Tímamót Sturlaugur Jón Björnsson hefur framleitt fyrsta óáfenga jólabjórinn og kallast hann Froðusleikir.
Tímamót Sturlaugur Jón Björnsson hefur framleitt fyrsta óáfenga jólabjórinn og kallast hann Froðusleikir. — Ljósmynd/Hari
Höskuldur Daði Magnússon hdm@mbl.is „Viðtökurnar hafa verið frábærar. Froðusleikir er þegar uppseldur hjá okkur og byrjaður að klárast í ákveðnum verslunum.

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

„Viðtökurnar hafa verið frábærar. Froðusleikir er þegar uppseldur hjá okkur og byrjaður að klárast í ákveðnum verslunum. Við erum að skoða hvort við náum ekki að framleiða meira fyrir hátíðirnar og vonum að allt smelli þar,“ segir Sturlaugur Jón Björnsson, bruggmeistari hjá Borg brugghúsi.

Það fer vart fram hjá viðskiptavinum matvöruverslana að úrval af áfengislausum bjór hefur aukist hratt að undanförnu. Nýjasta viðbótin er fyrsti íslenski óáfengi jólabjórinn. Hann kemur úr smiðju Borgar brugghúss og kallast Froðusleikir. Jólabjórar Borgar bera jafnan nöfn hinna séríslensku jólasveina og Froðusleikir ku vera einn þeirra – þótt hann hafi ekki verið jafn áberandi í seinni tíð og þeir allra þekktustu.

Sturlaugur segir í samtali við Morgunblaðið að hann og kollegar hans hafi lengi haft trú á því að nægur áhugi og markaður væri fyrir metnaðarfullum áfengislausum bjórum hér á landi. Af þeim sökum hafi Bríó verið kynntur til leiks síðsumars að undangenginni langri þróun. Sala á Bríó hafi farið fram úr björtustu vonum.

„Froðusleikir fylgir hér í kjölfarið og má segja að útgáfa hans hafi fjölþættan tilgang hjá okkur. Um er að ræða bjór í IPA-stíl, sem er einn allra vinsælasti bjórstíll handverksbjóraðdáenda um allan heim. Við vissum því að honum mundu mæta miklar gæðakröfur frá neytendum og því kannski um ákveðinn prófstein á þessa áfengislausu framleiðslu að ræða gagnvart okkar helstu fylgjendum. Þá fannst okkur augljóslega vanta áfengislausan valkost í annars frábært framboð af jólabjórum hérlendis. Og þar sem Froðusleikir er óhefðbundinn jólabjór, þannig séð, þá beinum við kastljósinu hér á utangarðsmenn í hópi utangarðsmanna – það er að segja þá fjölmörgu jólasveina sem eitt sinn voru partur af íslenskum jólasveinasögum en voru síðar skornir niður við samantekt Jóhannesar úr Kötlum við gerð jólasveinakvæðanna. Einhver þarf að minnast þeirra.“