Helga Þórhallsdóttir fæddist á Ormsstöðum í Eiðaþinghá þann 3. júní 1931. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Uppsölum á Fáskrúðsfirði þann 4. nóvember 2020. Foreldrar hennar voru Sigrún Guðlaugsdóttir frá Fremstafelli í Köldukinn, S-Þing, f. 30. júní 1898, og Þórhallur Helgason frá Skógargerði í Fellum, f. 1. mars 1886. Systkini hennar eru Ólöf, Guðlaugur, Anna og Ásmundur. Sonur Helgu er Þórhallur Borgarsson, húsasmiður á Egilsstöðum. Kona hans er Sigurbjörg Óskarsdóttir og eiga þau tvær dætur og tvö barnabörn.

Helga gekk í Alþýðuskólann á Eiðum og Húsmæðraskólann á Laugum, en hélt síðan suður til náms í Tónlistarskólanum í Reykjavík og útskrifaðist þaðan með kennsluréttindi. Hún bjó nær alla tíð á Ormsstöðum ásamt systkinum sínum, Önnu og Guðlaugi. Hún kenndi við Alþýðuskólann og Barnaskólann á Eiðum, tónfræði, söng og á píanó ásamt fleiri hljóðfærum. Þá var hún einnig organisti Eiðakirkju um árabil.

Útför Helgu fer fram frá Eiðakirkju í dag, 14. nóvember 2020, kl. 11.

Steymt verður frá útförinni á Facebooksíðu: Útför Helgu Þórhallsdóttur.

Ég var sjö ára held ég þegar ég var sendur í sveit austur í Ormsstaði í Eiðaþinghá, til Þórhalls afabróður míns og Sigrúnar konu hans sem þar bjuggu félagsbúi með börnum sínum fjórum: Guðlaugi, Önnu, Helgu og Ásmundi. Elst var Ólöf en hún var þá flutt til Akureyrar. Þórhallur bóndi var menntaður smiður og mikill hagleiksmaður, Sigrún var ættuð frá Fremstafelli í Köldukinn, móðursystir Jónasar Kristjánssonar handritafræðings. Heimilið var menningarheimili, orgel í stofu og bókakostur góður. Systkinin voru ung og lífsglöð, ólík en samhent, söngvin og bókhneigð, og allt þetta hógværa fólk átti sinn þátt í að móta mig ungan þau mörgu sumur sem ég dvaldi hjá þeim og þeirra foreldrum, og fyrir það verð ég ævinlega þakklátur.

Þau voru hagleiksfólk og listhneigð eins og þau áttu kyn til og sóttu sér menntun eftir Eiðaskóla og reynslu út fyrir túngarðinn á ólíkum sviðum: Ólöf menntuð í vefnaði í Danmörku og starfaði sem vefnaðarkennari á Akureyri, Guðlaugur húsgagnasmiður og Ásmundur búfræðingur og húsasmiður, báðir einstakir völundar á tré og járn, Anna gekk á húsmæðraskóla á Akureyri, drátthög og sótti sér menntun í myndlist. Yngsta systirin, Helga, fór fyrst á slóðir móður sinnar í Þingeyjarsýslu og sótti húsmæðraskóla á Laugum en síðar lá leiðin í Tónlistarskólann í Reykjavík þaðan sem hún útskrifaðist tónmenntakennari. Hún starfaði síðan við tónlistarkennslu á Eiðaskólum, stjórnaði kórum og tók þátt í tónlistarlífinu í sinni heimabyggð.

Heimilið var fjölmennt þótt húsakynni væru þröng, sumargestum skipað í flatsæng í stofunni og ég fékk að liggja einhver sumur undir bókaskápnum í herbergi Helgu og Önnu. Lífið var í föstum skorðum og dagarnir liðu í hægum takti með hóflegri blöndu af hollri áreynslu og bjástri við smíðar og leik, bækur af öllu tagi tiltækar og lesnar upp til agna; félagar mínir syðra voru t.d. ekki jafnvel skólaðir í Beverly Gray og Margit Ravn og ég varð eftir kynnin af bókakosti heimasætanna. Heimilisfólkið allt var eftirlátssamt og örlátt við aðkomudrenginn eins og öll önnur sumarbörn sem komu á undan mér og eftir; alltaf nægur tími til að spjalla, skýra og leiðbeina, miðla fróðleik um hvaðeina milli himins og jarðar.

Helga var kát og hláturmild, háttvís og óframgjörn eins og þau systkini öll en hafði ákveðnar skoðanir og lifandi áhuga á fólki og aðstæðum. Hamingja hennar var ekki síst einkasonurinn Þórhallur sem varð sólargeisli í lífi fjölskyldunnar allrar á Ormsstöðum.

Minningin um Helgu er skýr í björtu ljósi bernskunnar og ég er þakklátur fyrir vegarnestið sem vel dugði þótt samfundir hafi strjálast þegar árin liðu. Við Margrét Þóra sendum Þórhalli og fjölskyldu hans, Ásmundi og fjölskyldu hans og ættingjum öllum innilegar samúðarkveðjur. Megi bjartar minningar sefa sára sorg.

Örnólfur Thorsson.