Ingibjörg Gísladóttir
Ingibjörg Gísladóttir
Eftir Ingibjörgu Gísladóttur: "Duttlungar Stalíns 1921 ættu ekki að standa í vegi fyrir kröfu íbúa Artsakh um sjálfstæði í nútímanum."

Í fjöllum Kákasus er lítið landsvæði er hefur verið byggt Armenum árþúsundum saman en sem alþjóðasamfélagið segir að sé hluti af Aserbaídsjan. Þetta svæði þekkjum við undir nafninu Nagornó-Karabak en íbúarnir kalla það Artsakh. Fyrsta manntal svæðisins var tekið 1823 og þá voru 90,8% þorpanna skráð armensk en 9,2% svæðisins byggðu þá tatarar og Kúrdar. Íbúar Artsakh eru aðeins um 140-150.000, langflestir kristnir enda var Armenía fyrsta þjóðin til að taka upp kristni sem ríkistrú. Aserar eru hins vegar múslimar og hafa svipaða tungu og menningu og Tyrkir, nema hvað þeir eru sjítar.

Á þessu svæði eru engar minjar um Asera en krafa þeirra um yfirráð svæðisins grundvallast á þeirri ákvörðun Stalíns 1921 að láta Nagornó-Karabakh fylgja Aserbaídsjan. Tveimur árum síðar gerði hann svæðið að sjálfstjórnarsvæði. Á tíma Sovétríkjanna ríkti að mestu friður á svæðinu en er þau tóku að liðast í sundur fóru íbúarnir að kalla eftir sjálfstæði, enda höfðu þeir ekki góða reynslu af nýlendustjórn Ottómana. 1988 samþykktu íbúar Artsakh að sameinast Armeníu en fyrr það ár frömdu Aserar fjöldamorð í bænum Sumgait og minnast Armenar þess 27. febrúar ár hvert. Fleiri „pogrom“ fylgdu, m.a. í Baku, höfuðborg Aserbaídsjan, í janúar 1990. Í skýrslu stjórnvalda til SÞ um stöðu kvenna 1997 er því lýst hvernig Armenar voru ofsóttir sakir trúar sinnar, krossar brenndir á bökum þeirra, þeir drepnir, pyntaðir, rændir og niðurlægðir og jafnvel stúlkubörnum nauðgað að foreldrum ásjáandi.

1991 braust út stríð milli Armeníu og Aserbaídsjan. Er samið var um vopnahlé 1994 höfðu meira en 30.000 manns látið lífið og Armenía náð undir sig stórum svæðum í Aserbaídsjan. OSCE var falið að finna lausn en hvorugur deiluaðila hefur viljað semja. Artsakh vill halda þeim svæðum sem það náði en Aserbaídsjan vill ná öllu svæðinu undir sig.

Forsætisráðherra Armeníu, Nikol Pashinyan, sagði í viðtali við France 24 að þessi nýjustu átök væru til komin vegna löngunar Erdogans til að endurreisa Ottómanaveldið. Assad Sýrlandsforseti er honum sammála og hefur sagt rússneskum fréttastöðvum að Erdogan sé á bak við þetta, hann fylgi stefnu Bræðralags múslima og hafi sent fjölda sýrlenskra jíhadista til að berjast gegn Armenum, líkt og hann hafi áður sent málaliða ásamt vopnum til Líbíu til að ná áhrifum þar. Syrian Observatory for Human Rights staðfestir að Tyrkir hafi sent a.m.k. 2.350 Sýrlendinga, 217 hafi verið drepnir og a.m.k. 320 snúið heim þegar þeir komust að því að þeir ættu að hætta lífinu fyrir sjíta.

Færi svo að Aserbaídsjan, með stuðningi Tyrkja, næði völdum í Artsakh myndi hið sama gerast og þegar Tyrkir lögðu Afrin undir sig. Þeir flæmdu Kúrdana á brott með ofbeldi og eyðilögðu margar menningarminjar þeirra. Samt var landsvæðið skráð kúrdískt í skjölum Ottómananna. Hið sama gerðu Tyrkir á 8. áratugnum er þeir lögðu norðurhluta Kýpur undir sig. Þeir ráku Grikki burt, rústuðu flestum kirkjum þeirra og hirtu helgigripina.

Tyrkir fara ekki leynt með útþenslustefnu sína. Stjórnmálamenn þeirra lofa kjósendum sínum því að leggja grískar eyjar undir Tyrkland og fylgjendur Erdogans kalla opinskátt eftir heimsyfirráðum. Sjá t.d. gazeteduvar.com.tr/gundem/2019/03/15/tugva-yoneticisi-ezan-yarim-kalan-viyana-fethine-niyet-tazelemektir þar sem Seher Senyuz úr æskulýðsdeild TUGVA talar um endurnýjun ásetningsins um landvinninga Rómar, New York, Peking, Tókíó, Moskvu, Berlínar, Parísar og Vínarborgar.

Armeníumenn líta svo á sem þjóðarmorði þeirra hafi aldrei lokið. Þegar í lok 19. aldar voru þeir farnir að flýja ríki Ottómana, sumir til Bandaríkjanna en margir til Rússlands. Töluverður hópur er einnig í Frakklandi, Georgíu, Líbanon, Íran og víðar. Eftir nokkur „pogrom“ kom að þjóðarmorði Armena 1915, er um 1,5 milljónir Armena voru drepnar. Á svipuðum tíma voru einnig pogrom í Baku (1905 og 1918). Tyrkir og Armenar hafa verið mjög samstiga í að berja niður allar hugmyndir þjóðarbrota um sjálfstæði og flýðu t.d. Yasídar undan Tyrkjum (m.a. til Armeníu) á tíma Ottómananna.

Stuðningsmenn Erdogans eru svo sem ekki að leyna andúð sinni á þeim sem ekki játa íslam. Fyrir ári mátti líta auglýsingaskilti á strætóskýlum í Konya þar sem við blasti blóðugur kross og gyðingastjarna ásamt texta úr Kóraninum (vers 5:51). Alþjóðasamfélagið lítur svo á að íbúar Artsakh séu í órétti í þessari deilu – allt út af Stalín – en hvað með sáttmálann um rétt frumbyggja sem SÞ samþykktu 2007? Það er örugglega ekkert í alþjóðalögum um rétt þjóða til útrýmingar annarra þjóða.

Við vorum fyrst til að lýsa yfir sjálfstæði Litháens. Jón Baldvin hafði hugrekki til þess. Við ættum einnig að vera fyrst til að taka undir ákall íbúa Artsakh um sjálfstætt ríki og bjóða þá velkomna í hóp smáþjóða. Stalín ætti ekki að stjórna neinu lengur í þessum heimi.

Höfundur starfar við umönnun aldraðra.

Höf.: Ingibjörgu Gísladóttur