Jón Skagfjörð Stefánsson fæddist á Gauksstöðum á Skaga 7. júní 1931. Hann andaðist á HSN Sauðárkróki þann 31. október 2020.

Foreldrar hans voru Stefán Pétur Jónsson, f. 18. febrúar 1888, d. 17. apríl 1951 og Stefanía Elísabet Sigurfinnsdóttir, f. 5. ágúst 1901, d. 18. febrúar 1970. Bróðir Jóns var Eiður Reykjalín Stefánsson, f. 24. júní 1926, d. 8. ágúst 2016, eiginkona hans var Helga Jónsdóttir, f. 9. febrúar 1932, d. 27. desember 2018.

Eiginkona Jóns var Eiðný Hilma Ólafsdóttir, f. 5. júlí 1936. d. 17. nóvember 2017, þau gengu í hjónaband 14. september 1958. Börn þeirra eru: 1) Stefán Pétur, f. 30. ágúst 1958, hans kona er Ólöf Svandís Árnadóttir, dætur þeirra eru: Gígja Hrund, Klara Björk, Halla Mjöll og Edda Borg. 2) Eiður, f. 5. nóvember 1961,d. 20.júní 2016, kvæntur Huldu Rúnarsdóttur, börn: Hilma og Jón Ólafur, stjúpbörn: Kolbrún, Þórunn, Rúnar, Sigurður og Friðrik. 3) Sveinfríður Ágústa, f. 8. júlí 1965, eiginmaður, Jóhannes Jóhannesson, synir: Máni Jón og Ingi Sveinn. Langafabörnin eru sjö stúlkur.

Jón ólst upp á Gauksstöðum og fór snemma að taka þátt í bústörfunum eins og títt var í þá daga, hann gekk í farskóla sveitarinnar og seinna í Gagnfræðaskólann á Sauðárkróki. Jón var tæplega 20 ára er faðir hans lést og hann tók við búreksti á Gauksstöðum ásamt Eiði bróður sínum og Stefaníu móður þeirra. Þar með hófst hann handa við að byggja upp á jörðinni, bæði húsakost rækta tún. Honum var í blóð borið að vera bóndi og bar djúpa virðingu fyrir náttúrunni og landinu, árangur af hans langa ævistarfi, dugnaði, nýtni og útsjónarsemi blasir við á Gauksstöðum. Eiður bróðir hans fluttist til Akureyrar 1974. Er Eiður sonur hans komst til fullorðinsára voru þeir feðgar saman í búskapnun til 1988.

Jón tók þátt í ýmsum trúnaðarstörfum á vegum Skefilsstaðahrepps, sat í hreppsnefnd um árabil, sýslunefnd, byggingarnefnd o.fl. einnig var hann hreppstjóri 1974-1998. Kirkjan í Hvammi í Laxárdal var hans sóknarkirkja og var hann formaður sóknarnefndar og meðhjálpari frá 1976 þar til hann vegna heilsubrests fór á Dvalarheimilið á Sauðárkróki 2017.

Útför Jóns verður gerð frá Sauðárkrókskirkju í dag, 14. nóvember 2020, kl 14. Streymt verður frá athöfninni á

https://tinyurl.com/y5u47qe2

Virkan hlekk á slóð má nálgast á: httpw://www.mbl.is/andlat

Til pabba.

Englar Guðs þér yfir vaki og verndi pabbi minn

vegir okkar skiljast núna, við sjáumst ekki um sinn.

En minning þín hún lifir í hjörtum okkar hér

því hamingjuna áttum við með þér.

Þökkum kærleika og elsku, þökkum virðingu og trú

þökkum allt sem af þér gafstu, okkar ástir áttir þú.

Því viðmót þitt svo glaðlegt var og góðleg var þín lund

og gaman var að koma á þinn fund.

Með englum Guðs nú leikur þú og lítur okkar til

nú laus úr viðjum þjáninga, að fara það ég skil.

Og þegar geislar sólar um gluggann skína inn

þá gleður okkur minning þín, elsku pabbi minn.

Vertu góðum Guði falinn er hverfur þú á braut

gleði og gæfa okkur fylgdi með þig sem förunaut.

Og ferðirnar sem fórum við um landið út og inn

er fjársjóðurinn okkar pabbi minn.

(Guðrún Sigurbjörnsdóttir)

Takk fyrir alla ástina,

hvíl þú í friði, elsku pabbi.

Börnin þín,

Stefán og Sveinfríður.

Elsku afi Nonni.

Nú kveðjum við þig í hinsta sinn. Þegar við hugsum til þín rifjast upp margar góðar minningar, ófáar í sveitinni hjá þér og elsku ömmu Diddu. Okkur fannst alltaf svo gaman að koma á Gauksstaði, þar máttum við leika okkur endalaust og við fundum okkur alltaf nóg að gera. Við dáðumst alltaf að því hvernig þú þekktir allar rollurnar með bæði nafni og númeri og hvað þú elskaðir öll dýrin þín mikið. Þú varst svo mikill dýrakall, þið Kátur voruð mestu mátar og þú varst í miklu uppáhaldi hjá Tásu. Það var alltaf jafn skemmtilegt að sjá hana hjúfra sig undir kuldagallanum þínum í gömlu, eða öllu heldur elstu, Ferguson-vélinni á bænum, sem er einmitt jafngömul pabba. Stundum raulaðir þú lítið lag á meðan þú sinntir verkunum, svo yndislega friðsæll og rólegur.

Það varð snemma venja að við tókum þátt í því að gefa þegar við komum í sveitina. Þú leiðbeindir okkur vandlega og varst svo þolinmóður.

Síðar meir áttuðum við okkur á við gerðum líklegast lítið annað en að tefja gjöfina en minningarnar eru dýrmætar. Þú varst alltaf jafn glaður og blíður og talaðir um hvað það væri mikill munur að hafa svona alvöruvinnukonur. Enn í dag finnst okkur ómissandi hluti af sveitaheimsóknum að gefa kindunum.

Alltaf þegar við hittum þig gafstu okkur hlýtt og gott faðmlag og straukst okkur þétt um bakið. Stríðnisglottið var aldrei langt undan og þú gast alltaf sagt okkur eitthvað sniðugt, eða bara spjallað um daginn og veginn. Þú varst alltaf svo góður, með nærveru fulla af ást og umhyggju. Þegar þú varst orðinn eldri og kominn inn á sjúkrahúsið á Króknum varst þú enn sami yndislegi karakterinn, rólegur og ríkur af alúð þótt minnið hafi verið farið að stríða þér. Þú vildir helst halda í höndina á okkur frá því við komum og þangað til við fórum og hrósaðir okkur ítrekað fyrir að vera með svona sítt og mikið hár. Oft buðum við þér að flétta hárið þitt - sem þér þótti sérlega fyndið.

Í gegnum tíðina komstu víða við. Sinntir kirkjustarfi af miklum áhuga í Hvammskirkju og varst virkur í hinum ýmsu nefndum.

Þú varst bæði duglegur og drifinn og sinntir sveitastörfunum með prýði. Síðast en ekki síst traustur vinur, sannur sveitungur og yndislegur pabbi, afi og langafi.

Elsku afi, takk fyrir að reynast pabba og okkur öllum svo vel. Við minnumst þín með söknuði og þakklæti. Við munum aldrei gleyma góðu stundunum og einstaklega þéttu og góðu faðmlögunum.

Afi Nonni

Magnaður fjárbóndi og meiri háttar knapi,

moldríkur af margri dygðinni.

Með vit á því að vera í góðu skapi,

jafnt í æsku sem og ellinni.

Snauður af skaphita, ríkur af rólyndum,

handlaginn, útsjónarsamur og knár.

Sérlegar fróður þegar kom að kindum,

þó sköllóttur væri, kunni allt upp á hár.

Á Gauksstöðum með ömmu og börnin þrjú,

fumlaus, fjölhagur og léttur í lund,

Með að leiðarljósi þakklæti, von og trú,

allt fram á síðustu stund.

(Edda Borg Stefánsdóttir)

Þínar sonardætur,

Gígja Hrund, Klara Björk, Halla Mjöll og Edda Borg.