Sveinn Björgvin Eysteinsson, bóndi á Þambárvöllum í Strandasýslu, fæddist 17. maí 1931. Hann lést á Heilbrigðisstofnun Vesturlands á Akranesi 8. nóvember 2020.

Hann var sonur hjónanna Eysteins Einarssonar bónda á Bræðrabrekku, f. 12. apríl 1904, d. 25. feb. 1991, og Kristínar Lilju Jóhannesdóttur, f. 26. ágúst 1900, d. 21. maí 1988. Systkini hans eru Jóhanna Margrét, f. 1925, látin, Bjarni Björnsson, f. 1926, látinn, Jón Bragi, f. 1928, látinn, Kristjana, f. 1929, látin, Steinunn, f. 1933, látin, Laufey, f. 1935, Einar Magnús, f. 1936, Fanney, f. 1939, og Trausti, f. 1943, látinn. Hálfsystkin samfeðra Jens Ólafur, f. 1945, Dofri, f. 1947, Gísli Sigursteinn, f. 1949, móðir þeirra var Jensína Björnsdóttir. Hrafnhildur, f. 1949, látin, og Hilmar, f. 1951, móðir þeirra var Katrín Sæmundsdóttir.

Eftirlifandi eiginkona Sveins er Sigrún Magnúsdóttir, f. 20. okt. 1941, dóttir Magnúsar Kristjánssonar, f. 18. júní 1905, d. 12. ágúst 2001, bónda á Þambárvöllum og konu hans Magðalenu Guðlaugsdóttur, f. 6. sept. 1902, d. 22. ágúst 1994.

Börn Sveins og Sigrúnar eru 1) Bryndís, f. 1962, gift Kristni Sigurðssyni, þau eiga 3 börn og 6 barnabörn, 2) Elsa Hrönn, f. 1965, hún á eina dóttur og 3 barnabörn, 3) Magnús, f. 1970, kvæntur Stefaníu Jónsdóttur, þau eiga 3 syni, 4) Birkir Þór, f. 1979.

Sveinn fæddist á Stóru-Hvalsá í Hrútafirði og þegar hann var tveggja ára fluttist fjölskyldan að Bræðrabrekku í Bitrufirði og ólst hann þar upp í stórum systkinahópi. Sveinn sótti farskóla í Bitrufirði og var síðan einn vetur á Héraðsskólanum að Reykjum í Hrútafirði.

Sveinn og bræður hans stunduðu búskap á Bræðrabrekku ásamt móður sinni. Ásamt því sótti hann ýmis störf meðfram bústörfum, svo sem ýtuvinnu og sótti vertíð í Vestmannaeyjum í tvo vetur. Árið 1962 flyst hann að Þambárvöllum þegar þau Sigrún hófu þar búskap í félagi við foreldra hennar. Hann var bóndi allt til ársins 2004 þegar Magnús, sonur þeirra, tekur við búinu. Meðfram búskapnum sinnti hann grenjavinnslu, vann í sláturhúsinu á Óspakseyri ásamt því að keyra flutningabíl hjá Kaupfélaginu.

Útför Sveins fer fram frá Hólmavíkurkirkju í dag, 14. nóvember 2020, kl. 13.

Elsku afi. Þá kom að því, ljós þitt slokknaði í síðasta sinn. Við munum ætíð minnast þín með þitt rólega fas og stóra og sterka faðm. Það var alltaf svo gott að koma í sveitina til ykkar ömmu og vorum við ekki háar í loftinu þegar við fórum að tala um sveitina sem okkar heimili enda voru öll skólafrí og sumarfrí nýtt hjá ykkur áður en vinnan fór að vera meira aðkallandi.

Þolinmæði þín fyrir börnum var alveg einstök og alltaf varstu til í að leyfa okkur að vera með í öllum útiverkum og fylgjast með þér. Það voru heilu heyskaparsumrin sem við fylgdum með í dráttarvélunum og skiptumst á að vera með þér og Magga.

Í þinni vél ómuðu harmonikkutónar á kasettunni og alltaf kunnir þú sögur um músíkkallana sem þú sagðir okkur, alveg óháð því hvort við vorum að hlusta eða ekki.

Aldrei var það heldur vandamálið þegar við komum skömmustulegar með stígvélin okkar og báðum þig um að gera við gatið sem komið var á og alltaf gastu skemmt þér yfir sögunum þegar við lýstum því hátíðlega hvernig gatið var tilkomið.

Við munum heldur aldrei gleyma hvað þú varst alltaf duglegur að minna okkur á að vera duglegar að gera mikið á föstudaginn langa, því það væri ekki mikið hægt að gera á laugardeginum stutta sem kæmi næsta dag á eftir.

Á seinni árunum þegar við fórum að koma heim með okkar fjölskyldur ljómaðir þú allur að fá að kjassa framan í dætur okkar og sýndi sig góðmennskan frá toppi til táar og yljaði það manni við hjartarætur. Við munum minnast þín með stolti í hjarta og verðum við ævinlega þakklátar fyrir allar þær stundir sem við áttum saman.

Alveg erum við vissar um að þú sért nú þegar búinn að finna Depil okkar og farinn á vit ævintýra með honum og ríðandi um á Smára gamla.

Þínar afastelpur,

Dagrún og

Sigrún Björg.