Leikararnir Razane Jammal og Ahmed Amin í hlutverkum sínum í egypsku þáttunum „Paranormal“.
Leikararnir Razane Jammal og Ahmed Amin í hlutverkum sínum í egypsku þáttunum „Paranormal“. — AFP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Kaíró.

Kaíró. AFP | Morðóðar múmíur, hryllingshús, bráðvel gerðar brellur og drungaleg tónlist setja mark sitt á nýja egypska þáttaröð, sem nefnist „Paranormal“ eða „Yfirskilvitlegt“ og efnisveitan Netflix veðjar á að muni slá í gegn um allan heim.

Þættirnir eru byggðir á metsölubókum eftir egypska rithöfundinn Ahmed Khaled Tawfik. Þættirnir urðu aðgengilegir á Netflix á níu tungumálum í um 190 löndum í liðinni viku.

„Í ljósi þess hvað aðdáendurnir eru margir var rökrétt fyrir okkur að vera með,“ sagði Ahmed Sharkawi, yfir maður arabísks og afrísks efnis hjá Netflix, í samtali við AFP og vísaði til vinsælda unglingabókanna. „Við erum spennt fyrir því að aðdáendurnir fái að sjá uppáhaldspersónurnar sínar, skrímsli og drauga, lifna við.“

En „Paranormal“, sem er fyrsta egypska verkefni Netflix, markar einnig tímamót í afþreyingariðnaðinum í Egyptalandi og víðar í arabaheiminum. Egyptaland hefur löngum verið atkvæðamikið í menningu í sínum heimshluta og árlega framleitt tugi kvikmynda auk grípandi sjónvarpsþátta, með bæði gríni og alvöru.

Rís hnignandi grein á ný?

Gullaldarárin voru frá fimmta til sjöunda áratugarins, en gagnrýnendur eru þeirrar hyggju að á undanförnum árum hafi Egyptum verið farið að förlast í kvikmyndagerð.

Margir binda vonir við að uppgangur þáttaraða á streymisveitum muni blása nýju lífi í greinina og koma egypskum leikurum á framfæri við stærri hóp áhorfenda.

„Við höfum tekið eftir því að sumir kvikmyndagerðarmenn eru farnir að sniðganga fjármögnunarleiðir á vegum ríkis og einkaaðila og leita beint til Netflix,“ sagði Marwan Kraidy, sérfræðingur um arabíska fjölmiðla og rektor Northwestern-háskóla í Katar.

„Paranormal“ er í sex þáttum og gerist á sjöunda áratugnum. Þar segir frá ævintýrum Refaats Ismails blóðfræðings, sem Ahmed Amin leikur. Hann lendir í ýmsum ofurnáttúrulegum ævintýrum og þarf að leysa handanheimaráðgátur ásamt sínum trausta aðstoðarmanni, skoska vísindamanninum Maggie Mackillop, sem bresk-líbanska leikkonan Razane Jammal leikur. Leiðir þeirra liggja vítt og breitt um Kaíró og allt inn í eyðimerkur Líbíu.

„Við vildum búa til gæðaefni án þess að glata egypskum anda efnisins,“ sagði Amr Salama, leikstjóri þáttanna. Hann hefur gert myndir á borð við „Sheikh Jackson“ og hafa þær verið fastir liðir á kvikmyndahátíðum.

Brúa bil austurs og vesturs

Myndin hefur fengið misjafnar viðtökur hjá Egyptum á félagsmiðlum. Sumir gera grín að brellunum, aðrir dásama leik Amins.

Amin gengur með gleraugu og liggur lágt rómur. Hann varð frægur í Egyptalandi fyrir grínatriði á netinu. Í samtali við AFP talaði hann af ákefð um að hann vildi koma Egyptalandi á kortið.

„Fyrir mig fylgir það að leika í „Paranormal“ áskorun um að koma egypskri leiklist á hið alþjóðlega svið,“ sagði hann. „Þetta er prófsteinn á það hvort við séum samkeppnishæf og getum höfðað til áhorfenda utan arabaheimsins.“

Jammal vonar að þættirnir verði til þess að áhorfendur um heim allan sjái efni þar sem farið er út fyrir stereótýpur Hollywood af arabískum persónum.

„Ég vona að sviðsljósið beinist nú að þeim hæfileikum, sem hér er að finna,“ sagði hún. „Ég vona að þetta veiti okkur tækifæri til að brúa bilið milli austurs og vesturs.“