[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ég hef alla tíð verið forfallinn bókanörd og reyni því að lesa eins mikið og ég mögulega get. Lestrarmarkmiðið mitt fyrir 2020, eins og síðustu ár, var að lesa a.m.k. 100 bækur og náði ég því um daginn.

Ég hef alla tíð verið forfallinn bókanörd og reyni því að lesa eins mikið og ég mögulega get. Lestrarmarkmiðið mitt fyrir 2020, eins og síðustu ár, var að lesa a.m.k. 100 bækur og náði ég því um daginn. Hérna eru nokkrar af áhugaverðustu bókunum sem ég hef lesið undanfarið.

Ég byrjaði nýlega að hlusta á hljóðbækur og er eiginlega í sjokki að ég hafi ekki byrjað á því fyrr enda er það alveg æðislegt að geta lesið á meðan maður gerir hversdagslega hluti eins og að elda eða brjóta saman þvott. Ein fyrsta hljóðbókin sem ég hlustaði á er sjálfsævisaga Bruce Springsteen Born to Run lesin af sjálfum stjóranum. Ég hef alltaf verið mikill Springsteen-maður og hef séð hann tvisvar á tónleikum og þessi bók er algjör skyldulesning fyrir alla Springsteen-aðdáendur. Stjórinn er bæði fyrsta flokks sögumaður og frábær stílisti og hann lýsir ævi sinni á hátt sem rímar fullkomlega við tónlistina hans með hreinskilnum lýsingum á daglegu striti fólks, meðvitund fyrir þeim pólitísku öflum sem móta samtímann og óþrjótandi von gagnvart mannkyninu.

Greinasafnið Trick Mirror eftir blaðamanninn Jia Tolentino er önnur hljóðbók sem ég er að hlusta á. Gegnumgangandi þemu í bókinni eru sjálfið á tímum internetsins, neysluvæðing femínismans og samfélagsstaða ungs fólks á tímum síðkapítalisma. Í einni af fyndnustu og áhrifamestu greinum bókarinnar, „The Story of a Generation in Seven Scams“, fjallar Tolentino um heimsmynd þúsaldarkynslóðarinnar (sem bæði ég og hún tilheyrum) í gegnum sjö mismunandi svindl, allt frá hinu mislukkaða Fyre Festival yfir í kosningu Donalds Trumps.

The Midnight Library eftir Matt Haig er ein besta skáldsagan sem ég hef lesið í ár. Bókin fjallar um Noru Seed, 35 ára konu sem er með nagandi eftirsjá gagnvart nánast öllu sem hún hefur eða hefur ekki gert í lífinu. Nora fær tækifæri til að takast á við þessa eftirsjá þegar hún rankar við sér í miðnæturbókasafninu í eins konar millibilsástandi á milli lífs og dauða þar sem bækurnar tákna endalausar mismunandi útgáfur af lífi hennar sem hefðu getað orðið.

Að lokum langar mig að nefna uppáhaldsljóðabókina mína í ár, 1900 og eitthvað eftir Ragnheiði Lárusdóttur sem nýlega hlaut bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar. Ég er vissulega ekki hlutlaus hvað hana varðar enda er höfundurinn mamma mín og það gladdi mig einstaklega mikið að sjá hana fá þessi verðlaun fyrir sína fyrstu ljóðabók. Í bókinni fjallar Ragnheiður um æsku sína sem prestsdóttir á Vestfjörðum á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar, í heimi sem er kunnuglegur mörgum af eldri kynslóðum en mjög framandi fólki á mínum aldri og yngri.