„Ég er mjög ofvirk. Ég fæ svo ofboðslega margar hugmyndir og lífið er svo stutt að ég verð að láta þær verða að veruleika,“ segir María Björk Ingvadóttir, framkvæmdastjóri N4.
„Ég er mjög ofvirk. Ég fæ svo ofboðslega margar hugmyndir og lífið er svo stutt að ég verð að láta þær verða að veruleika,“ segir María Björk Ingvadóttir, framkvæmdastjóri N4. — Morgunblaðið/Ásdís
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
María Björk Ingvadóttir hefur komið víða við á lífsleiðinni og nýtir hverja reynslu í næstu lífsins þrautir. Hún er félagsráðgjafi að mennt, rak um skeið kaffihús en hefur nú starfað í fjölmiðlum í yfir þrjátíu ár.

María Björk Ingvadóttir hefur komið víða við á lífsleiðinni og nýtir hverja reynslu í næstu lífsins þrautir. Hún er félagsráðgjafi að mennt, rak um skeið kaffihús en hefur nú starfað í fjölmiðlum í yfir þrjátíu ár. Í dag rekur hún sjónvarpsstöðina N4 af röggsemi og alúð. Ásdís Ásgeirsdóttir asdis@mbl.is

María Björk tekur glaðlega á móti blaðamanni og býður inn á skrifstofu í höfuðstöðvum N4 á Akureyri. Blaðamanni verður fljótt ljóst að hér er á ferð orkumikil kona, vinnusöm, jákvæð, hress og brosmild. Hún brennur fyrir starfi sínu og hefur tekist að snúa við afleitri stöðu fyrirtækisins með erfiðum ákvörðunum, elju og dugnaði. María segir N4 alls ekki vera litla Akureyrarstöð, heldur eigi að þjóna fólki um land allt. Yfir kaffinu ræðum við lífið og tilveruna, og hvernig örlögin og lukkan leiddu hana á þennan stað.

Sex syngjandi systur

María Björk er sextug, fædd á Akureyri, ein átta systkina. Systurnar komu fyrst sex í röð og drengirnir tveir ráku svo lestina. Foreldrar Maríu eru Sólveig Jónsdóttir, sem nú er látin, og Ingvi Rafn Jóhannsson rafvirkjameistari, nú níræður að aldri.

„Pabbi vann meðal annars við að rafvæða sveitirnar og rak svo verslunina Raftækni þegar ég var að alast upp. Ég hugsa að ég gæti enn sagt þér hvað Ignis-kæliskápar eru stórir því ég var bara tíu ára þegar ég var sett á bak við búðarborðið. Mamma var heimavinnandi og sinnti hópnum mjög vel, en hún er Vestfirðingur og ég því hálfur Vestfirðingur. Ég er lánsöm að hafa fengið líka vestfirsku genin; þrjósku og seiglu,“ segir hún og brosir.

„Ég ólst upp í mjög líflegri og skemmtilegri fjölskyldu þar sem var mikil tónlist. Ég var ekki gömul þegar ég kom fyrst fram en við systur vorum gjarnan fengnar til að syngja,“ segir hún og segir þær hafa oftar en ekki stillt sér upp eftir hæð, í tröppugangi.

„Við vorum sex syngjandi systur, eins og í Von Trapp-fjölskyldunni,“ segir María og hlær dátt.

„Ég er í miðjunni og þurfti snemma að læra að eiga við eldri og yngri hópinn. Ég lærði mjög fljótt að standa á eigin fótum og þurfti að hafa fyrir hlutunum.“

Ástfangin upp í rjáfur

Sextán ára ákvað María Björk að hún skyldi verða félagsráðgjafi.

„Ég stóð við það, en það var ekki hægt að læra það á Íslandi. Eftir stúdentspróf komst ég inn í nám í Noregi en stuttu áður en ég átti að fara bankaði ástin upp á. Var það ekki dæmigert!“ segir María og hlær.

Sá heppni var Ómar Bragi Stefánsson, eiginmaður Maríu.

„Ég var ástfangin upp í rjáfur og sá ekkert nema þennan mann, en hann var þá íþróttakennari á Sauðárkróki. Ég hafði lært á ýmis hljóðfæri þannig að ég stakk upp á við hann að ég kæmi að kenna tónlist á Sauðárkróki. Mér fannst tilvalið að vinna með börnum; ég yrði þá örugglega betri félagsráðgjafi. Og það var laust starf fyrir tónmenntakennara og dönskukennara. Ég var þá rétt um tvítugt og var hent fyrir framan allan fyrsta til sjötta bekk,“ segir hún og brosir.

„Þarna var ég með honum Ómari mínum í eitt ár en reif hann síðan úr rótunum í Skagafirði og við fórum saman til Oslóar þar sem ég fór í námið,“ segir hún og segir Ómar hafa sjálfan endað í námi og seinna í skapandi vinnu hjá IKEA.

Það fór vel um unga parið í Osló og þar fæddist þeim fyrsta barnið, Stefán Arnar. Katrín, yngri systir Maríu, bauðst til að koma út og hjálpa til því námið var langt og strangt.

„Ég fór svo að vinna að barnaverndarmálum að loknu náminu og mér var sannarlega kastað í djúpu laugina. Ég upplifði eitt og annað sem ég vissi ekki að væri til,“ segir María Björk.

Litla fjölskyldan bjó í Noregi í tæp fimm ár og var ekkert á leiðinni heim þegar atvinnutilboð breytti plönunum.

„Þá var verið að opna IKEA á Íslandi og Ómari bauðst að vera með í því, þannig að hann dró mig heim. Við eignuðumst svo annan dreng ári eftir heimkomuna, Ingva Hrannar, en dóttir okkar Ásthildur kom ekki fyrr en fjórtán árum síðar, árið 2000. Ég fór að vinna við félagsráðgjöf í Reykjavík og endaði sem yfirfélagsráðgjafi á Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins,“ segir María Björk.

„Ég er fædd undir rosalegri lukkustjörnu. Ég þakka fyrir það, það er ekki sjálfgefið. Og það er alls ekki sjálfgefið að vera gift sama manninum í fjörutíu ár. Við erum eins og tvö stór og sterk tré sem standa hlið við hlið og styðjum hvort annað.“

Hamstur á hjóli

Á Íslandi byrjaði baslið, en seint á níunda áratugnum vann María á þremur stöðum til að ná endum saman. Hjónin voru að byggja og verðbólga gerði þeim erfitt fyrir.

„Það dugði ekki til að vera í tveimur vinnum; ég var þarna yfirfélagsráðgjafi og skúraði sautján skrifstofur, klósett og stigaganga eftir að dagvinnu lauk, en þarna átti ég tvö lítil börn. Ég heyrði þá auglýst eftir þulu í sjónvarpinu, sæki um ásamt níutíu öðrum og fæ vinnuna. Það gerði dagana stundum svolítið langa, því þá var ég í þremur vinnum. Þetta var eins og að vera hamstur á hjóli,“ segir hún.

„Við vorum að drukkna og áttum í raun enga útgönguleið. Við náðum að flytja inn í húsið rúmlega fokhelt, eins og fólk gerði. Svo einn daginn horfðumst við í augu og sögðum: þetta er ekkert líf, svona ætluðum við ekki að hafa þetta. Við áttum tvo yndislega drengi og sáum aldrei hvort annað. Það er oft þannig að þegar maður kallar út í kosmósið eftir hjálp, þá kemur hún. Það leið ekki á löngu þar til það var hringt frá Skagfirðingabúð og Ómari boðin vinna sem verslunastjóri, en þeir sáu hvað hann hafði gert góða hluti í IKEA. Hann kom með nýja hugsun inn í hvernig verslun á að vera og þeir stukku á þetta. Á þeim tíma var ég komin inn á fréttastofuna hjá RÚV og ég held því fram að ég sé ein af þeim fyrstu sem voru í starfi án staðsetningar, en þetta var árið 1989, fyrir rúmum þrjátíu árum.“

Að koma spólum í bæinn

Fjölskyldan pakkaði því saman og flutti í heimabæ Ómars, Sauðárkrók.

„Við stukkum úr þessu brjálæði yfir í að geta verið fjölskylda. Ég hélt áfram að fara suður því ég var enn þula og ýmist keyrði eða flaug, en þá var hægt að fljúga frá Sauðárkróki. Það var unnið í skorpum; þannig vann ég nokkra daga í röð, og svo var ég líka að vinna sem fréttaritari RÚV á Norðurlandi vestra,“ segir hún.

„Ég er alin upp sem fréttamaður á RÚV og er heppin og þakklát að hafa fengið þá skólun en er líka þakklát fyrir að hafa haft grunn í félagsráðgjafanum því í þeirri vinnu lærir maður að hafa svo mikla yfirsýn; horfa á heildarmyndina og vinna sig inn að kjarnanum. Að finna styrkleikana og efla veikleikana,“ segir hún og segist ávallt búa að þessari reynslu.

„Á þessum tíma var ég bæði í útvarpinu og sjónvarpinu, en þar á milli var hörkusamkeppni! Ég þurfti oft að ákveða hvaða frétt ætti heima í útvarpi og hvað í sjónvarpi. Ég lenti í öllu mögulegu sem fréttamaður á svona litlu svæði,“ segir hún en starfinu gegndi hún þar til 2004, þegar öllum fréttariturum RÚV var sagt upp á einu bretti.

Lentir þú í einhverjum ævintýrum; eða klúðri?

„Já, já, margs konar klúðri,“ segir hún og hlær.

María segir starfið hafa verið afar skemmtilegt en oft og tíðum líka erfitt þar sem hún hafi stundum þurft að segja fréttir sem komu illa við heimafólk. Og svo var tæknin ekki mjög þróuð á þessum tíma og ekkert net til að auðvelda henni að senda efni suður.

„Á þessum tíma þurftum við alltaf að finna far í bæinn fyrir spólurnar þegar við vorum að taka sjónvarpsfréttir. Það var oft ansi mikill kappakstur að keyra í veg fyrir einhvern sem var að fara í bæinn. Ég stóð ósjaldan á gatnamótunum í Varmahlíð með puttann úti, biðjandi Pétur og Pál að taka fyrir mig spólu og fara með upp á Laugaveg,“ segir hún og brosir.

Ég er mjög ofvirk

Þrátt fyrir annríki leiddist Maríu stundum á Sauðárkróki og fékk hún þá hugmynd; að opna kaffihús.

„Ég spurði Ómar hvort hann væri til í þetta með mér ef ég fengi að leigja elsta húsið í bænum og hann var til. Það gekk eftir og við opnuðum Kaffi Krók árið 1994. Ég setti mér það markmið að hafa þar nóg af tónlist, fræðslu, fyrirlestra og gott kaffi. Og eitt sem var ekki þekkt þá; mat úr héraði. Á þessum árum var aðallega hægt að kaupa sér hamborgara, en ég fór að velta fyrir mér hvað væri framleitt á svæðinu. Þarna var öflug kjötvinnsla og ég bað þá að þróa með mér tvíreykt hangikjöt til dæmis. Þarna er líka rækjuvinnsla, bleikjueldi og gott bakarí. Þetta var full vinna; að reka staðinn, vinna þar og búa til mat þegar þess þurfti,“ segir María, en á þessum árum var hún enn að vinna hjá RÚV.

„Ég er mjög ofvirk. Ég fæ svo ofboðslega margar hugmyndir og lífið er svo stutt að ég verð að láta þær verða að veruleika.“

Á stærð við tennisbolta

Árið 2013 var Maríu Björk boðin vinna á N4 á Akureyri en í millitíðinni hafði hún verið frístundastjóri í Skagafirði; starfi sem hún gegndi í tólf ár.

„Alls staðar þar sem ég get fengið að skapa, þar líður mér vel. Svo var mér boðið að sjá um Að norðan-þáttinn á N4. Það þýddi að ég fór að vinna hér á Akureyri, áfram búsett á Sauðárkróki. Ég keyrði þrjá til fimm daga á milli í fjögur ár. Þetta eru 120 kílómetrar, aðra leið, og yfir Öxnadalsheiðina,“ segir hún.

„Ásthildur mín var bara unglingur þannig að ég vildi geta verið heima á kvöldin með fjölskyldunni. Svo vatt þetta upp á sig og á endanum var ég beðin, ásamt Hildu Jönu Gísladóttur, að taka við hér og stýra N4,“ segir María en hún er í dag ein framkvæmdastjóri.

„En þegar ég er nýlega tekin við starfinu fer ég að finna fyrir óþægindum; átti erfitt með að anda og kyngja. Ég leitaði til lækna en það sást ekkert á röntgenmynd svo ég sótti það stíft að fá að fara í segulómun til Akureyrar. Daginn sem ég fór sagði ég við manninn minn og dóttur að ég yrði komin heim um hádegið. Það hádegi kom rúmum mánuði seinna.“

Læknar sögðu henni strax að á myndinni hefði sést einhvers konar æxli í brjóstholinu.

„Þeir sögðust sjá fyrirferð á stærð við tennisbolta sem lægi út úr öðru lunganu og yfir vélinda og hjarta. Þeir skildu vel að ég ætti bæði erfitt með að kyngja og anda. Ég var sett upp í sjúkraflugvél strax og flogið með mig suður. Ég var þar með orðin að sjúklingi. Ég fór í alls kyns rannsóknir og það kom í ljós að þetta var svokölluð „cysta“ en ekki krabbamein. En ég þurfti að bíða í tvo daga eftir niðurstöðunni. Sá tími var rosalegur. Læknarnir voru í kapp við tímann að ákveða hvernig þeir myndu ná þessu, en ég endaði á að fara í mjög stóra og mikla aðgerð. Ég var átta eða níu tíma á skurðarborðinu hjá öllum þessum englum,“ segir hún og á við færu læknana.

Lifðu í núinu

„Þeir náðu þessu og ég jafnaði mig smátt og smátt. Aðgerðin var 5. nóvember og ég var farin að vinna í gegnum síma og tölvu í janúar. Ég fór allt of snemma af stað, en það var allt í hers höndum á N4. Við rerum algjöran lífróður,“ segir hún.

María viðurkennir að veikindin hafi verið erfið lífsreynsla.

„Manni er kippt út úr öllu og það ríkti mikil óvissa og óöryggi. Ég átti á þessum tíma fimmtán ára dóttur og var nýbúin að eignast barnabarn númer tvö. Ég get svo vel sett mig í spor þeirra sem horfast í augu við dauðann eða við það sem ekki er hægt að stjórna. Mér hafði fundist ég fram að þessu alltaf þakklát fyrir allt en þetta kenndi mér enn betur að kunna að meta allt. Ég veit þetta hljómar eins og klisja en þetta er ekki klisja fyrir mér. Þetta breytti mér og nú hugsa ég: lifðu í núinu, gerðu það sem þig langar að gera og vertu bara góð manneskja. Hvorki peningar né dauðir hlutir hafa skipt mig máli. Ef við Ómar eigum einhvern afgang notum við það til að ferðast með börnunum okkar.“

Fór í mörg hlutverk

María er nú hætt að keyra á milli daglega og dvelur á Akureyri á virkum dögum.

„Þar sem ég vinn of oft fjórtán til sextán tíma á dag hef ég ekki úthald til að keyra heim á Sauðárkrók eftir vinnu,“ segir María og viðurkennir að hún hafi þurft að vinna allt of mikið.

„Fjölmiðlarekstur er flókinn og oft ófyrirsjáanlegur. Við Hilda Jana höfðum í tvö ár leitað leiða til að efla N4, sem tókst nokkuð vel, en þar kom að það þyrfti að endurskoða allan reksturinn, fækka föstum starfsmönnum og fara í nýja vegferð og í lok árs 2017 var okkur í raun settur stóllinn fyrir dyrnar af eigendum. Ég tók þá við sem framkvæmdastjóri og Hilda sneri sér að pólitík. Þetta var ekki auðveldur tími. Ég byrjaði í raun upp á nýtt með stöðina 2018 og tókst okkur að snúa miklu tapi við, sem var rosalega flókið. Ákveðið var að fara í sókn og fara ekki með neina þætti í loftið nema eiga fyrir þeim. Við erum einkarekin stöð án nokkurra ríkisstyrkja og í þeirri aðstöðu að vera langt frá auglýsingamarkaði, að berjast við það orðspor að við séum bara lítil og krúttleg Akureyrarstöð. Ég vildi gera N4 að landsbyggðastöð og skapa okkur þá sérstöðu að reyna ekki að vera alls staðar, heldur að hitta fólk þar sem það á heima úti á landsbyggðunum. Við höfum verið að eflast víða um land. Ég réð fólk með sérþekkingu í markaðssetningu og einnig fór ég að ráða fólk inn sem verktaka. Ég reyndi að sýna fram á hvar styrkleikar okkar væru og efla þá og horfa langt fram á veginn. Ég vissi að ég væri engin galdrakerling sem gæti gert þetta einn, tveir og þrír,“ segir María og nefnir að kórónuveiran hafi vissulega sett strik í reikninginn í ár.

„En þrátt fyrir að mjög mörg verkefni dyttu út vegna Covid komu önnur í staðinn. Ég segi oft að við göldrum þetta til okkar. Ég nýti það að Galdra-Finnur var langalangafi minn,“ segir María og hlær.

Ætla á núllið

Hvernig er áhorfið og hverjir horfa helst?

„Mesta áhorfið er hjá 35 ára og eldri í Reykjavík. Við fórum að sjá raunhæfar áhorfstölur í september 2018 þegar við fórum í öflugt samstarf við Símann um tímaflakkið. Við ákváðum líka að frumsýna alla þætti á facebook og nýta okkur styrkleika þess miðils. Ég áttaði mig fljótt á að framtíðin er ekki í línulegri dagskrá. Ég bjó til slagorðið: N4, þar sem þú vilt, þegar þú vilt. Við bjuggum til margar veitur svo við fyndum fólk úti um allt. Í september 2018 horfðu 30 þúsund manns, bara í tímaflakki Símans, en síðustu tölur, frá september 2020, sýna að áhorfendur eru komnir í um 80 þúsund. Ég fór strax út úr Gallup-mælingum og gef ekkert fyrir þær. Ég vil ekki vera með hroka, en þeir mæla víðs vegar um Ísland hvað fólk er að horfa á á tilteknum tíma, en ekki uppsafnað áhorf. Því áhorfið hefur breyst svo mikið. Við sáum að áhorfið rauk upp í apríl í Covid af því fólk þráir að fá íslenskt efni,“ segir María og segist reka stöðina með auglýsingatekjum.

„Það er algjört kraftaverk. Svo fengum við eins og aðrir fjölmiðlar Covid-styrk núna sem kom fyrsta september, vegna samdráttar í auglýsingatekjum en einnig vegna samdráttar í verkefnum. Í ár misstum við okkar aðalverkefni, sem eru Fiskidagstónleikar. Ég er ekki með neina vasa til að fara í. Ég þarf að reka þetta fyrirtæki á núlli og stefni að því á þessu ári. Ég ætla á núll!“ segir María Björk ákveðin.

Er rosalega sparsöm

María segist oft hafa þurft að setjast niður og ákveða framhaldið.

„Við fórum mest að rýna í framtíðina. Ég spurði mig spurninga eins og: Hvernig vil ég ná í efni og hvaða efni vil ég ná í? Hvernig get ég eflt íslenska þáttargerð?“

María nefnir að á síðasta ári hafi N4 framleitt 398 þætti.

„Það er brjálæðislega mikið og ég hugsa að við rétt sleikjum 400 í ár,“ segir hún en tíu manns eru í fullri vinnu í dag hjá N4 auk nokkurra verktaka.

„Ég er alveg rosalega sparsöm og við nýtum hvern klukkutíma ofboðslega vel,“ segir María og segir þau ekki beinlínis vera í samkeppni við aðrar sjónvarpsstöðvar.

„En sannarlega í auglýsingum af því það er svo erfitt að má af okkur þann stimpil að við séum einhver Akureyrarstöð. Við gætum verið hvar sem er á landinu og tökum efni alls staðar að. Við erum með verktaka á Vesturlandi og einnig tökufólk fyrir austan. Mig dreymir svolítið um að taka aftur upp „fréttaritarakerfi“ eins og var lagt af hjá RÚV árið 2004, vegna þess að fólk sem er að segja fréttir úr sinni heimabyggð með sínum gleraugum segir þær öðruvísi. Mesti vöxtur í fjölmiðlun í heiminum er einmitt frá svona svæðismiðlum. Við þráum að heyra sögur og við viljum heyra góðar sögur. Og þá er okkur alveg sama hvort þær koma frá Serbíu eða Svarfaðardal. Það er kannski leiðarljósið mitt; segjum góðar sögur, tölum við venjulegt fólk og sýnum breiddina í lífinu hvar sem er á Íslandi. Ég er ekki enn farin á Reykjavíkurmarkað, en kannski förum við þangað.

Að fylgja innsæinu

Það er margt fólk sem kýs að búa annars staðar en í stórborg og ég brenn fyrir að litið sé á það sem í lagi. Ég held reyndar að það sé að komast í tísku aftur, þökk sé Covid, að vera í miklu meiri tengslum við náttúruna og komast þangað sem hægt er að anda í rólegheitum. Ég held að við setjum annað verðmat á lífið en áður,“ segir María og nefnir annað sem hún telur hafa breyst til batnaðar vegna kórónuveirunnar.

„Við erum að tala saman á jafningjagrunni á fundum hvar sem við erum. Nú eru allir jafn fastir og auðveldara að hittast á netfundum og leysa málin. Þetta opnar alveg nýjar víddir.“

Finnst þér gott að búa á Sauðárkróki?

„Já, mér finnst gott að vera þar í náttúrunni og mér finnst gott að vera á Akureyri. Það hentar mér að vera á báðum stöðum. Svo er ég mikil flökkukind. Elsti sonur okkar og fjölskylda hans búa í Svíþjóð og við förum oft þangað í frí,“ segir María.

Hún virðist þó eyða mestum tíma þessa dagana í vinnunni.

„Ég brenn fyrir þessu starfi, það er svo áhugavert!“ segir María en meðfram því að stýra stöðinni er hún sjálf í þáttagerð.

„Við erum fá, en ég er með mjög flott og skapandi fólk hér með mér; þetta gerir enginn einn,“ segir hún og segist aldrei verða uppiskroppa með hugmyndir.

„Ég vissi alveg í sumar að við myndum fara inn í fleiri bylgjur faraldursins og datt þá í hug að setja í loftið ferðaþætti. Við þurfum að fá að ferðast í huganum, skapa gott afþreyingarefni og hvetja fólk til dáða,“ segir hún.

„Þegar ég hætti að streitast á móti innsæinu og fór að hlusta á innri röddina, þá fór að ganga vel. Við eigum alltaf að hlusta á innri röddina.“