Landsréttur Dómur héraðsdóms féll í marsmánuði á síðasta ári.
Landsréttur Dómur héraðsdóms féll í marsmánuði á síðasta ári. — Morgunblaðið/RAX
Landsréttur ómerkti í gær dóm Héraðsdóms Reykjavíkur frá því í mars í fyrra þar sem Isavia var sýknað af skaðabótakröfu Drífu ehf. en Drífa rekur meðal annars Icewear-verslanirnar.

Landsréttur ómerkti í gær dóm Héraðsdóms Reykjavíkur frá því í mars í fyrra þar sem Isavia var sýknað af skaðabótakröfu Drífu ehf. en Drífa rekur meðal annars Icewear-verslanirnar. Drífa krafðist þess að viðurkennd yrði skaðabótaábyrgð Isavia vegna tjóns sem fyrirtækið taldi sig hafa orðið fyrir vegna hagnaðarmissis sem leiddi af ákvörðun Isavia um að semja ekki við Drífu um verslunarrými í Flugstöð Leifs Eiríkssonar í kjölfar útboðs árið 2015.

Fram kom í ársreikningi Isavia árið 2018 að dómnefnd forvals taldi tilboð annars bjóðanda hagstæðara en tilboð Drífu ehf. Isavia taldi enn fremur að rétt hefði verið staðið að forvalinu.

Héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu að sýkna skyldi Isavia af kröfum Drífu og fyrirtækið þyrfti enn fremur að greiða Isavia 5,5 milljónir í málskostnað.

Í dómi Landsréttar var vísað til þess að í málinu reyndi meðal annars á það hvort matsnefnd hefði með málefnalegum hætti komist að þeirri niðurstöðu að tilboð Drífu hefði verið óraunhæft. Var talið að héraðsdómari hefði átt að kveðja til meðdómsmann með sérkunnáttu til að fjalla um smásöluverslun og gerð fjárhagsáætlunar.