[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Helgi Snær Sigurðsson helgisnaer@mbl.is Egill Sæbjörnsson, myndlistar- og tónlistarmaður, gaf nýverið út breiðskífuna Moonlove, eða Tunglást , og er sú poppplata en síðasta poppplata Egils, Egill S , kom út fyrir ellefu árum.

Helgi Snær Sigurðsson

helgisnaer@mbl.is

Egill Sæbjörnsson, myndlistar- og tónlistarmaður, gaf nýverið út breiðskífuna Moonlove, eða Tunglást , og er sú poppplata en síðasta poppplata Egils, Egill S , kom út fyrir ellefu árum. Egill bendir á að platan sem hann vann í samvinnu við tröllin Ugh og Boogar, fyrir uppsetningu sýningarinnar Out of Controll in Venice sem var framlag Egils á 57. myndlistartvíæringnum í Feneyjum árið 2017, sé í raun hálfgert popp og við leyfum því tröllunum að vera með.

Blaðamaður spyr Egil hvort hann sé alltaf að vinna að tónlist meðfram myndlistinni og segir hann svo vera. Á hann sér kannski draum um að verða poppstjarna? „Eee... kannski pínkulítinn en ekki beint eins og í gamla daga,“ svarar Egill. Í gamla daga hafi hann meira dreymt um að vera á MTV og fara í tónleikaferðir um heiminn í flugvélum.

–Þessi nýja plata er miklu líkari plötunni sem þú gafst út árið 2009, Egill S , en Tonk of the Lawn sem kom út fyrir tuttugu árum.

„Já, það getur verið, ég á erfitt með að staðsetja það,“ svarar Egill. Hann hafi unnið nýju plötuna að langmestu leyti sjálfur en J. Tyler Ludwig síðan fiktað í nokkrum lögum. „Hann pródúseraði plötuna svolítið til og kom með það mikið input í eitt lag, sem er fremst á plötunni, að það er hálfpródúserað af honum,“ segir Egill.

–Það er alltaf sami húmorinn í tónlistinni hjá þér, ekki satt?

„Jú eða einhver leikgleði. Það er húmor en það er bara eins og hvernig maður er, þetta er svo samvaxið manni. Líka í textagerðinni, af því þetta er svona bulltónlist og -tungumál, þá er húmor en ég get líka talað á dýpri nótum.“

Minni úr draumi

Á umslagi plötunnar er listaverk sem Egill vann í PhotoShop og sýnir íslensk fjöll og fjörð í bland við furðulegan turn úr leir og tívolí. Egill sést á gangi við turninn. „Myndin er minni úr draumi sem mig dreymdi þegar ég var um 17 ára, um að ég ætti eftir að fara frá Íslandi og ganga síðan alltaf bakdyramegin í gegnum skemmtigarð og sjá tækin aftan frá. Ég var að reyna að ná einhverjum náunga sem hét Emil sem þýðir „rival“ á ensku og svo gefst ég upp á því að reyna að ná honum, sný mér til hægri og geng inn í blómlegan dal þar sem er kyrrð og ró,“ útskýrir Egill.

Þegar plötuumslagið er opnað sést svo landslag frá Rio de Janeiro í Brasilíu en Egill bjó að hluta til í borginni í átta ár eða þar um bil.

–Það er margt skrítið á plötunni, hún er mjög skemmtileg en líka oft mjög skrítin. Það er betra að hlusta með heyrnartólum þannig að maður nái öllum hljóðunum og ég tek eftir því að þarna eru margir furðulegir hljóðbútar. Hvaðan koma þessi hljóð?

„Ég bjó til syntesæsera bæði úr hljóðum sem ég fann á netinu og hljóðum sem ég tók upp sjálfur. Ég spila það bara á syntann og svo eru sum hljóðin bara úr einhverjum hljóðbanka og þetta getur verið blanda af öllu mögulegu,“ svarar Egill. „Ég er bæði að búa til hljóð og setja inn í dýrsleg element sem skipta mig máli og mér finnst skemmtileg í tónlist. Svo eru líka tilbúin trommuhljóð og basic trommuhljóð og svo eru líka þarna samplaðar raddir sem voru í forriti sem ég er að vinna í.“

Fundu ræturnar í kraftgöllum

–Segðu mér aðeins frá laginu „Ísafjarðarmær“. Er þar líka draumur á ferð?

„Nei, það var samið þegar ég var með kærustunni minn á Ísafirði áramótin 2017 til ´18. Hún er frá Ísafirði og við vorum að labba um á Ísafirði í kraftgalla og vorum nakin inni í honum. Það er svo gaman að prófa hvað maður getur komist langt bara í kraftgalla,“ svarar Egill sposkur. „Ég er líka ættaður af Vestfjörðum og okkur fannst við vera að finna ræturnar í okkur þarna fyrir vestan, milli þessara háu fjalla.“

Og fleiri kærustur koma við sögu en sú frá Ísafirði því í textum má lika finna óuppgerðar tilfinningar til fyrrverandi kærustu Egils sem er frá Rio de Janeiro. Þau lög voru samin á árunum 2017 og 2018.

Egill segist mikið syngja um ástina á plötunni, enda sé hún flókið fyrirbæri, bæði gagnvart öðrum og manni sjálfum. „Hin hliðin á ástinni er einhvers konar hatur, hatur út í aðra og hatur út í mann sjálfan,“ segir Egill og að fátt sé áþreifanlegt þegar komi að ástinni og hatrinu. „Hvort maður þurfi að elska sjálfan sig til að geta elskað aðra, hvað þetta er, ástin flýtur einhvern veginn á milli fyrstu, annarrar og þriðju persónu.“ Titill plötunnar er einnig vísun í ást og tilfinningar, Moonlove , sem Egill segir melankólíska og týnda ást.

Plata ekki plata nema hún sé komin út á vínyl

Egill er spurður að því hvort miklu skipti fyrir hann að gefa plötuna út á vínyl og segir hann svo vera. „Mér finnst einhvern veginn að plata sé ekki plata nema hún sé komin út á vínyl,“ segir hann, „hún þarf að vera til sem hlutur þótt margir kaupi hana digital. Ég hef alltaf dýrkað þessa mynd framan á plötu, mér hefur alltaf fundist hún vera hliðið inn í heim plötunnar eða hún var það alla vega í gamla daga. Ég er líka að láta prenta Tonk of the Lawn í nokkrum eintökum sem ég ætla að bjóða upp á fyrir lok þessa árs því hún kom út árið 2000. Ég er að láta prenta tuttugu eintök sem verða árituð, speseintök á vínyl en hún hefur aldrei komið út á vínyl. Í lok nóvember verður hún tilbúin,“ segir Egill og að platan komi svo út í 500 eintökum sem verði gefin út. Egill segir að líklega verði platan til sölu á Bandcamp-síðunni hans.

Egill býr ýmist í Berlín eða á Íslandi og segist vera að undirbúa nokkrar sýningar og verkefni. Hann segir þó hafa hægst á öllu út af kófinu og mörgu frestað fram á næsta ár. Þeir sem vilja fræðast frekar um Egil og hans listsköpun geta gert það á vefsíðu hans, egills.de.