Aðalbjörn Arnar Aðalbjörnsson fæddist í Hvammi í Þistilfirði 14. apríl 1935. Hann lést á dvalarheimilinu Nausti 8. nóvember 2020. Foreldrar hans voru Aðalbjörn Arngrímsson, f. 8. mars 1907, d. 23. jan. 1989, og Jóhanna María Jónsdóttir, f. 27. nóv. 1899, d. 6. ágúst 1986.

Systkini: Jón Aðalbjörnsson, f. 29. sept. 1927, d. 18. ágúst 2004, Guðrún Ragnhildur Aðalbjörnsdóttir, f. 20. ágúst 1929, d. 5. mars 1944. Ari Aðalbjörnsson, f. 20. ágúst 1929, d. 4. mars 1986.

Aðalbjörn giftist Sigríði Kristínu Andrésdóttur á jóladag 1961 og börn þeirra eru Gunnur Andrea Jóhannsdóttir, f. 7. jan. 1960, Arna Ragnhildur Arnarsdóttir, f. 13. júní 1961, Aðalbjörn Arnarsson, f. 15. nóvember 1962, Ölver H. Arnarsson, f. 9. maí 1973. Arna á þrjú börn, Bjarna, Írisi Sigríði, hún býr með Svavari Dór og þau eiga saman tvö börn. Yngst er Nína Rut og hún á tvær dætur.

Aðalbjörn og sambýliskona hans, Jóhanna Sigríður, eiga saman Hildi Kristínu sem býr með Daníel Harðarsyni, Hildur á tvær dætur og Daníel fjögur börn.

Jóhanna Regína er gift Jóni Hafliðasyni, saman eiga þau tvær dætur, fyrir á Jón einn son. Yngstur er Arnar og hann býr með Lovísu Margréti.

Ölver Hjaltalín er kvæntur Önnu Maríu, saman eiga þau þrjú börn, Gísla, Andreu og Maríu. Unnusta Gísla heitir Hekla Gunnarsdóttir.

Skólagangan var stutt og í formi farskóla í sveitinni. Arnar ólst upp við hefðbundin sveitastörf í Hvammi, ásamt smíðavinnu frá unga aldri með afa sínum, bæði við trésmíðar og járnsmíðar. Eftir að hann hleypti heimdraganum fór Arnar á vertíð suður og vann við landvinnslu á fiski. Fór aftur til Þórshafnar og réð sig á bílaverkstæðið hjá Hauki frænda sínum. Gerði út vörubíl um nokkurra ára skeið. Eftir það réðst hann í ríkislögregluna á Keflavíkurflugvelli og sem lögregluþjónn á Þórshöfn. Hjónin fluttu í Hvamm og stofnuðu þar nýbýlið Víðimörk og stunduðu búskap um 13 ára skeið, ásamt því að reka vélaverkstæði í Hvammi. Á seinni búskaparárunum keypti Arnar jarðýtu, og vann með búinu á henni ásamt því að gera út á grásleppubát á vorin.

1976 brugðu þau búi og ákváðu að byggja á Þórshöfn, það varð úr. Í því húsi bjuggu þau í 44 ár. Mestan sinn starfsaldur starfaði Arnar sem verktaki, vann sjálfur á jarðýtu, átti verkstæði og gerði yfirleitt við sínar vélar sjálfur. Þeir feðgar stofnuðu félagið Arnar og Aðalbjörn sf. utan um jarðýturekstur og ráku það í nokkur ár. Hann vann sem lagermaður á bílaverkstæði KL. Arnar átti lengstan hluta ævi sinnar smábáta, sem hann gerði út með annarri vinnu. Arnar var varamaður í stjórn Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis, sat um árabil í stjórn veiðifélags Hafralónsár, var í Lionsklúbbi Þórshafnar um skeið.

Útförin verður gerð frá Þórshafnarkirkju í dag, 14. nóvember 2020, klukkan 14. Fjöldatakmarkanir leyfa bara nánustu ættingja við athöfnina.

Útförinni verður streymt:

https://livestream.com/luxor/arnar

Virkan hlekk á streymi má nálgast á:

https://www.mbl.is/andlat

Elsku pabbi. Mikill er missirinn. Ég var lamaður af sorg í tvo sólarhringa, en er aðeins að ná vopnum mínum á ný. Margs er að minnast. Ég naut þeirra forréttinda að vera yngstur af systkinunum. Því höfðum við meiri tíma einir. Ég var alltaf mjög mikill pabbastrákur og naut þess að þvælast með þér í öllu sem þú varst að brasa við. Liggja á olnboga þínum og hlusta á þig lesa fyrir mig. Ófáar ferðir fórum við til að gera við jarðýtuna þegar ég var 10 til 12 ára, alltaf virtist ýtan þannig staðsett að nauðsynlegt væri að ég keyrði hana nokkra metra og dræpi svo á henni. Það var ekki leiðinlegt fyrir 12 ára gutta. Þér þótti ekkert tiltökumál að ég færi á snjósleða í skólann 14 ára og enn minna mál að ég færi með á rjúpnaveiðar vopnaður riffli, fyrir fermingu. Þú varst alltaf fyndinn og skemmtilegur og mér nægði bara að þvælast með sama hvert erindið var. Þú talaðir gullaldarmál, og nýt ég endalaust góðs af því að hafa alist upp við það orðfæri. Ég hefði ekki getað hugsað mér betri pabba, enda er óvíst að þeir séu til. Þú treystir mér strax eins og fullorðnum manni, og 15 ára fékk ég að vera með Víði ÞH á skaki aleinn. Allar snjósleðaferðirnar, gjarnan haft söngvatn á fleyg með og tekið af því á áningarstöðum.

Þú varst hraustmenni, ótrúlega handstór og handsterkur. Man sögur sem mér voru sagðar að þú hefðir dregið alla í kefli og smeyg, sem voru kraftaíþróttir þess tíma enda voru hendurnar á þér eins og skrúfstykki. En ótrúlega flinkur í höndunum, góður viðgerðamaður og suðumaður. Hrekkjalómur varstu eins og flestir Hávarðsstaðamenn. Ein saga er sérlega minnisstæð, þá varstu skotmaður á sláturhúsinu, skaust lamb og þegar það var dautt stakkstu steypustyrktarteini ofan í hálsinn á því. Það þarf ekki mikið að fjölyrða um það hvernig manninum hinum megin við vegginn gekk að skera hausinn af, sargandi í steypustyrktarteininum. Þú hafðir fallega söngrödd, varst kvennaljómi, og eins og þær sögðu á sjúkrahúsinu á Húsavík „alger sjarmör“ fram í andlátið. Mér er ákaflega minnisstætt símtal sem við áttum. Þú orðinn áttræður, alveg ganglaus. „Það er grafa til sölu í Skagafirði.“ Ég spyr: hvað ætlar þú að gera með hana, þú kemst ekki einu sinni upp í hana. Gamli svaraði, „nei, ekki hjálparlaust, en ég gæti sem best unnið á henni allan daginn, ef einhver gæti lyft mér upp í hana.“ Hverju svarar maður svona? Alltaf þessi hugur til framkvæmda þótt getan væri horfin úr skrokknum. Allir vinir mínir urðu þínir vinir líka. Öllum fannst þú svo indæll. Einn þeirra sagði um daginn „Mér finnst eins og ég hafi alltaf þekkt pabba þinn.“ Það sem við áttum var hrein og falleg vinátta, það leið varla sá dagur að við töluðum ekki saman í síma. Ég mun sakna þeirra símtala alveg hroðalega mikið. Ég var ekki bara að missa pabba minn, heldur líka minn allra besta vin í lífinu. Fyrirmynd mína.

Guð geymi þig og varðveiti, elsku pabbi minn. Við lítum eftir mömmu fyrir þig. Góða ferð, elsku pabbi minn, í sumarlandið. Kveðja

Ölver.

Elsku yndislegi tengdafaðir minn er dáinn, það brast eitthvað inni í mér þegar ég fékk fréttirnar.

Þegar ég hitti Arnar tengdaföður minn í fyrsta sinn, sá ég strax að þarna var stórmenni. Hann var í skúrnum, skítugur upp fyrir haus að brasa í einhverri vél, algjörlega á sínum heimavelli. En þegar hann leit upp og horfði í augun á mér átti hann mig skuldlaust. Ég segi alltaf að ég hafi unnið í tengdaforeldralottóinu því betra fólk er ekki hægt að hafa í sínu horni. Heiðarleg, ráðagóð, húmorísk og skemmtileg. Ég á eftir að sakna þess að sitja við eldhúsborðið á Sunnuveginum og spjalla um allt og ekkert, næla okkur í súkkulaðimola úr búrinu og leysa eins og eina krossgátu, horfa á söngvakeppnir og spurningaþætti. Hlusta á allar sögurnar sem hann sagði svo listavel eða bara sitja í þögninni, allt var gott með tengdapabba.

Arnar var einstaklega barngóður og sá ekki sólina fyrir öllum afagullunum. Hann var ákaflega stoltur af þeim öllum og hafði ómældan áhuga á öllu því sem þau voru að gera, alltaf. Hann var með stóran faðm og umvafði hvert þeirra með ást og kærleika.

Skarðið er stórt en við yljum okkur við minningar um fallegan og góðhjartaðan mann.

Umhyggju og ástúð þína

okkur veittir hverja stund.

Ætíð gastu öðrum gefið

yl frá þinni hlýju lund.

Gáfur prýddu fagurt hjarta,

gleðin bjó í hreinni sál.

Í orði og verki að vera sannur

var þitt dýpsta hjartans mál.

(Ingibjörg Sigurðardóttir)

Elsku tengdapabbi, takk fyrir allt.

Þín tengdadóttir

Anna María.

Elsku afi. Orð geta ekki lýst því hversu sárt við söknum þín. Við erum svo þakklát fyrir allar stundirnar sem við áttum saman. Þú varst með einstaka nærveru og ljúfur maður. Þú sast aldrei auðum höndum, hvort sem það var að grúska í skúrnum, bátnum eða bílum. Einstaklega laginn og lausnamiðaður því í þinni orðabók var orðið ónýtt ekki til. Þú varst með hjarta úr gulli og voru öll barnabörnin þín kölluð afagull. Þú kenndir okkur þakklæti og varst alltaf tilbúinn til að hjálpa okkur, sama hversu stórt eða smátt verkefnið var. Allt sem þú kenndir okkur er ómetanlegt. Við vorum alltaf velkomin og áttum helst að koma með mola sem við gætum gætt okkur á saman og spjallað um daginn og veginn.

Miklavatnsferðir með þér standa upp úr þar sem við brölluðum margt og þar fengum við að sitja undir stýri og keyra.

Þegar þú komst í bæjarferð var fyrsta stoppið á KFC þar sem þú bauðst okkur öllum upp á kjúkling sem þótti skondið þar sem þú hafðir oft orð á því að kjúklingur væri ekki mannamatur en KFC þótti þér þó afskaplega góður matur.

Þegar þú horfðir á okkur með þessum góðlegu og hlýju augum og sagðir að við værum afagullin þín með bros á vör fylltist maður ást og fann hversu mikla væntumþykju þú barst til okkar allra. Ást okkar til þín fá orð vart lýst. Þessar dýrmætu minningar munu lifa með okkur barnabörnunum þínum að eilífu.

Kveðja, afagullin þín úr Kópavogi,

Bjarni, Íris, Nína, Gísli, Andrea og María.

Nafni

Elsku afi, mikið er erfitt að missa þig, þú hefur verið besti afi og vinur sem hægt er að hugsa sér, við áttum alveg sérstaka tengingu sem mér þykir óendanlega vænt um.

Ýmislegt brösuðum við saman í gegnum tíðina og lærði ég margt af þér og ömmu. Mér þótti alltaf best að vera með þér að brasa hvort sem það var úti í skúr eða kúra hjá þér í stólnum og horfa á Tomma og Jenna. Það var alltaf gaman þegar við komum inn úr skúrnum með skítugar hendur og fórum inn til ömmu í kaffi þá var amma ekki mjög hrifin og rak okkur inn að þvo okkur betur, alltaf kom sama brosið hjá þér þegar hún bað okkur um þetta. Allar ómetanlegu stundirnar með þér og pabba í Miklavatni að brasa við alls konar smíðavinnu og viðhaldsvinnu, og allar stundirnar niðri við vatn þar sem þú hjálpaðir mér við að veiða með veiðistöng þó að þú vissir alveg að silungurinn myndi ekkert bíta á.

Þú hafðir endalausa þolinmæði og leyfðir mér alltaf að koma með í alls konar ævintýri.

Læt ljóð fylgja hér með sem mér finnst fallegt og eiga vel við:

Þó sólin nú skíni á grænni grundu

er hjarta mitt þungt sem blý,

því burt varst þú kallaður á örskammri stundu

í huganum hrannast upp sorgarský.

Fyrir mér varst þú ímynd hins göfuga og góða,

svo fallegur, einlægur og hlýr.

En örlög þín ráðin - mig setur hljóða,

við hittumst samt aftur á ný.

Megi algóður guð þína sálu nú

geyma

gæta að sorgmæddum, græða

djúp sár.

Þó kominn sért yfir í aðra heima

mun minning þín lifa um ókomin ár.

(Höf. ókunnur)

Afi, ég er þér óendanlega þakklátur fyrir allt sem þú gafst mér.

Elsku afi, þú hefur alltaf átt og munt alltaf eiga sérstakan stað í hjarta mínu.

Þakka þér fyrir allan okkar tíma saman og allt sem þú kenndir mér.

Þinn nafni

Arnar Aðalbjörnsson.

Elsku besti afi okkar.

Mikið var erfitt að fá símtalið um að þú værir farinn.

Það er ekkert sem getur undirbúið mann fyrir að missa ástvin.

Þetta gerðist hratt og við erum afar þakklátar fyrir að þú þjáðist ekki eða fannst til.

Mest þakklátar erum við fyrir allar minningarnar, allt sem þú kenndir okkur og gafst okkur. Minningar frá öllum jólunum sem við áttum saman. Minningar frá Miklavatni, þangað fórum við öll saman heilu helgarnar og oft komum við um helgar að heimsækja ykkur pabba sem gátuð verið þarna dögum saman að brasa í alls konar smíðavinnu eða viðgerðum. Allir kaffitímarnir og matarboðin á Sunnuveginum, ævinlega var þetta eins og veisluborð, allt frá sviðalöppum og signum fiski sem vöktu mismikla hrifningu, til kjötsúpunnar hennar ömmu, lambalæris og tölum ekki um saltkjötið og baunirnar. Allt sem amma eldaði og bakaði var alltaf best, einhvern veginn var alltaf pláss fyrir alla við eldhúsborðið. Best fannst þér að vinna á ýtunum þínum, komst heim í hádegismat og lagðist svo í bekkinn þinn inni á skrifstofu til að hlusta á hádegisfréttirnar áður en að þú færir aftur út að vinna, þú hélst þessu áfram eftir að þú hættir að vinna, nema þá fórstu út í bílskúr að brasa í alls konar hlutum.

Þú hefur alla tíð verið alveg ótrúlega laghentur og alltaf til í að hjálpa þegar þurfti að laga eitthvað.

Við höfum alltaf sagt „Ef afi og pabbi geta ekki lagað það þá er það ónýtt.“

Þegar við fórum að eignast börn þá kallaðir þú þau afagull eins og þú kallaðir okkur öll barnabörnin, ásamt öðrum gælunöfnum.

Þú knúsaðir þau og kysstir eins og okkur, ævinlega laumaðir þú einhverju gotteríi sem þú áttir ofan í skúffu til þeirra.

Það er ekki hægt að lýsa því með orðum hvað þið amma hafið reynst okkur vel alla tíð, það var ómetanlegt að geta hlaupið margar ferðir á dag upp kirkjutúnið frá þriggja ára aldri til að koma til ykkar ömmu, yfirleitt var amma inni að baka og þú úti í bílskúr að gera við einhverja bíla eða með bátinn inni að gera hann fínan.

Þú skilur eftir þig stórt skarð sem erfitt verður að venjast.

Þú skilur líka eftir þig svo mikla hlýju og hjartagæsku.

Við vitum að það voru margir góðir sem tóku á móti þér þegar þú fórst.

Við vitum líka að þú vakir yfir ömmu og okkur öllum.

Við skulum passa upp á ömmu fyrir þig og hjálpa henni í gegnum þennan missi.

Við elskum þig og gleymum þér aldrei.

Takk fyrir allt, elsku afi.

Þín afagull

Hildur Kristín

Aðalbjörnsdóttir

og Jóhanna Regína

Aðalbjörnsdóttir.

Fyrrverandi tengdafaðir, Arnar Aðalbjörnsson, afi þriggja barna okkar Örnu og langafi 4 barna þeirra. Hans verður sárt saknað í fjölskyldu okkar.

Hjálpsamur, kærleiksríkur, skilningsríkur, samúðarríkur, vongóður, glaður og ástríkur eru orð sem koma mér til hugar þegar lýsa á Arnari.

Ég kynntist Arnari 19 ára að aldri og fann strax þegar ég horfði í augu þessa manns að hér væri maður sem geislaði birtu frá hjarta sínu og sál.

Arnar og Sigga Stína opnuðu heimili sitt fyrir mig og þótti mér ég alltaf velkominn þaðan í frá. Hér var heimili sem mig langaði að vera á og fann þar ró og frið. Hér fannst mér heimahöfnin mín vera.

Arnar var klettur og í mínum huga var hann fullkomin fyrirmynd. Hann kenndi mér margt og hefði ég getað lært mun meira ef ég hefði verið móttækilegri fyrir því.

Hann var rólegur herramaður og þegar upp komu erfiðleikar tók hann þeim af yfirvegun. Eitt af mörgum atvikum sem koma mér til hugar var þegar rör stíflaðist fyrir utan húsið um miðjan vetur, með tilheyrandi frosti, vindi og snjó.

Þetta stórviðri kom ekki í veg fyrir að hann tæki sig til og græfi upp freðna jörðina milli húss og bílskúrs. Eftir að hann hafði klárað verkið gat ég ekki annað en dáðst að dugnaðinum og spurði hvort hann fyndi ekki til í þessum stóru kraftmiklu höndum, þær voru ískaldar. Hann horfði til mín brosandi og leit beint í augun á mér og sagði „jú jú“ og fór inn í hús, án þess að segja nokkuð meir. Þetta var hann Arnar, alltaf rólegur og yfirvegaður þegar eitthvað erfitt lá fyrir og gekk að verkinu eins og sjálfsögðum hlut án þess að vilja hrós né kossa.

Börnin okkar Örnu voru alltaf spennt fyrir því að heimsækja afa og ömmu. Hans verður sárt saknað en minning hans lifir í sögum og anda.

Þinn fyrrverandi tengdasonur,

Már.

Yndislegur vinur er fallinn frá. Þrátt fyrir að okkar kynni haft aðeins staðið í einn áratug var vináttan gefandi og traust. Við kynntumst sæmdarhjónunum á Heilsustofnun í Hveragerði. Arnar vakti strax máls á því hve mikilvægt væri fyrir mig að koma norður og aka út á Langanes með viðkomu á æskuslóðum mömmu í Skoruvík þar sem hún var fædd og uppalin. Við renndum til Þórshafnar næsta sumar og áttum dýrðardaga á heimili Siggu og Arnars þar sem sonur þeirra Ölver sló upp stórveislum hvern dag, en hann var í heimsókn með fjölskyldu sína hjá foreldrunum. Við fórum þetta á tveimur stórum jeppum, við hjónin ásamt Siggu og Arnari, en Ölver sonur þeirra og hans fjölskylda með honum í bíl. Ferðin út á Langanes var samfellt ævintýri. Að fara þessa áður fáförnu leið með heimamönnum sem þekktu hvern krók og kima og kunnu einnig góð skil á forfeðrum mínum, amma var frá Skoruvík, en afi var frá Skálum á Langanesi en milli þessara staða eru ca. 4 km. Fyrir ferðina út á Nesið höfðu Sigga og Anna tengdadóttir hennar útbúið ríkulegt nesti til fararinnar og voru gerð þrjú „veislustopp“ í ferðinni. Eftir þennan stórkostlega dag saman héldum við góðu sambandi ýmist um síma eða sendum bréf milli landshornanna. Síðastliðið sumar hringdi Arnar vinur minn og spurði hvort við hefðum ekki verið búin að ákveða að koma á Þórshöfn í sumar. Hann sagði við erum að flytja í Naust, sem er Dvalarheimili, en eigum húsið okkar tilbúið. Við ætlum ekkert að sleppa því fyrr en þið eruð búin að koma og gista í því. Þar er nóg pláss eins og þú veist. Tveimur dögum síðar vorum við mætt á Þórshöfn og áttum enn einu sinni dýrðardaga með Arnari og fjölskyldu hans. Ölver sonur þeirra var mættur líkt og í fyrri ferð okkar og nú á glæsilegum húsbíl. Hann hoppaði sem fyrr í eldhúsið hjá „mömmu“ og galdraði fram hverja stórveisluna af annarri. Á æskudögum mínum dvaldi ég í eitt og hálft ár hjá ömmu og afa á Þórshöfn. Ég gekk í barnaskóla hjá Ólafi Möller og man vel eftir honum þótt liðin séu um 70 ár síðan. Þegar ég lít um öxl finnst mér tíminn á Þórshöfn hafa verið einstaklega yndislegur og góður tími. Mér finnst svo ánægjulegt að muna bæinn svona eins og hann var, húsaskipan og hve snjórinn var mikill um veturinn. Alltaf var nægilegt að bíta og brenna, nógur matur í kjallaranum hjá ömmu og afa, AGA-kokseldavélin hélt góðum yl í litla kotinu, sem hét Sólberg í þá gömlu góðu daga.

Það hefur verið mér og Iðunni minni ómetanlegt að eignast þessa góðu vini, Siggu, Arnar og stórfjölskyldu þeirra.

Við þökkum yndislegar og gefandi samverustundir og trausta vináttu. Góður Guð blessi minningu Arnars. Við kveðjum hann með miklum söknuði og sendum Siggu og börnum þeirra og fjölskyldum okkar ljúfustu samúðarkveðju og þakkir fyrir einstaka og fallega vináttu. Ástarkveðjur.

Iðunn og Ólafur Gränz.