfram með kaupum á eignum sem nú þegar eru á markaðnum og kaupum á þróunarverkefnum sem eru í pípunum.

Félagið hyggst einkum horfa til smærri og hagkvæmari íbúða sem séu á verði sem stærstur hluti samfélagins ráði við. Þá verði horft til höfuðborgarsvæðisins og þéttbýlissvæða innan 45 mínútna akstursfjarlægðar frá Reykjavík. Segir auk þess í kynningunni að húsaleigumarkaðurinn á Íslandi fari vaxandi en sé þó enn óþroskaður. Þá fari hlutfall þeirra sem eigi fasteign lækkandi og fjölskyldustærðir séu enn stórar en fari minnkandi. Þá séu efnahagshorfur góðar fyrir landið, efnahagsstjórnin sé í góðu horfi og að þau gildi sem séu við lýði í samfélaginu falli vel að markmiðum Heimstaden.

Stækkar en samt smátt

Samkvæmt mati Heimstaden eru leigueignir Heimavalla nú metnar á u.þ.b. 48,1 milljarð króna. Gróft álitið virðast áætlanir félagsins því vera þær að stækka eignasafnið þannig að verðmæti þess muni nema a.m.k. 100 milljörðum króna.

Í heildarsamhengi starfseminnar hjá Heimstaden verður íslenska félagið ekki stórt í sniðum. Minnsta rekstrareiningin er nú í Þýskalandi og þar eru íbúðirnar tæplega 1.300 og eignasafnið metið á 46,6 milljarða króna. Í Tékklandi er félagið með flestar íbúðir eða ríflega 42 þúsund. Eignaverð þar í landi er hins vegar mjög lágt og því er fjárfestingin í eignunum aðeins metin á 208 milljarða. Mest er fjárfestingin í ríflega 30 þúsund íbúðum í Svíþjóð og er hún metin á tæpa 700 milljarða króna. Í Danmörku er eignaverðið mjög hátt og eru 9.728 íbúðir metnar á 570 milljarða. Koma svo Noregur og Holland þar mitt á milli.